SJÁLFSÆVISAGA Benedikts Gröndals, listamanns, náttúrufræðings og skálds er ótrúleg uppspretta fróðleiks um nítjándu öldina.Við lestur þessarar merku bókar er lesandinn sífellt að uppgötva eitthvað nýtt
LANDKÖNNUÐURINN OG

LEYNDARSKJALAVÖRÐURINN

EFTIR HELGU SKÚLADÓTTUR OG SIGFÚS A. SCHOPKA

Um þessar mundir réði Kristján konungur VIII ríkjum í Danmörku og var hann mikill áhugamaður um vísindi. Þegar Friðrik III Prússakonungur var hjá honum í heimsókn, hafði hann fríherrann, baróninn, kammerherrann og vísindaráðið Alexander von Humboldt með í för. Og Finnur sem var mikill vinur Danakonungs ók í vagni með Alexander von Humboldt eins og Gröndal segir frá. SJÁLFSÆVISAGA Benedikts Gröndals, listamanns, náttúrufræðings og skálds er ótrúleg uppspretta fróðleiks um nítjándu öldina.Við lestur þessarar merku bókar er lesandinn sífellt að uppgötva eitthvað nýtt og kemst á spor ið í eftirgrennslan um menn og málefni síðustu aldar. Má með sanni líta á ævisöguna sem aldarspegil. Í Dægradvöl er minnst á flesta andans menn íslenska á 19. öld. Benedikt ólst upp á Eyvindarstöðum á Álftanesi hjá foreldrum sínum, Sveinbirni Egilssyni skáldi og rektor Bessastaðaskóla og Helgu Gröndal, en hún var fræg fyrir að spila á langspil með bumbu. Að loknu námi í Bessastaðaskóla sigldi Benedikt út í hinn stóra heim "svona út í bláinn" að hans eigin sögn haustið 1846 til náms. Hann tók sér far með skipi til Kaupmannahafnar. Til fróðleiks má geta þess, að hann byrjaði á að fá sér herbergi á Hotel du Nord, en það þekkja Íslendingar sem Magasin du Nord nú á dögum. Einnig má segja frá því til gamans, að þegar hann sté á land, sýndist honum allt í kringum sig eins og fagurt málverk. Hann hefur séð þetta með augum listamannsins.

Finnur leyndarskjalavörður

Þar kom að því, að hann hélt á fund Finns Magnússonar, sem átti að vera fjárhaldsmaður hans. Finnur Magnússon var kunningi föður Benedikts. Finnur var fæddur 27. ágúst 1781 og dáinn 24. desember 1847. Faðir hans Magnús Ólafsson lögmaður var einn hinna nafnkunnu Svefneyjabræðra. Föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður Finnsdóttir biskups. Finnur varð prófessor að nafnbót og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Var og fulltrúi Íslands á stéttarþingum Danaveldis á tímabili. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna. Etatsráð varð hann sem er tignarheiti án embættis. Hlaut hann orður, heiðursdoktorsnafnbót og var félagi í mörgum vísindafélögum víðs vegar um heim. Var m.a. forseti Kaupmannahafnardeildar bókmenntafélagsins frá 1839 til dauðadags. Sem dæmi um það, hve Finnur var í miklu áliti, má geta þess, að þegar Jón Sigurðsson þjóðskörungur okkar Íslendinga kom til náms í Kaupmannahöfn haustið 1833 (Páll Eggert Ólason : Jón Sigurðsson : Hið íslenska Þjóðvinafélag, 1929. I b. s.171-172.) "var Finnur Magnússon mest virður allra Íslendinga í Danmörku. Stóð þá vegur Finns sem hæst, svo að engin þóktu þá ráð vel ráðin um forna hluti né um sameiginlega sögu Norðurlanda, að eigi væri Finnur til kvaddur."

"Enn var eitt, sem veitti Finni eigi alllítinn stuðning á framabraut hans. Svo var mál með vexti, að á sínum tíma, er Jörundur Jörgensen (Hundadagakonungur) braust til valda í Reykjavík, hafði Finnur verið einn þeirra, er snerust allfastlega gegn honum, og neitaði hann með öllu að taka að sér embættisstörf í þjónustu hans. Þetta kom honum að miklu haldi við konung sjálfan, og sýndi konungur það með ýmsum hætti síðar, hversu mikils hann mat Finn." (P.E.Ó.: J.S. I b. s. 174).

