SERGEJ Stepashín, sem stjórnar starfi nefndar stjórnvalda í Moskvu um málefni Tsjetsjníju, vísaði í gær á bug fullyrðingum skæruliðaforingjans Salmans Radújevs þess efnis að Tsjetsjenaleiðtoginn Dzhokar Dúdajev væri enn á lífi. "Ég ætla ekki að sverja við kóraninn en get sagt með 100% vissu að Dúdajev er ekki á lífi," sagði Stepashín.
Radújev sakar leiðtoga Tsjetsjena um svik Klofningur vegna

vopnahléssamninga?

Moskvu. Reuter.

SERGEJ Stepashín, sem stjórnar starfi nefndar stjórnvalda í Moskvu um málefni Tsjetsjníju, vísaði í gær á bug fullyrðingum skæruliðaforingjans Salmans Radújevs þess efnis að Tsjetsjenaleiðtoginn Dzhokar Dúdajev væri enn á lífi. "Ég ætla ekki að sverja við kóraninn en get sagt með 100% vissu að Dúdajev er ekki á lífi," sagði Stepashín.

Hann sagðist ekki efast um að maðurinn, sem kynnti sig á fréttamannafundi einhvers staðar í Tsjetsjníju á fimmtudag sem Radújev, væri skæruliðaforinginn en hann hafði þá ekki sést opinberlega í meira en þrjá mánuði. Var hann talinn fallinn. Radújev, sem var mjög breyttur í útliti, sagðist hafa særst af völdum leyniskyttu Rússa en leitað sér aðstoðar hjá lýtalækni í Þýskalandi. Skæruliðaforinginn komst í heimsfréttirnar í mars er hann og menn hans tóku hundruð rússneskra gísla í grannhéraðinu Dagestan og vörðust dögum saman fjölmennu umsátursliði Rússa.

Dúdajev er sagður hafa verið felldur með flugskeyti í apríl en lengi hafa verið á kreiki sögur um það meðal almennings í Kákasushéraðinu að hann hafi særst illa en lifað af. Er hann var jarðsettur gerðu samherjar hans það með mikilli leynd á stað sem ekki hefur verið skýrt frá.

Rússar áhyggjufullir

Radújev hvatti til allsherjarstríðs gegn Rússum. Hann sakaði arftaka Dúdajevs, Zelímkhan Jandaríev, um svik við þjóð Tsjetsjena en Jandarbíev samdi um vopnahlé við Borís Jeltsín Rússlandsforseta skömmu fyrir forsetakosningar. Hvort sem Dúdajev lifir er klofningurinn í röðum Tsjetsjena ekki góð tíðindi fyrir Rússa sem verða ef til vill að búa sig undir hryðjuverk og gíslatöku af hálfu þeirra uppreisnarmanna sem enga samninga vilja en heimta sjálfstæði héraðsins tafarlaust.

Stepashín sagði að Radújev og annar þekktur skæruliðaforingi, Shamíl Basújev, hlýddu ekki skipunum forystu Tsjetsjena og væri um að ræða eitt erfiðasta málið í friðarviðleitninni.

Hörð átök hafa blossað upp á ný í Tsjetsjníju eftir forsetakosningarnar og mannfall verið mikið. Dúman, neðri deild þings Rússlands, hvatti í gær Jeltsín til að stöðva þegar í stað allan hernað í héraðinu og bjóða leiðtogum uppreisnarmanna til viðræðna við æðstu embættismenn í Moskvu.