Vernharð Þorleifsson tekur nú þátt í Ólympíuleikum í fyrsta skipti og er eini íslenski júdómaðurinn á leikunum. Skapti Hallgrímsson spjallaði við hann í Atlanta um keppnina og væntingar fólks vegna árangurs Bjarna Friðrikssonar síðast þegar ólympíuleikar fóru fram í Bandaríkjunum.
JÚDÓ Vernharð mætir Kóreumanninum Min-Soo Kim

Miklu erfiðara að

ná langt nú en 1984 Vernharð segist hafa heyrt fólk gera sér væntingar um góðan árangur hans vegna bronsverðlauna Bjarna Friðrikssonar 1984, en segir leikana nú og þá ekki sambærilega

Vernharð Þorleifsson tekur nú þátt í Ólympíuleikum í fyrsta skipti og er eini íslenski júdómaðurinn á leikunum. Skapti Hallgrímsson spjallaði við hann í Atlanta um keppnina og væntingar fólks vegna árangurs Bjarna Friðrikssonar síðast þegar ólympíuleikar fóru fram í Bandaríkjunum.

Vernharð dróst gegn Kóreu manninum Min-Soo Kim, heimsmeistara unglinga 1994, í fyrstu umferð júdókeppninnar á morgun, en þeir eru í flokki 95 kg og léttari. Kim er 1,84 m, Vernharð 1,92 m. "Ég hef séð hann keppa. Bjarni (Friðriksson) tapaði fyrir honum á einu A-mótanna í vetur, í M¨unchen. Hann er þekktur fyrir ruddaskap, til dæmis að reka höfuðið "óvart" í höfuð mótherjans," sagði Vernharð. "Hann er aðeins minni en ég, saman rekinn náungi. Þetta verður þrumuglíma - ég vona bara að hann reki sig "óvart" í mig því þá tjúllast ég."

Vernharð sagði það gjarnan fara í taugar keppenda frá Asíu ef illa gengi framan af, "þannig að ég verð að vera öruggur í byrjun. Verð að taka fyrstu tvær mínúturnar (af fimm) rólega og lauma svo einhverju inn. Ég er strax með ákveðin atriði í huga."

Vernharð segir Kóreumanninn verða mjög erfiðan. "Ég hefði alveg getað hugsað mér einhvern léttari í byrjun því þetta er mjög sterkur strákur. En fjandinn hafi það! Ég er á Ólympíuleikum, því má búast við að keppa við þá sterkustu og þessi er óneitanlega einn af þeim. En ég hef engar áhyggjur, verð bara að mæta vel stemmdur og þá kemur hinn gæinn þessu máli lítið við."

Akureyringurinn, sem verður 23 ára 1. ágúst, segir aðbúnað í ólympíuþorpinu mjög góðan, og aðalmálið fyrir hann sé að finna tíma til að "slappa af" því svo mikið sé boðið upp á af afþreyingu að hætta sé á að menn gleymi sér við hana. "Mér væri sama þó Ólympíuleikar væru allt árið. Þetta er algjör draumastaður; húsakynnin, maturinn og afþreyingin til fyrirmyndar og fólkið gerir allt sem það getur til að stjana við mann." Hann sagði mikilvægt að geta sest einhvers staðar einn í ró og næði og íhugað það sem framundan er. "Maður þarf að ná sér einhvern veginn niður á jörðina í þessum herlegheitum. Þýðir ekkert að hlaupa um allt eins og kanína og leika sér. Hér þarf að haga sér eins og atvinnumaður. Og ef ég vinn, þá vinn ég með stæl en ef ég tapa, þá tapa ég með stæl."

Síðast þegar Ólympíuleikar voru haldnir í Bandaríkjunum, í Los Angeles 1984, vann Bjarni Friðriksson bronsverðlaun í þessum sama flokki. Skyldi það hafa áhrif á Vernharð nú eða þær væntingar sem fólk gerir til hans? "Ég hef orðið svolítið var við það, já, að fólk hefur verið að bera þetta saman. Brons í Los Angeles og brons hér. Að hægt sé að setja eitthvert samasem merki þarna á milli. En fólk verður að átta sig á að 1984 var Bjarni að keppa á öðrum Ólympíuleikum sínum og var 27 ára gamall, og þá var júdóið á allt öðru og lakara gæðaplani en það er í dag. Og þar fyrir utan vantaði nánast allar Austur-Evrópuþjóðirnar á leikana þá. Leikarnir nú eru því einfaldlega ekki sambærilegir við leikana 1984 og miklu erfiðara að ná svo langt núna. Enginn mótmælir því. En það þýðir ekkert að væla yfir þessu, heldur taka því sem að höndum ber."

Vernharð hafði ekki hugsað sér að fá að vita fyrr en á sunnudagsmorgun hver yrði mótherji hans í fyrstu glímunni, en var ánægður með að hafa heyrt það, þegar Morgunblaðið ræddi við hann á fimmtudagskvöld. "Ég hélt ég yrði mjög stressaður ef ég þyrfti að hugsa um andstæðinginn lengi, en þetta er allt í lagi. Ég geri mér grein fyrir því að ég hefði getað dregist gegn hverjum sem er og það þýðir ekkert annað en að vera jákvæður. Ég á alltaf jafna möguleika og aðrir - kannski aðeins meiri fyrst ég er Íslendingur. Við mætum oft til keppni sem minni máttar og kannski er búist við litlu. En ef ég kem jafn vel eða betur undirbúinn en andstæðingurinn getur allt gerst."

Margir snjallir júdómenn eru í flokki með Vernharð. Sigurstranglegastur er talinn Pólverjinn Nastula og ekki að ósekju. Hann er núverandi heimsmeistari og Evrópumeistari síðustu þrjú ár. Hefur reyndar ekki tapað glímu á þeim tíma. Frakkinn Traineau, sem Bjarni tapaði fyrir í fyrstu glímu á Ólympíuleikunum í Barcelona fyrir fjórum árum, er einnig meðal keppenda, svo og Brasilíumaðurinn Aurelio Miguel, sem varð Ólympíumeistari í Kóreu 1988. Hann varð frægur fyrir þau gullverðlaun, en þau fékk hann án þess að skora eitt einasta stig alla keppnina! Hann sótti stanslaust að mótherjum sínum, þannig að andstæðingurinn fékk alltaf refsistig fyrir að sækja ekki og sigraði hvern á fætur öðrum með þeim hætti, m.a. Bjarna. Þá er ógetið Rússans Sergejevs, sem verður væntanlega andstæðingur Vernharðs eða Kóreumannsins í annarri umferð. "Ef ég tapa fyrstu glímunni held ég að ég komist ekki lengra í keppninni. Held að Kóreubúinn myndi tapa fyrir Rússanum því hann er mjög erfiður, og þar af leiðandi fengi ég ekki uppreisnarglímu. Það er auðvitað hægt að spá svona í spilin endalaust en kannski hefur það engan tilgang; hér geta allir tapað og allir geta unnið," sagði Vernharð Þorleifsson.

Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson VERNHARÐ Þorleifsson á frjálsíþróttamótinu í Marrietta í vikunni, þar sem Pétur Guðmundsson reyndi við ólympíulágmark. Í tilefni þessarar myndar bað Vernharð fyrir kveðju til Kristins Kristinssonar frænda síns, Stinna. Nú sæi frændinn nefnilega að Vernharð hefði fengið sólgleraugun hans "lánuð" áður en hann hélt utan. "Ég verð að gera þetta því hann sér auðvitað gleraugun þegar myndin birtist!"