Finnur var mjög vinnusamur og ritaði fjölda bóka og ritgerða um ýmsar greinar íslenskra fræða og á ýmsum tungumálum, en flest er það úrelt, því að hugmyndaflugið bar oft dómgreindina ofurliði. Vert er að hafa það í huga, að svona er oft munur á dómi samtímans og tímans sem á eftir kemur. Á hvorn veginn getur farið. Þeir sem eru lítils metnir á líðandi stund geta verið hafðir í hávegum þegar fram líða stundir. En þótt lítið standi nú af verkum Finns, þá má samt jafnan meta það við hann, að hann glæddi mjög áhuga manna víða um lönd á fornum fræðum, einkum goðafræði. Hafa verður líka í huga, að víða var þar um brautryðjandastarf að ræða. Sagt er um Finn, að hann hafi verið mikill öðlingur og mannvinur. Hann var jafnan stórskuldugur, ekki síst vegna eyðslu konu sinnar, og neyddist því til að selja í þremur slumpum handritasafn sitt til bókasafna í Bretlandi. Hjónin skildu að ósk frúarinnar, en sagt var, að hún hafi verið biluð bæði á heilsu og geði. En þó að Finnur fengi allmikið fé fyrir handritasöluna, væri einhleypur maður og hefði góð laun og tekjur, varð samt bú hans þrotabú að honum liðnum.

Benedikt Gröndal lýsir samskiftum þeirra Finns á eftirfarandi hátt í Dægradvöl (Benedikt Gröndal. Dægradvöl. Rvk., MM, 1965,. s.115-116): "Finnur Magnússon var raunar kunningi föður míns, en hann var svo gamall og þar að auki í svo hárri stöðu, að ég gat hvorki hænst að honum né samlagast. Finnur átti að hafa fjárvarðveislu mína, og því varð ég að koma til hans: hann bjó í Klausturstræti á fyrsta sal, hafði átt danska konu, sem skildi við hann, að sögn fyrir það, að henni þótti Finnur ekki nógu kvensamur; var hann nú einn og ógiftur, en kerling einhver var fyrir framan hjá honum. Finnur var nokkuð hár meðalmaður, en þá orðinn lotinn og laslegur, grannvaxinn og kraftalítill að sjá, mjög lágtalaður og velti nokkuð völunni; ekki var hann fjörlegur, hvorki í tali né hreyfingum, og var auðfundið, að honum létu betur vísindalegar rannsóknir og bókagrufl, heldur en það praktíska líf. Herbergi hans voru há, en ekki mjög rúmleg, og þar sem hann sat inni var allt alsett bókum. Finnur var frægur um öll lönd, og fékk hin dýrustu verk að heiðursgjöf, svo sem ferðaverk Gaimardsferðarinnar; hann ók og með Alexander von Humboldt og Jakob Grimm, þegtar þeir komu til Hafnar."

Kynni Finns og Humboldts

En ástæðan fyrir því, að þetta er rifjað upp allt hérna um Finn, er setningin í Dægradvöl, er segir að Finnur hafi ekið með Alexander von Humboldt í Höfn. Það var vitað að Alexander von Humboldt fór eitt sinn til Kaupmannahafnar, nánar tiltekið árið 1845. Kristján VIII Danakonungur, sem hafði mikinn áhuga á vísindum, hafði mikið álit á Alexander von Humboldt og skrifaðist á við hann.

Athyglisvert er, að í frumútgáfunni á Dægradvöl er ekkert minnst á Alexander von Humboldt. En í seinni útgáfu á þessari skemmtilegu bók Benedikts er setningin um hina merkilegu ökuferð, sem sýnir svart á hvítu, að kunningsskapur var með Íslendingnum Finni Magnússyni og Þjóðverjanum Alexander von Humboldt.

