"FULLYRÐINGAR um valdníðslu koma mjög á óvart, því sveitarfélög skipa mjög oft undirnefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum. Miklar framkvæmdir eru á döfinni hjá Hafnarfjarðarhöfn og því var talið eðlilegt að skipa þriggja manna nefnd, sem gæti fengist við það verkefni og ekkert annað.
Formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar Eðlilegt að

skipa undirnefndir til ákveðinna verka

"FULLYRÐINGAR um valdníðslu koma mjög á óvart, því sveitarfélög skipa mjög oft undirnefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum. Miklar framkvæmdir eru á döfinni hjá Hafnarfjarðarhöfn og því var talið eðlilegt að skipa þriggja manna nefnd, sem gæti fengist við það verkefni og ekkert annað. Ég veit ekki til þess að félagsmálaráðuneyti hafi haft afskipti af slíkri nefndarskipan," sagði Valgerður Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Eins og skýrt var frá í Morgunblaðinu í gær hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, þau Valgerður Sigurðardóttir og Magnús Gunnarsson, kært til félagsmálaráðuneytis þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að setja á fót starfsnefnd, er fjalli um framkvæmdamál Hafnarfjarðarhafnar.

Valgerður Sigurðardóttir, formaður hafnarstjórnar, kvaðst telja skipun starfsnefndarinnar ólögmæta, þar sem hún ætti greinilega að fara inn á starfsvið hafnarstjórnar og sagði ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar virka sem hreina og klára valdníðslu.

Tilnefningar hafnarstjórnar samþykktar

Valgerður Guðmundsdóttir kvaðst undrast þennan málatilbúnað. "Bæjarstjórn ákvað að skipa þessa undirnefnd hafnarstjórnar vegna óvenju mikilla framkvæmda á næstunni. Hafnarstjórn var falið að tilnefna tvo nefndarmenn og voru tilnefningar Valgerðar Sigurðardóttur, Sjálfstæðisflokki, og Eyjólfs Sæmundssonar, Alþýðuflokki, samþykktar á fundi bæjarstjórnar. Þá þótti eðlilegt að bæjarráð skipaði þriðja nefndarmanninn. Á fundi ráðsins á fimmtudag var hins vegar samþykkt að verða við tilmælum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fresta þeirri tilnefningu og þar kom fram að nefndarskipunin hefði verið kærð til ráðuneytisins."

Valgerður Guðmundsdóttir kvaðst ekki þekkja dæmi þess að félagsmálaráðuneytið hefði afskipti af skipan undirnefnda og vinnunefnda á vegum sveitarfélaganna, en það yrði að koma í ljós hverju ráðuneytið svaraði kæru Valgerðar Sigurðardóttur og Magnúsar Gunnarssonar.