Bréfaskipti Montazeri og Khomeini: Fjöldaaftökur í Íran gagnrýndar harðlega París. Reuter.

Bréfaskipti Montazeri og Khomeini: Fjöldaaftökur í Íran gagnrýndar harðlega París. Reuter.

HOSSEIN Ali Montazeri, sem hafði orðið fyrir valinu sem eftirmaður Khomeini, trúarleiðtoga Írana, en hafnaði tilnefningunni á mánudag, fór þess að minnstakosti tvisvar á leit við Khomeini í fyrra að bundinn yrði endi á fjöldaaftökur í írönskum fangelsum, samkvæmt bréfum sem birt voru í París í gær.Í bréfunum kemur fram að Montazeri óttaðist að fjöldaaftökurnar yrðu til þess að almenningur snerist gegn íslömsku byltingunni og að þær yrðu smánarblettur á Írönum.

Montazeri sendi Khomeini tvö bréf, dagsett 4. og 31. júlí árið 1988, þar sem segir að þúsundir fanga hafi verið teknir af lífi á örfáum dögum í Íran. Fyrrum forseti Írans, Abolhassan Bani Sadr, sem nú er búsettur í París, sýndi fjölmiðlum bréfin í gær.

Í síðara bréfinu segir Montazeri að öfgamenn, sem starfi í nafni Khomeini, hafi gengið of langt í því að taka pólitíska fanga af lífi. Margir fanganna hafi verið saklausir eða aðeins sekir um minniháttar brot og aftökurnar hafi einungis orðið til þess að fjölskyldur fanganna, sem flestir hafi verið trú ræknir byltingarsinnar, hafi orðið afhuga byltingunni. "Ofbeldi og aftökur hafa hingað til ekki orðið okkur til neins góðs, heldur kallað á fjölmiðlaáróður gegn okkur og orðið vatn á myllu gagnbyltingarsinna," bætti Montazeri við.

Reuter