Við nánara bókagrufl kom í ljós, að ævisaga Benedikts er til í tveimur gerðum. Eldri gerðin er uppkast Gröndals að ævisögunni. Þórður Edilonsson, tengdasonur Benedikts lét Ársæl Árnason bóksala fá eldri gerð handritsins til útgáfu. Gaf Ársæll það út í Reykjavík árið 1923. En hreinritið lá innsiglað á Landsbókasafni, og var það fyrst gefið út í IV. bindi Ritsafns Benedikts árið 1953. Ævisagan breyttist mjög við hreinskriftina. Yngri gerðin, sem kom þrjátíu árum eftir að fyrri útgáfan kom út, er töluvert lengri og rækilegri. Nýr fróðleikur og langar frásagnir hafa bæst við. Í þessu liggur vafalaust skýringin á því, að kunningsskapur leyndarskjalavarðarins Finns Magnússonar prófessors og landkönnuðarins Alexanders von Humboldts, frægasta vísindamanns Þjóðverja á síðustu öld, var ekki og er ekki á allra vitorði.

Bréfaskipti Finns við Humboldt

Ekki verður hér rakinn æviferill Alexanders von Humboldts, en þess má geta til gamans að ein virtasta vísindastofnun Þýskalands er nefnd eftir honum í heiðursskyni. Allnokkrir Íslendingar hafa notið styrkja frá Alexander von Humboldtstofnuninni í Bonn til framhaldsnáms og vísindastarfa.

Dr. Papenfuss, aðstoðarframkvæmdastjóri Alexander von Humboldtstofnunarinnar hafði spurst fyrir um það, þegar hann var í heimsókn hér á landi í boði Alexander von Humboldtfélagsins á Íslandi, hvort vitað væri, að Alexander von Humboldt hefði skrifast á við einhverja Íslendinga. Þeir í Bonn hefðu áhuga á að fá ljósrit af slíkum bréfum, fyndust einhver.

Við eftirgrennslan greinarhöfunda á Handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar voru göldruð fram gulnuð skjöl frá tíma sem einu sinni var : Bréf frá Finni til Humboldt. Blaðsíðurnar voru þéttskrifaðar og letrið svo smátt, að notast varð við stækkunargler til að ráða fram úr því. Skriftin var falleg og skjölin rituð á þýska tungu. Málfarið fornlegt.

Hvað stendur svo í þessum bréfum Finns? Fyrra bréfið er skrifað 1845 tveimur árum fyrir andlát hans. Fer það hér á eftir í íslenskri þýðingu:

Háæruverðugur

Barón Alexander von Humboldt

Konunglegt, prússneskt leyndarráð með sanni

Handhafi stórriddarakross, heiðursdoktor, heiðursdoktor, heiðursdoktor

Ég hef séð yður; þar með hefur ósk ræst, sem ég hef lengi alið í brjósti. Ég hef frá því í æsku ásamt öllum okkar samtímamönnum dáðst að hinum heimsfrægu ferðum yðar, uppgötvunum og ritum. Ég áleit mig svo hamingjusaman, þegar þér komuð til mín í gær, vingjarnlegur og velviljaður; ég gleymi ekki því andartaki ­ og ekki því sem fylgdi fljótt þar á eftir, þegar yðar mikli og samt svo lítilláti konungur, þessi tignarlegi verndari og alúðlegi sérfræðingur vísindanna ­ heiðraði mig með alveg óvæntu, afar náðugsamlegu ávarpi. Allt þetta gerði mig frá mér numinn, geðslag sem er óvanalegt fyrir mig; mér var orða vant til að tjá hálfruglingslegar hugsanir mínar. ­ Ég mun ætíð telja daginn í gær hinn merkasta dag ævi minnar.

