FERÐAFÉLAG Íslands bauð fjölmiðlafólki í dagsferð til Hveravalla í fyrradag, til kynningar á starfsemi félagsins þar og málstað þess í deilum þeim sem staðið hafa undanfarið um skipulagsmál á svæðinu. Við það tækifæri var einnig kynntur nýgerður samningur milli Ferðafélagsins og Minjaverndar, þar sem félaginu er falin umsjón með elsta sæluhúsinu á Hveravöllum,
Hveravellir Ferðafélaginu

falin umsjón

elsta sæluhússins

FERÐAFÉLAG Íslands bauð fjölmiðlafólki í dagsferð til Hveravalla í fyrradag, til kynningar á starfsemi félagsins þar og málstað þess í deilum þeim sem staðið hafa undanfarið um skipulagsmál á svæðinu. Við það tækifæri var einnig kynntur nýgerður samningur milli Ferðafélagsins og Minjaverndar, þar sem félaginu er falin umsjón með elsta sæluhúsinu á Hveravöllum, sem nú er ætlað hlutverk sem gestastofa.

Gamla sæluhúsið á Hveravöllum var byggt sumarið 1922. Íslenska fjallvegafélagið hafði þá ráðið þrjá menn til að lagfæra og varða Kjalveg, og var þeim einnig falið að reisa sæluhús á Hveravöllum, sem ætlað var sem afdrep fyrir menn og hesta. Veggir hússins voru hlaðnir úr hraungrýti úr nágrenninu og þakið var klætt bárujárni og torfi. Í sæluhúsinu var upphaflega milliloft, og því gátu ferðalangar hvílst uppi og geymt hesta sína niðri.

Gamla sæluhúsið endurbyggt

Minjavernd hóf árið 1992 að kanna leiðir til að lagfæra húsið, sem þá var orðið mjög illa farið. Minjavernd gerði vörslusamning við Svínavatnshrepp árið 1992, sem fól í sér yfirtöku stofnunarinnar á húsinu með endurgerð þess í huga. Framkvæmdirnar áttu sér stað sumrin 1994 og 1995 í samvinnu við Náttúruverndarráð, og voru þær kostaðar af Fjallasjóði. Allir veggir hússins voru endurhlaðnir og þekjan var endurnýjuð og klædd torfi. Milliloftið var einnig fjarlægt.

Kennt við Fjalla-Eyvind

Samningur milli Minjaverndar og Ferðafélags Íslands um daglegt eftirlit, umsjón og vörslu hússins var undirritaður 24. júní sl. Gamla sæluhúsinu er nú ætlað það hlutverk að hýsa upplýsingar um Hveravelli, náttúrufar og sögu staðarins. Gönguleið um svæðið hefur verið tengd húsinu og þar verður komið upp fræðslu- og upplýsingaspjöldum á vegum Náttúruverndarráðs. Nafn hússins hefur ekki verið ákveðið, en líklegt er að það verði kennt við útilegumanninn kunna, Eyvind Jónsson, sem dvaldi tvívegis á Hveravöllum í útlegð sinni á 18. öld.

Morgunblaðið/Þorkell GAMLA sæluhúsið á Hveravöllum, sem Ferðafélagi Íslands hefur nú verið falið til umsjónar. FERÐALANGAR að mynda hverinn Öskurhól, sem er hávaðasamur í meira lagi eins og nafnið bendir til. Á myndinni sést hluti göngupalla, sem lagðir hafa verið um hverasvæðið. YNGRI skáli Ferðafélags Íslands á Hveravöllum, sem byggður var árið 1980. Verði skipulagi Svínavatnshrepps hvað varðar Hveravallasvæðið ekki hnekkt, fær skálinn ekki að standa áfram.