REYKVÍKINGUM hefur náttúran reynzt örlát á fegurð sína. Auk þess að gera tilkomumikinn fjallahring að umgjörð höfuðstaðarins hefur hún prýtt bæjarlandið sjálft á ýmsan veg. Þar verður meðal þess bezta talinn Elliðaárdalur. En svo hraklega hefur til tekizt, að þar hafa framin verið náttúruspjöll sem Reykvíkingum eru til skammar.
Helgi Hálfdanarson Náttúruperlu fórnað

REYKVÍKINGUM hefur náttúran reynzt örlát á fegurð sína. Auk þess að gera tilkomumikinn fjallahring að umgjörð höfuðstaðarins hefur hún prýtt bæjarlandið sjálft á ýmsan veg. Þar verður meðal þess bezta talinn Elliðaárdalur.

En svo hraklega hefur til tekizt, að þar hafa framin verið náttúruspjöll sem Reykvíkingum eru til skammar. Með frekju ráðamanna var önnur meginkvísl árinnar stífluð, og Kermóafoss, sú einstaka gersemi, þar með brott hrifinn úr landslaginu.

Út yfir tekur, að engin nauður rak til þessara skemmdarverka, sem vart verða kölluð annað en opinber strákapör. Þar var einungis dekrað við ógerðareðli laxveiðimanna, sérstæðu náttúrudjásni fórnað fyrir ágengni þeirrar manntegundar sem hefur ekki hugmyndaflug til annarrar skárri afþreyingar en að kvelja kvikindi. Þar er ekki til að dreifa þörf í atvinnuskyni, heldur óartinni einni saman.

Í Elliðaárdal hefði siðað fólk margs að njóta, einnig þess að fylgjast með tápmiklu hátterni laxins og þokkafullum hreyfingum hans í tæru bergvatninu, ef ekki þyrfti að hafa ömun af veiðigörpum, sem mega ekki vita af svo fallegri skepnu án þess að brenna af fýsn til að krækja öngli í kjaftinn á henni, og helzt í magann innanverðan, og gerast þeim mun sælli og hreyknari sem lengur treinist kvöl hennar unz hún örmagnast. Það eitt skortir, að laxinn geti gefið frá sér þjáningarhljóð, sem hlytu að auka hamingju veiðimannsins til muna.

Það væri viðlíka mannsbragur að mega ekki sjá sprækan fola í haga nema senda honum dugleg haglaskot í kviðinn og njóta þess í sæluvímu að sjá hann æða um í lokaðri girðingu trylltan af kvöl og angist, unz honum loks hyrfi dagurinn og hann hnigi niður, hefði hann þá ekki áður sloppið burt með sár, sem verri væru en bráður dauði.

Svo góð skemmtun er reyndar bönnuð, og lög sett sem kveða á um aflífun dýra á sem mannúðlegastan hátt. Þó verður laxinn að þola atlot stangveiði-þjarka óátalið, hvers sem hann á að gjalda.

Svo kóróna þessir heiðursmenn manndóm sinn með því að rífa upp ánamaðka, sem ætla má einhver viðkvæmustu dýr sem móðir Jörð elur, og þræða þá kvika upp á öngulinn. Síðan eru þeir vísir til að rausa fjálglega um fegurð og yndisleik náttúrunnar, lifandi og dauðrar, og dilla upp í hástert ást sinni á blessuðu sköpunarverkinu.

Ömurlegast er þó að heyra þetta lið státa sig með steigurlæti af því sem það kallar "veiðiíþrótt". Sér er nú hver íþróttin! Þeir raupa jafnvel af iðju sinni sem einhvers konar frækilegu "einvígi" við laxinn, og láta mynda sig með óvættina dauða í greipum sér og rogginn hetjusvip Georgs drekabana á andlitinu. Kannski er það dálítið sérkennilegt einvígi og ekki beint hetjulegt, að einungis annar þeirra, sem eigast við, er í hættu, sá sem ekki á kost á öðrum bardaga en að reyna í örvæntingu að slíta sig helsærðan úr fólskubrögðum árásarmannsins. Jafnvel spænskir nautabanar leggja sjálfa sig í nokkra hættu í atinu, svo að sú siðlausa skrílskemmtun er að því leyti ekki nærri eins löðurmannleg og stangveiði.

Ekki er langt síðan fréttist af erlendum veiðigörpum sem vildu óðfúsir kaupa það af bændum að fá að stunda stangveiði í ám þeirra með því skilyrði, að þeir slepptu þeim fiskum lifandi sem þeir veiddu, hvernig sem þeir kynnu að verða útleiknir. Enda hafa þessir sómapiltar lýst því yfir, að það eina, sem þeir sækist eftir, sé gamanið af að "þreyta laxinn". Þar er ekki verið að fela eðlið á bak við uppgerðar-aflahvöt; fúlmennskan er auglýst blygðunarlaust.

Oft hefur heyrzt, að það séu öðrum fremur lítilmótlegar aurasálir, sem haldnar séu þessari náttúru. Kannski er þess að vænta, að saman fari hvötin til að pína varnarlausar skepnur og að féfletta náungann. Hér skal það ósagt látið. En maklegt væri að dæma hvern þann í tukthús, sem léti sjá sig úti í friðsælli náttúrunni með annað eins píslartól og veiðistöng; og væri samt óverðugum sýnd miskunn. Ef þeirra eigið innræti væri haft með í ráðum, þá yrði þeim járnkarl í rass rekinn og út um kjaft.

Það er Reykvíkingum til stórrar vanvirðu, að sjálf borgaryfirvöldin skuli ala á þessari kauðalegu villimennsku og fórna fyrir hana dýrmætu djásni, sem náttúran var svo gálaus að trúa þeim fyrir. Ef einhver menningar-glæta tórði í stjórn Reykjavíkurborgar, léti hún banna allan veiðiskap í Elliðaánum nema í dragnet, og færa suður-kvíslina í sitt náttúrlega horf, svo að Kermóafoss fengi að nýju skartað sinni sérkennilegu fegurð.