Þér minntust á rúnaáletrun ljónanna í Pireus.; Ég hef tjáð skoðun mína á því efni í sjötta bindi Konunglega danska vísindafélagsins, þar sem fjallað er um heimspekileg og sagnfræðileg viðfangsefni. (6. bindi s. 279-284). Afrit af hinni mjög svo skemmdu áletrun er núna í nánari rannsókn hjá okkur; það virðist koma heim og saman við umrædda afskrift með nokkurri nákvæmni. Háæruverðuga tign, þóknist að afsaka þá dirfsku, sem ég sýni með því að áræða að senda yður eftirfarandi bókmenntaleg smáræði:

1) Ritgerð eftir mig á dönsku um hvernig deginum var skift niður hjá fornnorrænum þjóðum og leifar af því fyrirkomulagi sem enn fyrirfinnst hjá afkomendum þeirra og öðrum skyldum þjóðum. ; (sérprentun úr ofannefndum ritum hins Konunglega danska vísindafélags. 7. b.). Prentvilla á titilblöðunum (ég sá ekki um leiðréttingar) sýnir ártalið 1844, og samt kom bókin fyrst út á þessu ári. Jakob Grimm fékk eintak og skrifaði hérlendum vini, að honum hafi fundist ritgerðin mjög gagnleg og lærdómsrík. Hve það myndi gleðja mig innilega að fá að vita álit yðar á þessu. Hversu miklu hefðuð þér ekki komið til leiðar í þessu sambandi.

2) Íslenska almanakið fyrir þetta ár (flest eintökin, sem eftir eru, eru prentuð á gulan pappír, eins og venjan er með dönsk almanök). Ég hef staðfært efnið á alþýðlega vísu, með viðbót hins forna rímtals úr heiðni (sennilega upprunalega runnið frá Asíu), sem er enn notað á eyjunni (ásamt hinu kristna gregoríanska tímatali). Það hefur verið í notkun miklu lengur heldur en tímatalið frá frönsku byltingunni, sem er nokkuð skylt.

3) Yfirlit Erslevs yfir ævi mína og ritverk (sjaldgæf sérprentun úr alfræðiriti Erslevs um danska rithöfunda).

Guð varðveiti og blessi yður. Auðnist yður að fá notið langlífis! Ég held áfram að vera hlýðnasti þjónn og aðdáandi yðar göfugleika.

Kaupmannahöfn, 20. júni, árið 1845. Finnur Magnússon

Af hirðmönnum

Sá lítilláti konungur, tignarlegi verndari og alúðlegi sérfræðingur vísindanna, sem heiðraði Finn með afar náðugsamlegu ávarpi var enginn annar en Friðrik III Prússakonungur, eða Friedrich Wilhelm III, eins og hann hét á frummálinu. Frá því er Alexander von Humboldt kom aftur úr könnunarferðum sínum í S-Ameríku, þá settist hann að mestu leyti að í París og bjó þar um 20 ára skeið, enda kunni hann best við sig þar. Árið 1827 lét hann undan bón Friðriks III að flytja til Berlínar. Konungur hafði oft hitt Alexander von Humboldt í París og geðjast svo vel að honum, að hann vildi gera hann að hirðmanni sínum, til þess að njóta gagns og skemmtunar af fróðleik hans. Alexander von Humboldt fékk leyfi til þess að halda til Parísar og dvelja þar í 3-4 mánuði á ári og notfærði hann sér það oft síðar. Hann varð nú vellaunaður kammerherra konungs og ráðunautur hans um vísindaleg málefni, en Alexander von Humboldt skoraðist jafnan undan því að taka að sér ráðherraembætti. Auk þessa var Alexander von Humboldt oft notaður til ýmissa pólitískra sendiferða, þar sem sérstaka lipurð þurfti, en aldrei tók hann að sér fasta sendiherrastöðu. Um þessar mundir réði Kristján konungur VIII ríkjum í Danmörku. Hann hafði alla ævi ódrepandi áhuga á vísindum, átti í bréfaskriftum við vísindamenn víða um heim og þar með talinn Alexander von Humboldt. Friðrik III Prússakonungur var í heimsókn hjá Kristjáni VIII og hafði að sjálfsögðu fríherrann, baróninn, kammerherrann og vísindaráðið Alexander von Humboldt með í för. Og Finnur, sem var mikill vinur Danakonungs ók í vagni með Alexander von Humboldt um Höfn eins og Gröndal segir frá.

