INGIBJÖRG Pálmadóttir heilbrigðisráðherra segir að fyrr eða síðar verði komið á fót sjúkrahóteli við Landsspítalann í Reykjavík. Heppilegt húsnæði sé fyrir hendi þar sem er Fæðingarheimili Reykjavíkur við Þorfinnsgötu. Viðræður fara nú fram milli stjórnar Ríkisspítalanna og Reykjavíkurborgar um framtíð Fæðingarheimilisins.
Fæðingarheimili hugsan-

lega breytt í sjúkrahótel

INGIBJÖRG Pálmadóttir heilbrigðisráðherra segir að fyrr eða síðar verði komið á fót sjúkrahóteli við Landsspítalann í Reykjavík. Heppilegt húsnæði sé fyrir hendi þar sem er Fæðingarheimili Reykjavíkur við Þorfinnsgötu. Viðræður fara nú fram milli stjórnar Ríkisspítalanna og Reykjavíkurborgar um framtíð Fæðingarheimilisins.

Könnun sem Landlæknisembættið lét gera í fyrra bendir til þess að rúmlega 20% sjúklinga á spítölum gætu nýtt sér þjónustu sjúkrahótela. Heilbrigðisráðherra telur hagkvæmast að hafa slíkt hótel í tengslum við stór sjúkrahús og þá helst á höfuðborgarsvæðinu. Hún vill þó ekki útiloka stórar sjúkrastofnanir á landsbyggðinni.

Góð reynsla

Fulltrúar stærstu sjúkrahúsa landsins kynntu í vikunni skýrslu um kynnisferð sem farin var til Svíþjóðar og Danmerkur til að kynnast rekstri sjúkrahótela. Þetta fyrirkomulag hefur rutt sér mjög til rúms í Evrópu síðastliðin tíu ár, sérstaklega í Svíþjóð og Bretlandi. Í Bandaríkjunum hafa sjúkrahótel þekkst í tuttugu ár. Niðurstöður ferðalanganna voru mjög jákvæðar. Kostnaður við dvöl á sjúkrahóteli nemur frá fjórðungi til helmings kostnaðar af spítalavist. Sjúklingar virðast vera sáttir við fyrirkomulagið. Í þjónustukönnunum sem gerðar hafa verið við sjúkrahótel í Lundi í Svíþjóð hafa 98-100% hótelgesta lýst yfir ánægju sinni með aðbúnaðinn. Besta raun hefur gefið að hafa hótelin í næsta nágrenni við spítalana til þess að skammt sé í alla neyðarþjónustu, en þó aðskilin frá sjúkrahúsbyggingunum.

Sjúkrahótel hefur um hríð verið rekið við Rauðarárstíg á vegum Rauða krossins. Það er með nokkuð öðru fyrirkomulagi en það sem skýrsluhöfundar leggja nú til. Þeir töldu þó að reynslan af Rauða krosshótelinu væri góð og hentaði vel fyrir ákveðinn hóp sjúklinga.

Morgunblaðið/Ásdís Ásgeirsdóttir

HÓTEL Lind við Rauðarárstíg er bæði með venjulegan hótelrekstur og sjúkrahótel.

Morgunblaðið/Sverrir

RÆTT er um að Fæðingarheimili Reykjavíkur verði gert að sjúkrahóteli í tengslum við Landsspítalann.