ÁSKÁLHOLTSHÁTÍÐ um helgina verða frumflutt brot úr kantötum eftir Karl O. Runólfsson og Sigurð Þórðarson sem nýlega fundust í Þjóðarbókhlöðunni eftir mikla leit. Kantöturnar voru samdar fyrir samkeppni um tónverk fyrir Skálholtshátíðina árið 1956.
Frumflutningur á Skálholtskantötum FUNDUST Í UMSLAGI

OFAN Í KASSA

ÁSKÁLHOLTSHÁTÍÐ um helgina verða frumflutt brot úr kantötum eftir Karl O. Runólfsson og Sigurð Þórðarson sem nýlega fundust í Þjóðarbókhlöðunni eftir mikla leit. Kantöturnar voru samdar fyrir samkeppni um tónverk fyrir Skálholtshátíðina árið 1956. Þá fékk Skálholtskantata Páls Ísólfssonar fyrstu verðlaun en hinum sjö virðist hafa verið pakkað ofan í kassa með öðru lauslegu frá þeim tíma, að því er kemur fram í máli Hilmars Arnars Agnarssonar dómorganista í Skálholti. Hann er stjórnandi Skálholtshátíðarkórsins, sem ásamt einsöngvurunum Lofti Erlingssyni og Þórunni Guðmundsdóttur og blásarasveit kemur fram á tónleikunum.

"Það er um mánuður síðan við fundum kantöturnar í umslagi ofan í kassa. Það var búið að leita lengi; við vissum að þær voru til en ekki eftir hverja þær voru. Aðeins þeir sem fengu fyrstu og önnur verðlaun voru nafngreindir. Við erum enn að róta og vonumst eftir að finna meira," sagði Hilmar í samtali við Morgunblaðið.

Hann sagði að útsetning fyrir hljóðfæraleikara hefði ekki verið fullbúin frá hendi tónskáldanna og því var Malcolm Halloway, lúðrasveitarstjóri í Hveragerði, fenginn til að klára það verk og útsetti hann fyrir blásarakvintett og slagverk. "Í verki Karls hljóma mörg kunnugleg stef eins og Ár vas alda og það mælti mín móðir. Það kemur vel út og margt frumlegt er í tónsmíðinni," sagði Hilmar aðspurður um hvort verkin hefðu kannski ekki verið betri en svo að ástæða hafi þótt til að loka þau niður í kassa. "Sigurður Einarsson var snjallt sönglagatónskáld en nafni hans hefur lítið verið haldið á lofti og því er fundurinn mjög merkilegur."

Á tónleikunum verður einnig leikinn hluti úr kantötu Páls Ísólfssonar. Þó að einungis verði brot úr hverju verki flutt mun textinn, eftir séra Sigurð Einarsson, verða fluttur í heild, því allar kantöturnar voru gerðar við sama textann. Einnig mun Karl Guðmundsson lesa ljóð eftir Sigurð Einarson með undirleik.

Skálholtshátíðarkórinn er skipaður félögum víðsvegar að úr Skálholtsstifti, sem nær allt frá Skálholti til Hornafjarðar. Hann hefur verið í uppbyggingu síðastliðin fimm ár og telur nú um það bil 50 meðlimi. Kórinn kemur einungis saman fyrir Skálholtshátíð.

Tónleikarnir hefjast í dag kl. 16 og brot úr þeim verða endurtekin hálftíma fyrir hátíðarmessu sem hefst á morgun kl. 14.

Morgunblaðið/Þorkell SKÁLHOLTSHÁTÍÐARKÓRINN á æfingu með stjórnandanum, Hilmari Erni Agnarssyni.