Humboldt og Hekluaskan

Ekki er vitað, hvort Alexander von Humboldt svaraði þessu bréfi Finns. Það verður ekki ráðið af seinna bréfi Finns til Alexanders von Humboldts. Síðara bréfið er mun lengra og skrifað í þremur áföngum. Hann byrjar bréfið 7. apríl 1846, heldur svo áfram með það þann 9. apríl og slær svo botninn í það þann 11. apríl. En það er athyglisvert, að hann þakkar Alexander von Humboldt hvergi fyrir neitt bréf. Það er þó með nokkrum ólíkindum, að Finnur hafi ekki fengið einhvers konar þakkir frá Alexander von Humboldt þó ekki væri nema fyrir Almanakið, sem Finnur sendi honum, en þetta almanak var fyrirrennari Almanaks Þjóðvinafélagsins.

Síðara bréf Finns snýst fyrst og fremst um það, hvernig hann geti þakkað "yðar mikla konungi og andlegum verndara og heimskunnum herra vísindanna fyrir orðuna, sem ég hlaut eftir konungsheimsóknina síðastliðið sumar" eins og segir í bréfinu. Þá segir hann, að sér hafi verið ráðið frá því að þakka konungi persónulega fyrir orðuna og vildi því koma þakklæti sínu á framfæri gegnum Alexander von Humboldt. Ástæðan fyrir því að hann skrifar bréfið í áföngum er sú, að hann var að bíða eftir póstskipinu frá Íslandi. Hann segist hafa fengið þá snjöllu hugmynd að segja honum frá eldfjallinu Heklu. Með póstskipinu átti hann von á ösku úr Heklugosinu 1845, sem hann sendir svo áfram með síðara bréfinu til Humboldts. Einnig segir hann honum tíðindi af Íslandi og þó mest fréttir og lýsingar af Heklugosinu, sem stóð þá enn, en verða ekki raktar hér.

Uppkast af fyrra bréfi Finns er að finna í handritasafni Jóns Sigurðssonar í Þjóðarbókhlöðu. Hreinskriftina af þessu bréfi og síðara bréfið eignaðist Handritasafn Landsbókasafnsins fyrir milligöngu Ársæls Árnasonar bóksala árið 1922, en hann fann þessi bréf á fornbókasölu í Berlín. Þar sem ekki verður ráðið af síðara bréfi Finns að Alexander von Humboldt hafi svarað fyrra tilskrifi Finns læðist að manni sá grunur að hann hafi kannski aldrei fengið bréfið né Almanakið og annað sem Finnur sendi honum. Þó má telja líklegt, að Alexander von Humboldt hafi fengið bréfið, en eftir stendur að finna út hvers vegna þau lentu hjá fornsala í Berlín. Og hvar eru svarbréf Alexanders von Humboldts niðurkomin, ef þau hafa þá verið skrifuð yfirhöfuð?

Heimildir: Benedikt Gröndal: Dægradvöl. Rv., Bókav. Ársæls Árnasonar, 1923. Benedikt Gröndal: Dægradvöl. Rv., MM, 1965 Benedikt Gröndal: Rit I- III, Hf., Skuggsjá, 1981-1983. Páll Eggert Ólason: Íslenskar Æviskrár, II. Rv., Bókmf., 1949. Páll Eggert Ólason: Jón Sigurðsson I. Rv., Hið íslenska Þjóðvinafélag, 1929.

Auk þess er Ögmundi Helgasyni forstöðumanni handritadeildar Þjóðarbókhlöðu þökkuð frábær aðstoð.

Helga Skúladóttir er BA í ensku og sögu. Dr. Sigfús A. Schopka er formaður Alexander von Humboldtfélagsins á Íslandi.

FINNUR Magnússon, leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn.

ALEXANDER von Humboldt í bókasafni sínu í Berlín 1856. Vatnslitamynd eftir Eduard Hildebrandt.

KOPARSTUNGA sem sýnir leiðangur Alexanders von Humboldts til Tobolsk.ÞANNIG hefur það litið út þegar þeir óku saman um Kaupmannahöfn, finnur Magnússon og Alexander von Humboldt með konunglegu föruneyti.Finnur var nokkuð hár meðalmaður, en þá orðinn lotinn og laslegur, grannvaxinn og kraftalítill að sjá, mjög lágtalaður og velti nokkuð völunni; ekki var hann fjörlegur, hvorki í tali né hreyfingum..."

Benedikt Gröndal.