Leikur og alvara Myndlist Bragi Ásgeirsson Sú fjölbreytni sem einkennir íslenzka myndsköpun um þessar mundir á sér lítil takmörk. Alltaf er eitthvað að koma manni á óvart og svo er um sýningu nýliðans Ragnars Stefánssonar í FÍMsalnum í Garðastræti 2.

Leikur og alvara Myndlist Bragi Ásgeirsson Sú fjölbreytni sem einkennir íslenzka myndsköpun um þessar mundir á sér lítil takmörk. Alltaf er eitthvað að koma manni á óvart og svo er um sýningu nýliðans Ragnars Stefánssonar í FÍMsalnum í Garðastræti 2.

Mest kemur sýningin mér á óvart fyrir það, að hér er um smíðisverk og lágmyndir að ræða en ekki málverk, svo sem ég átti helst von á frá hendi Ragnars, enda minnist ég þess ekki að hafa séð slík verk frá hendi hans áður. Útisýningu Ragnars og félaga nú í sumar hafði ég engin tök á að nálgast.

Og vissulega eru þetta fagmannlega gerð smíðisverk, sem hafa að baki ýmsar heimspekilegar vangaveltur, ef að líkum lætur. Ragnar staðsetur stundum leikföng, t.d. skip eða fornaldarófreskjur, inn í myndflötinn og minnist ég þess ekki að hafa séð það gert á þennan hátt áður hérlendis. Fyrir hin hnitmiðuðu og ágætu vinnubrögð verða myndirnar forvitnilegar, um leið og þær undirstrika, að það býr sitthvað í þessum manni.

Ragnar tekur véltæknina í þjónustu sína og þannig teiknar hann sig inn í harðplastið með hand fræsara, og allar bera myndirnar það með sér, að hér er af mikilli vandvirkni tekið á verki. Fágunin nálgast jafnvel það að vera um of, þannig að maður óskar þess gjarnan, að gerandinn hefði á stundum beitt verkin meiri og umbúðalausari hörku - látið alla yfirvegun lönd og leið.

En það er fullkomlega rétt afstaða að vilja sækja inn á ný svið til að ögra sjálfum sér og skapa meiri spennu í markmiðinu að skapa verkin, eins og listamaðurinn hefur sagt. En hér er sá galli á gjöf Njarðar, að listunnendur þekkja lítt til Ragnars á öðrum sviðum myndlistar og eru þannig vísast ekki alveg með á nótunum.

Ég veit af eigin reynslu frá málunardeild MHÍ, að Ragnar hefur tilhneigingu til að fara inn á óvissu svæði og takast á við ný verkefni, sem gefur til kynna, að hér sé átakamaður á ferð og til alls líklegur. Hann vill og hafa svigrúm í kringum sig og er sjálfstæður í hugsun, þótt verk hans séu nýstárleg. Svo vill til að nýstárleiki og nýlist er löngu hætt að vera samnefnari frumleika og sjálfstæðis í listinni, öllu frekar akademisma og hópeflis. Og eins og Matisse sagði, þá skyldi enginn hafa áhyggjur af frumleikanum, því að ef neisti af honum væri innra með manni myndi hann koma fram fyrr eða síðar. Aðalatriðið er þannig að halda sínum striki í leik og starfi, og í þessu tilviki er lögð rík áhersla á leikinn, en einnig á alvöruna að baki í bland.

Morgunblaðið/Bjarni

Ragnar Stefánsson ásamt nokkrum verka sinna.