Millirifjagigt Spurning: Fyrir um það bil ári fékk ég heiftarlegan verk undir vinstra handarkrika sem leiddi út í handlegg. Þetta var skilgreint sem millirifjagigt og eftir nokkra nuddtíma lagaðist verkurinn. Nú er þetta hins vegar komið aftur og mér hrýs hugur við þeim kostnaði sem því fylgir að stunda nudd að staðaldri.
Af hverju stafar millirifjagigt?

Magnús Jóhannsson læknir svarar spurningum lesendaMillirifjagigt

Spurning: Fyrir um það bil ári fékk ég heiftarlegan verk undir vinstra handarkrika sem leiddi út í handlegg. Þetta var skilgreint sem millirifjagigt og eftir nokkra nuddtíma lagaðist verkurinn. Nú er þetta hins vegar komið aftur og mér hrýs hugur við þeim kostnaði sem því fylgir að stunda nudd að staðaldri. Af hverju stafar millirifjagigt og er hægt að koma í veg fyrir að fá hana?

Svar: Millirifjagigt er hluti af stærri heild sem oft er kölluð vefjagigt og tengist stundum síþreytu eða ristilertingu. Sumir telja vefjagigt, síþreytu og ristilertingu einungis mismunandi fleti á sama grunnsjúkdómi. Áður fyrr var almennt talið að vefjagigt stafaði af bólgum í vöðvum eða að um ímyndunarveiki væri að ræða en nú er viðurkennt að hvorug skýringin á við rök að styðjast. Ekki er um bólgur að ræða og við vefjarannsókn sjást yfirleitt engar breytingar. Margir sjúklingar með vefjagigt eru haldnir þunglyndi og kvíða en talið er að það sé afleiðing sjúkdómsins en ekki orsök. Orsakir vefjagigtar eru óþekktar þó svo að ýmsar kenningar hafi komið fram. Sú kenning sem mestan hljómgrunn hefur fengið er að vefjagigt tengist truflunum á djúpum svefni og tekist hefur að framkalla sjúkdómseinkennin með því að svipta fólk djúpum svefni. Vefjagigt er algengur sjúkdómur og nýlega var áætlað að 2-4% fólks fengi hann einhvern tíma á ævinni og er meirihlutinn konur. Án meðferðar getur vefjagigt valdið miklum veikindum og örorku og er því um verulegt heilbrigðisvandamál að ræða. Greining sjúkdómsins byggist fyrst á því að útiloka aðra sjúkdóma eins og t.d. kransæðasjúkdóm með hjartaöng og síðan þarf að taka sjúkrasögu og finna auma bletti á líkamanum. Þessir blettir geta verið hvellaumir ef þrýst er á þá og þeir eru a.m.k. 18 talsins (9 á hvorri hlið líkamans). Meðferð getur verið margþætt og má þar einkum nefna lyf sem bæta djúpan svefn (aðallega geðlyfið amitriptýlin í litlum skömmtum), reglulegan svefn, daglega líkamsþjálfun, að forðast mikið líkamlegt og andlegt álag, nudd og almenna fræðslu um sjúkdóminn. Sjúklingar með vefjagigt eru oft álitnir ímyndunarveikir og þurfa því stuðning og uppörvun. Góður svefn og hæfileg líkamsþjálfun eru sennilega það sem skiptir mestu máli. Fara verður rólega af stað með líkamsþjálfunina, þeir sem eru langt niðri ættu að byrja með 3-5 mínútur á dag sem síðan má auka jafnt og þétt. Flestir þurfa að æfa í 20-30 mínútur á dag áður en þeir fara að finna mun. Margir þurfa að prófa sig áfram með heppilegar æfingar og of miklar æfingar geta gert ástandið miklu verra. Sund og ganga hentar þó nánast öllum. Líkamsæfingar er best að gera síðla dags vegna þess að þá hafa þær meiri svefnbætandi áhrif. Létt nudd, hitabakstrar og góð hvíld hjálpar mörgum. Sjúklingar með vefjagigt ættu að forðast reykingar, koffein (kaffi, te og kóladrykki) og áfengi. Sumir sjúklingar hafa fundið að vissar fæðutegundir gera einkennin verri og er þar oft um að ræða fitu og fituríkan mat. Vefjagigt er sjúkdómur sem hefur tilhneigingu til að vera langvarandi og gera vart við sig aftur og aftur.

Þorsti

Spurning: Ég er karlmaður á sextugsaldri og hef að undanförnu fundið fyrir óeðlilega miklum þorsta annað slagið. Sykursýki er ekki í ættinni. Er einhver önnur skýring á þessu?

Svar: Venjulega er hollt að drekka mikið vatn. Ef þorsti fer úr hófi getur hann hins vegar verið merki um líkamlegan eða andlegan sjúkdóm. Helstu ástæður mikils þorsta eru vökvatap við áreynslu og svitnun, sótthiti, saltur eða mikið kryddaður matur, sykursýki, þvagflæði (diabetes insipidus), notkun sumra lyfja, vökvatap vegna blæðingar eða bruna og þorsti af sálrænum toga. Allir geta fengið sykursýki hvenær sem er ævinnar, hvort sem sjúkdómurinn er í ættinni eða ekki. Fyrstu einkenni eru oft mikil þvaglát, þorsti og þyngdartap. Tiltölulega auðvelt er að greina sykursýki en það er venjulega gert með því að mæla magn sykurs í blóði. Sykursýki stafar af því að briskirtillinn hættir að framleiða insúlín eða framleiðir of lítið af því og við það hækkar magn sykurs í blóði. Ef sykurmagnið fer yfir viss mörk, skilst sykur út í þvagi, hann dregur með sér vatn, þvagmagnið eykst og það leiðir til þorsta. Miklu sjaldgæfara er þvagflæði sem er oftast vegna truflunar á starfsemi heiladinguls eða aðliggjandi heilastöðva sem leiðir til mikils þvagmagns og meðfylgjandi þorsta. Hver sem er getur fengið þennan sjúkdóm hvenær sem er ævinnar. Sum lyf minnka munnvatnsmyndun en það leiðir til munnþurks og þorsta. Þetta eru lyf sem hafa áhrif á úttaugakerfið og einnig nokkur geðlyf. Sjúklingar með bjúg eða háan blóðþrýsting eru stundum látnir taka svokölluð þvagræsilyf sem auka þvagmagn og geta valdið þorsta. Ástæður óeðlilegs þorsta geta þannig verið ýmsar og sumar tengjast sjúkdómum sem mikilvægt er að greina. Þeir sem fá óeðlilegan þorsta ættu því að leita til læknis til að fá sjúkdómsgreiningu eða a.m.k. fá úr því skorið hvort um sykursýki sé að ræða.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222.