VERSNANDI veður tafði í gær leitar- og björgunarstarf á þeim slóðum sem brak úr breiðþotu bandaríska flugfélagsins Trans World Airlines (TWA) er talið hafa fallið í sjóinn undan Long Island í New York á miðvikudagskvöld að staðartíma.
Breiðþotan sem splundraðist nálægt Long Island í Bandaríkjunum Leitað að svörtum köss-

um með hátæknibúnaði

New York, East Moriches. Reuter.

VERSNANDI veður tafði í gær leitar- og björgunarstarf á þeim slóðum sem brak úr breiðþotu bandaríska flugfélagsins Trans World Airlines (TWA) er talið hafa fallið í sjóinn undan Long Island í New York á miðvikudagskvöld að staðartíma. Búist var við því að kafarar og sérútbúin leitarskip bandaríska flotans gætu hafið leit í dag að flug- og hljóðritum þotunnar, svonefndum svörtum kössum, en vonir eru bundnar við að upplýsingar sem þeir geyma geti leitt í ljós hvað olli því að þotan splundraðist á flugi með þeim afleiðingum að allir 230, sem um borð voru, fórust.

Sérfræðingar bandarískra flug- og samgönguyfirvalda og alríkislögreglunnar (FBI) hafa ekki fundið vísbendingar um það hvort sprengja hafi grandað þotunni, skömmu eftir flugtak frá Kennedy-flugvelli í New York. Hins vegar var stóru svæði á sjó og landi lokað almenningi vegna rannsóknarinnar svo sem gert er þegar um glæparannsókn er að ræða. Stjórnendur rannsóknarinnar forðuðust þó að fullyrða nokkuð um að hugsanlega hefði sprengja grandað þotunni og sögðu ýmsar aðrar hugsanlegar orsakir, vélarbilanir eða annars konar bilanir, vera taldar koma til greina. Þotan var í 13.700 feta hæð er hún splundraðist svo að eldhnöttur myndaðist á himni. Um 30 metra dýpi er á þeim slóðum sem brakið kom niður 14 km suður af Morichesvík á Long Island, 112 km austur af New York-borg.

Skjótur dauðdagi

Charles Wetli, yfirmeinafræðingur Suffolk-sýslu, þess umdæmis sem þotan fórst í, hafði skoðað flest líkanna 104 sem fundist höfðu í gær. Hann sagðist draga þá ályktun að flestir hefðu beðið bana á svipstundu af völdum gífurlegrar höggbylgju sem fylgt hefði sprengingu. Vísbendingar hefðu fundist um að nokkur fórnarlamba slyssins hefðu drukknað. "Það þýðir þó ekki að þau hafi verið með meðvitund," sagði hann og bætti við að miklu fremur hefðu viðkomandi misst meðvitund af völdum sprengjuhöggsins og fallsins í sjóinn. Wetli sagði að engin merki væru á líkunum er bent gætu til þess að sprengja hefði sprungið í farþegaklefanum. Brunasár á nokkrum bentu til bruna af völdum þotueldsneytis líklega eftir að viðkomandi voru látnir.

Af þeim sem fórust með TWA- þotunni voru 169 bandarískir, 42 voru franskir, 11 ítalskir, tveir norskir, einn Spánverji, Breti, Kínverji, Portúgali, Svíi og einn Þjóðverji.

Hátæknibúnaður til leitar

Átta strandgæsluskip og 20 minni skip tóku þátt í leitar- og björgunarstarfi í gær en kaldi og stöku hryðjur gerðu þeim erfitt fyrir. Spáð var versnandi veðri á leitarsvæðinu. Búist var við því, að kafarasveit bandaríska flotans gæti ekki hafið leit að flugritum TWA- þotunnar fyrr en í dag. Sérstakur hátæknibúnaður var settur um borð í skip flotans í New Jersey í gær en þaðan er um 100 sjómílna sigling á slysstað. Þegar flugritar koma í saltvatn fer í gang búnaður er sendir frá sér hljóðmerki sem leitartæki geta numið. Ekki höfðu slík hljóðmerki verið numin í gær.

Gamlar þotur notaðar lengur og lengur

Sérfræðingar á sviði flugmála segja að aldur flugvéla skipti sjaldnast máli þegar þær hafa farist, en TWA-slysið hefur orðið til þess að leiða athyglina að því, að eldri flugvélar eru notaðar til farþegaflugs í auknum mæli. Að sögn Chris Partridge hjá ráðgjafafyrirtækinu Avmark, hafa vaxandi ferðalög haft þar áhrif á. Flugfélög hafi haft tilhneigingu til að framlengja fremur líf gamalla flugvéla en kaupa nýjar þotur eða mun yngri þar sem það sé fjárhagslega hagkvæmara. Breiðþota TWA var 25 ára gömul og meðalaldur flugflota félagsins er sá hæsti í Bandaríkjunum, eða 19,8 ár. Viðhald flugflota félagsins hefur hins vegar þótt til fyrirmyndar og það hefur verið orðlagt fyrir öryggi.

Búnað til sprengjuleitar vantar

Þrátt fyrir sérstök fyrirmæli bandaríska þingsins í framhaldi af Lockerbie-slysinu 1988 og áralangar rannsóknir er fullkomin sprengjuleitartæki ekki að finna á flestum bandarískum flugvöllum. Búnað af því tagi er að finna í mörgum Evrópu- og Asíuríkjum og hann er nær allur bandarískur. Skuldinni skella framleiðendurnir á bandarísku flugmálastjórnina (FAA) sem aðeins fékkst nýverið til að samþykkja, að gera mætti tilraunir með sprengjuleitarbúnað sem kostar um 60 milljónir króna, í því skyni að endurbæta hann enn frekar. Er hann í notkun einvörðungu á flugvöllunum í San Francisco og Atlanta.

Reuter HARMUR var kveðinn að 5.000 manna bæjarfélagi, Montoursville í Pensylvaníuríki, er TWA-þotan fórst því með henni voru 16 menntaskólanemar, kennari þeirra, kona hans og þrír foreldrar. Myndin var tekin við minningarathöfn í skólanum.