858. þáttur Mannsnafnið Ármann má að réttu lagi skýra á tvo vegu. 1) Réttast mun að gera ráð fyrir merkingunni "verndarvættur" eða "sendimaður". Orðið ármaður gat þýtt verndarvættur, en reyndar fleira, það er trúlega dregið af fornyrðinu árr=sendiboði, fleirtala af því er ærir.
ÍSLENSKT MÁL

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

858. þáttur

Mannsnafnið Ármann má að réttu lagi skýra á tvo vegu.

1) Réttast mun að gera ráð fyrir merkingunni "verndarvættur" eða "sendimaður".

Orðið ármaður gat þýtt verndarvættur, en reyndar fleira, það er trúlega dregið af fornyrðinu árr =sendiboði, fleirtala af því er ærir . Englarnir eru í gömlum bókum nefndir "ærir guðs".

Eignarfall af ármaður er náttúrlega ármanns , og þannig verður til nafnið Ármannsfell . En Jón lærði Guðmundsson (1574­1658) orti Rímur af Ármanni 1636. Hann lætur hollvættina í fellinu kynna sig svo:

"Ármann heiti eg..."

Þar með hefur Jón lærði búið til nýtt nefnifall ÁRMANN . Síðan var búin til saga eftir rímunum og margar rímur eftir henni, og þar er nefnifallið alltaf haft Ármann , sbr. nöfn eins og Hermann, Frímann, Guðmann og Kristmann .

Fyrsti maður á Íslandi, sem Ármann hét, svo að vitað sé, var Ármann Jónsson á Flögu í Vatnsdal, fæddur 1793.

Baldvin Einarsson lögfræðingur frá Hraunum í Fljótum gaf svo út um stuttan tíma ritið Ármann á alþingi (1829­32) og upp úr því tekur nafnið að breiðast út. Árið 1855 hétu tólf Íslendingar Ármann, árið 1910 voru þeir 60. Nú eru í þjóðskránni rétt um 300 . Um það bil þriðjungur þeirra heitir svo síðara nafni.

2) Önnur skýring, en ótrúlegri:

Þýska nafnið Hermann , sem við höfum líka tekið upp, barst inn í frönsku og breyttist þar í Armand , og varð það nafn býsna frægt í Frakklandi. Hugsanlegt er að franska nafnið Armand liggi til grundvallar íslenska nafninu Ármann.

Niðurstaða . Nafnið Ármann merkir trúlega verndarvættur eða sendiboði (og þá sendiboði góðra afla).

Hugsanlegt er að Ármann merki hermaður .

Held ég litla harmabót,

þá heimur er flár og stríðinn

að ganga út á gatnamót

og gráta framan í lýðinn.

(Theodóra Thoroddsen, 1863­1954) "Heill og sæll!

Þegar þetta er skrifað er hlé í leik Tyrkja og Dana. Þá eru auglýsingar m.a. frá Coca Cola, sem hljóða, að hluta, á þennan veg:

"hugsaðu fótbolta" og "dreymdu fótbolta".

Í Degi í dag, 19. júní, er sýnd mynd frá því er Paul Gascoigne hafði skorað mark og gladdist að vonum ásamt félaga sínum Teddy Sheringham. Fyrirsögnin undir myndinni er: "Óvenjulegt fagn" og síðar í textanum kemur fleirtölumyndin "fögn".

Þetta brýtur í bága við máltilfinningu mína og því sendi ég þér þessar línur til að heyra skoðanir þínar.

Með bestu kveðjum."

Umsjónarmanni þykir þetta heldur böngulegt hvort tveggja. En í minningu þess að séra Jón Blámann í Guðsgjafaþulu færði allt til betri vegar getur hann þess að ragn =blót eða bölv er dregið af ragna , en fleirtalan "rögn" dugir ekki, því að þá er komið að goðunum sjálfum sem bæði heita rögn og regin .

Inn ég fer og afklæðist

í einum spreng. Kem svo fram í kattarþvott,

út keikur geng. Í laugum syndi litla stund,

svo leggst í pott, þar úr kroppnum þreyta fer

og þykir gott.

Af mér skola allan klór

og annað salt, undir sturtu, ylja mér,

fer ekk'í kalt. Þvínæst má ég þurrka mér

og þerra bak. Að fara svo í föt á ný

er fyrirtak. (Sundvísur eftir Sigurstein Hersveinsson.)

Vilfríður vestan kvað:

Í fjárhúsinu gimbillinn gekk (inn),

fyrir guðs miskunn bar engan flekk(inn)

og jarmaði glatt:

"þetta gekk vel og hratt,

og ég græt ekki framar við stekk(inn).

Guðmundur Benediktsson fv. ráðuneytisstjóri segir mér að Þorgrímur Maríusson á Húsavík hafi notað lýsingarorðið tökull um þjófóttan mann. Þetta sagði próf. Halldór Halldórsson að væri gott dæmi um skrauthverft orð. Nú langar okkur Guðmund að vita hvort fleiri þekki orðið tökull um þann sem á bágt með hendurnar á sér.

Auk þess þótti mér það góð lausn í sjónvarpsfréttum að breyta mælieiningunni desibel (um hávaða) í desíbil , en samsetningin "hávaðamengun" þykir umsjónarmanni svona humm humm.

Og fáeinar einfaldar prentvillur voru í síðasta þætti, t.d. "creseas" í stað crescas og auka n í limrunni. Slíkt hendir stundum um hásumarið og er beðist velvirðingar á þessu.