Flugmálastjóri ætlar ekki að veita Sterling flugleyfi: Geri ráð fyrir því að ráðherra fari að vilja launþegasamtakanna ­ segir Ögmundur Jónasson formaður BSRB FORMLEG umsókn frá Sterling-flugfélaginu um leiguflug milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur, hefur...

Flugmálastjóri ætlar ekki að veita Sterling flugleyfi: Geri ráð fyrir því að ráðherra fari að vilja launþegasamtakanna ­ segir Ögmundur Jónasson formaður BSRB

FORMLEG umsókn frá Sterling-flugfélaginu um leiguflug milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur, hefur ekki borist íslenskum flug yfirvöldum. Flugmálastjóri segist ekki munu veita slíkt leyfi þarsem reglur segi fyrir um að ekki verði leyft leiguflug milli staða þar sem þegar er áætlunarflug. Einungis samgönguráðherra hafi vald til að veita slíka undantekningu.

Sjö launþegasamtök auglýstu átta leiguflug með Sterling fyrir páska og munu selja í ferðirnar þarsem þau gera ráð fyrir að flugleyfið verði leyft. "Við höfum alltaf gert ráð fyrir því að samgönguráðherra fari að vilja samtaka sem telja um hundrað þúsund Íslendinga og veiti tilskilin leyfi," sagði Ögmundur Jónasson formaður BSRB við Morgunblaðið. Dönsk flugmálayfirvöld hafa veitt Sterling flugleyfi fyrir sitt leyti. Ekki náðist í samgönguráðherra í gærkvöldi.

Orlofsferðir launþegasamtakanna voru auglýstar á skírdag, en á þriðjudag vakti Pétur Einarsson flugmálastjóri athygli Samvinnuferða - Landsýnar, sem sér um söluá ferðunum, á því að engin umsókn hefði borist um leyfi til leiguflugsins til íslenskra yfirvalda. Pétur sagði við Morgunblaðið að samkvæmt reglum væru slík leyfi ekki veitt á leiðum þar sem áætlunarflug væri fyrir, nema til kæmi ákvörðun samgönguráðherra. Flugmálastjóri gerði launþegasamtökunum, sem standa að orlofsferðunum, grein fyrir þessari afstöðu bréflega í gær.

Sterling-flugfélagið hefur áður fengið leyfi fyrir leiguflug milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur, síðast fyrir eina ferð árið 1987. Flugleiðir höfðu þá eins og nú flugrekstrarleyfi á þeirri leið, en gagnkvæma flugheimildin frá Danmörku var þá ekki nýtt, að sögn Ólafs Steinars Valdimarssonar ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins. Einnig var búið að selja sætin í leiguflugið þegar umsókn um flugleyfið barst, þannig að ekki þótti stætt á að synja um leyfið.

Að sögn Tómasar Tómassonar hjá Samvinnuferðum - Landsýn, hafa launþegasamtökin sjö, sem aðferðunum standa, ákveðið að halda sínu striki þrátt fyrir þetta, og hefja sölu í ferðirnar 1. apríl nk. eins og áætlað var. Hann sagði að Sterling hefði talið sig vera búið að senda formlega umsókn til íslenskra flugmálayfirvalda, og hefði ekki haft skýringar á hvers vegna sú umsókn hefði ekki borist. Tómas sagði að félagið hefði þegar fengið leyfi frá dönskum yfirvöldum, en SAS hefði ekki lagst gegn því.

Flugfélaginu Lion Air var í fyrra synjað um leyfi fyrir leiguflug milli Lúxemborgar og Keflavíkur, þarsem áætlunarflug var milli þessara staða. Félagið fékk síðan leyfi milli Keflavíkur og Kölnar í Þýskalandi.