Ragnar Valdimarsson Mánudaginn 15. júlí var ég staddur hjá systur minni vestur í bæ þegar síminn hringdi og í símanum var Jón eldri bróðir okkar og sagði að Heiða næstelsta dóttir Ragnars hefði verið að hringja og tilkynna lát hans þá um morguninn. Þetta var snöggt og þungt högg fyrir okkur öll því Raggi var mjög einlægur bróðir okkar uppeldissystkina sinna og um leið ákaflega ættrækinn í garð systkina sinna í Bolungarvík.

Á yngri árum stundaði Raggi sjó, enda ekki um annað að velja á þeim árum. Hann var góður sjómaður, ósérhlífinn, lipur og verklaginn. Þegar sjómennskunni lauk stundaði hann bifreiðaakstur hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar til ársins 1956 er hann varð fyrir þeirri ógæfu að fá heilablóðfall, en 1957 fór hann til Danmerkur í heilaskurðaðgerð sem lánaðist það vel, að hann náði nokkru vinnuþreki í nokkur ár og stundaði þá póst- og farþegaflutninga norður Strandir. Þetta voru erfiðar og langt í frá hættulausar ferðir á haustnóttum og þar kom að hann varð að hætta og eftir það var hann að mestu óvinnufær.

Allir sem til þekkja vita hve gestrisið heimili þeirra Lillu og Ragga var, oft á tíðum nánast eins og hótel. Eins og gefur að skilja mæddi þá mjög á húsmóðurinni. Raggi var mjög skemmtilegur í viðræðum og með afbrigðum orðheppinn og eru margar sögur til um smellin tilsvör hans.

Elsku Lilla, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Við systkinin vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Að lokum, elsku Raggi, við systkini þín, Nonni, ég, Stella og Ninni, kveðjum þig með söknuði og þökkum Guði fyrir að hafa átt þig fyrir bróður.

Halldór Z. Ormsson.