Ragnar Valdimarsson Hann afi Raggi er dáinn, farinn þangað sem allir fara að lokum. Afi var alltaf svo kátur og glettinn, eins og eitt barnabarnið hans sagði: "Það er alltaf svo gaman þar sem afi Raggi er." Á góðum stundum þegar einn eða fleiri voru saman komnir með afa var afi hrókur alls fagnaðar. Hann sagði svo einstaklega skemmtilega frá. Hann sagði okkur ungu kynslóðinni margar skemmtilegar sögur frá því sem var í gamla daga. Frásögnin var alltaf svo myndræn og hann dró fram spaugilegu hliðina á atburðunum þó að heilmikil alvara væri á bak við. Hann var orðheppinn með eindæmum og átti alltaf svar á reiðum höndum. Afi var alltaf að og alltaf hafði hann tíma til að sinna okkur krökkunum sem bjuggum í nágrenni við hann. Ef hjólið bilaði gerði afi við það, lagaði skíðasleðana, bjó meira að segja til skíði úr tunnuspýtum og reyndi að poppa fyrir okkur úr hænsnabyggi, allt reyndi og gerði afi Raggi. Við sem vorum þess aðnjótandi að fá að kynnast og vera í návist afa Ragga búum að dýrmætri reynslu, sem við búum að alla ævi.

Til stóð að fjölskyldan hittist um næstu helgi og gleddist saman og allir ættingjarnir sem eru staddir á landinu ætluðu að mæta því það lætur enginn sig vanta þegar Ragga Vall fólkið ætlar að hittast og eiga helgi saman. Afi var farinn að hlakka svo til að fá alla hingað til Hólmavíkur. En skjótt skipast veður í lofti og nú hittumst við við aðrar aðstæður en ákveðið hafði verið því í dag kveðjum við afa okkar í hinsta sinn.

Elsku afi, takk fyrir allar samverustundirnar, við vitum að þú ert nú á góðum stað og trúum því að þú sért enn á meðal okkar þó að við sjáum þig ekki.

"Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra." (Matt. 7,12). Þessi einkunnarorð hafði afi að leiðarljósi og benti okkur á að hafa sem einkunnarorð við ferminguna og hafa að leiðarljósi í gegnum lífið.

Bára, Ragna Þóra og Elín Gróa Karlsdætur.