VATNSLEYSI og hiti hamlar veiði í ánum fyrir norðan og austan og eru menn orðnir heldur daprir á þeim vígstöðvum. Þar er annars nóg af fiski, en hann tekur illa. Í Miðfjarðará er nóg af fiski, en hann gefur sig mjög illa, að sögn Benedikts Ragnarssonar, leiðsögumanns þar. Þegar síðasta holl fór frá honum voru 115 laxar komnir upp úr ánni, á móti 190 á sama tíma í fyrra.
ERU ÞEIR AÐ FÁ'ANN?

Lítið vatn og heitt fyrir

norðan og austan

VATNSLEYSI og hiti hamlar veiði í ánum fyrir norðan og austan og eru menn orðnir heldur daprir á þeim vígstöðvum. Þar er annars nóg af fiski, en hann tekur illa.

Í Miðfjarðará er nóg af fiski, en hann gefur sig mjög illa, að sögn Benedikts Ragnarssonar, leiðsögumanns þar. Þegar síðasta holl fór frá honum voru 115 laxar komnir upp úr ánni, á móti 190 á sama tíma í fyrra. "Áin er vatnslítil en nú er loksins farið að rigna. Þetta er alveg sama sagan í Laxá á Ásum og Laxá í Aðaldal, þessar ár á Norðurlandi eru að verða vatnslausar á meðan allt er að rigna niður fyrir sunnan," segir Benedikt.

Við veiðar í Miðfjarðará eru nú Ítalir og Þjóðverjar með tíu stangir. "Þeir eru að berja á stóra laxinum í efri hluta árinnar, þessir stóru eru aðeins farnir að gefa sig og við sjáum þá út um allt. Þeir stærstu sem komnir eru úr ánni eru tveir 20 punda," segir Benedikt.

Vatnið alltof heitt

Sveinn Ingason, leiðsögumaður við Vatnsdalsá, hefur svipaða sögu að segja. "Það er frekar lágt í ánni, bongóblíða dag eftir dag og vatnið orðið alltof heitt, þannig að þetta er frekar dapurt. Áin er allt að 20 gráðu heit hérna neðst. Annars var nokkuð gott hérna framanaf, áin var opnuð 26. júní og síðan eru komnir 158 fiskar á land ­ ég held að menn geti verið sæmilega sáttir við það," segir Sveinn. Töluvert hefur verið um 14, 15 og 16 punda fiska og einn 22 punda veiddist strax í fyrsta hollinu, að sögn Sveins.

Í Víðidalsá er lítið að hafa, að sögn Brynjólfs Markússonar, leigutaka þar. "Það vantar ekki að það sé lax í ánni, en hann safnast bara upp í stóru hyljina og liggur þar á botninum. Þetta lagast ekkert fyrr en einhverjar breytingar verða á veðri," segir Brynjólfur.

Veitt er á átta stangir í Víðidalsá og þar eru veiðimenn frá ýmsum löndum, sem taka þessu öllu með jafnaðargeði, að sögn Brynjólfs. Þar var byrjað að veiða 18. júní og upp úr ánni eru komnir um 150-160 laxar, sá stærsti 18 punda.

Stærsti laxinn sem kominn er úr Hofsá í Vopnafirði er 18,5 punda hængur, veiddur á litla túbu, svarta og gula, að sögn Sigurpáls Guðmundssonar, veiðivarðar með meiru. Þar hafa veiðst 153 fiskar síðan 27. júní.

Góð veiði í Meðalfellsvatni

Í Hofsá er eins og víðar rólegt þessa dagana vegna hita og vatnsleysis, en Sigurpáll er bjartsýnn. "Smálaxinn er að byrja að koma, það tínist einn og einn og fer vonandi að koma gusa fljótlega. Hér hefur verið góður fiskur og meðalvigtin mjög góð, algeng stærð er um 11 pund. Veiðin er mun betri en í fyrra, þá voru ekki komnir nema 38 fiskar 14. júlí og þá var meirihlutinn líka smáfiskur." segir Sigurpáll.

Í Meðalfellsvatni er nóg af vatni og nóg af fiski, bæði laxi og silungi, að sögn Steinunnar Þorleifsdóttur, húsfreyju á Meðalfelli í Kjós. "Silungsveiðin er miklu betri núna en í fyrra og sérstaklega var vorveiðin skemmtileg," segir Steinunn.

HANN var ánægður með veiðina, hann Sigurður S. Tómasson, sem fékk rúmlega fimm punda lax í Meðalfellsvatni um síðustu helgi. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann veiddi í Meðalfellsvatni, því þar fékk hann sinn fyrsta lax þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall.