Sigurður Magnússon fv. blaðafulltrúi látinn SIGURÐUR Magnússon fyrrverandi blaðafulltrúi Loftleiða er látinn í Reykjavík, 77 ára að aldri. Sigurður fæddist 6. júlí árið 1911 að Miklaholti í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu, sonur hjónanna Magnúsar...

Sigurður Magnússon fv. blaðafulltrúi látinn

SIGURÐUR Magnússon fyrrverandi blaðafulltrúi Loftleiða er látinn í Reykjavík, 77 ára að aldri.

Sigurður fæddist 6. júlí árið 1911 að Miklaholti í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu, sonur hjónanna Magnúsar Sigurðssonar og Ásdísar Magneu Sigurðardóttur. Sigurður varð gagnfræðingur frá Flensborgarskóla árið 1929 og lauk kennaraprófi árið 1933. Hann var kennari í Eyja- og Miklaholtshreppi á árunum 1929 til 1931, síðan í Breiðuvík á Snæfellsnesi, á Bolungarvík og við Austurbæjarskólann í Reykjavík frá 1934 til 1954. Þá var hann löggæslumaður í Rannsóknarlögreglu Reykjavíkur frá 1937 til 1951 í brotamálum barna og unglinga.

Sigurður vann ýmis störf er varða flugmál, einkum á vegum Loftleiða hf., frá árinu 1944 og var blaðafulltrúi félagsins frá 1961 til 1973. Hann var forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins 1973 til 1974 og skrifstofustjóri Stálhýsis 1975 til 1977.

Sigurður var formaður Sölutækni um árabil frá 1946 og átti einnig sæti í stjórn Norræna félagsins. Hann var formaður Starfsmannafélags Loftleiða í mörg ár, átti sæti í Ferðamálaráði Íslands frá 1964 til 1974, var í Vörusýningarnefnd um árabil og sat í stjórn Íslandsdeildar Amnesty International frá 1977.

Sigurður ritaði greinar um margvísleg efni í blöð og tímarit auk ferðabókar, "Vegur var yfir", sem kom út árið 1953. Hann stjórnaði um árabil útvarpsþættinum Spurt og spjallað, var ritstjóri tímaritsins Flug og Newsletter, fréttabréfs Loftleiða frá upphafi til 1973 og var ritstjóri Fréttabréfs Eimskipafélags Íslands frá 1977 til 1980. Á árunum 1981 til 1987 vann hann að útgáfumálum hjá Rauða krossi Íslands.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Dýrleif Ármann kjólameistari.

Sigurður Magnússon