Sigurlaugur Jónsson ­ Minningarorð Sigurlaugur Jónsson sem kvaddur er í dag fæddist 2. maí 1907 á Brjánsstöðum á Skeiðum, þar sem foreldrar hans bjuggu allan sinn búskap. Foreldrar Sigurlaugs voru Helga Þórðardóttir, f. 12. september 1876, d. 7. júní 1949, og JónSigurðsson, f. 29. apríl 1865, d. 24. apríl 1934. Þau eignuðust 18 börn, af þeim komust 14 til fullorðinsára, og var Sigurlaugur fimmti í röðinni af þeim. Einnig ólu þau Helga og Jón upp einn fósturson.

Níu ára að aldri fór Sigurlaugur til dvalar að Þrándarholti í Gnúpverjahreppi og var þar mikið viðloðandi í mörg ár. Minntist hann oft veru sinnar þar hjá systkinunum Oddi Loftssyni, Guðnýju og Steinunni Loftsdætrum.

Sigurlaugur réðst sem ungur maður til starfa við akstur hjá Mjólkurbúi Ölfusinga í Hveragerði. Það kom fyrir að vélar búsins biluðu og var þá iðulega leitað til Sigurlaugs að gera við þær, þegarhann kom heim að kvöldi eftir akstur með mjólk til búsins. Varð þá vinnudagurinn stundum æði langur og eftir því fjölbreytilegur. Um þetta leyti lágu saman leiðir hansog Jónínu Eiríksdóttur frá Ferjunesi í Villingaholtshreppi og gengu þau í hjónaband 1936. Þau stofnuðu heimili í Hveragerði, þar sem Jónína var ljósmóðir, en Sigurlaugur vann við vörubílaakstur, bílaviðgerðir og ýmsar smáviðgerðir. Eiginlega mátti segja að Sigurlaugur væri hálfgerður þúsundþjalasmiður, tilhans var komið með úr, klukkur og ýmis tæki, sem þörfnuðust viðgerðar og var hann "nokkuð glúrinn", eins og hann sagði sjálfur, að koma þeim í lag.

Þau Sigurlaugur og Jónína tóku mig í fóstur á unga aldri og á ég þeim mikla skuld að gjalda, svo góðir foreldrar sem þau reyndust mér. Þau eignuðust síðar son, f. 16. mars 1942, sem skírður var Ingólfur, góðan og efnilegan dreng.

Hveragerði bar á þessum árum um margt sérstæðan svip, þótt smáþorp væri. Þar risu margar gróðrarstöðvar vegna jarðhitans, heilsuhæli sem síðar varð hluti af garðyrkjuskóla, en þangað söfnuðust líka andans menn og til marks um þessa blöndu var, að stærsta skemmtun vetrarins var nefnd Garðyrkju- og listamannaball og voru þar iðulega fluttar drápur miklar til heiðurs þorpinu og íbúum þess. Mér finnst það líka til marks um góða ræktun til andans jafnt og líkamans, að meðal góðra gesta á heimili fósturforeldra minna voru Jón Þorsteinsson íþróttakennari og Eyrún kona hans og Sigvaldi Hjálmarsson guðspekingur og rithöfundur, en Sigurlaugur var mikill áhugamaður um spíritisma, guðspeki og andans málefni yfirleitt. Hann var þó ekki síður maður framkvæmda svo sem nýting hans á hverahitanum rétt við húsdyrnar sýnir. Í þró við húshliðina var hitað allt vatn til heimilisnotkunar og hveragufu leiddi hann í steyptan kassa, þar sem maturinn var gufusoðinn.

Sigurlaugur fékk að reyna það hve gæfuhjólið er fljótt að snúast, þegar Jónína veiktist af alvarlegum sjúkdómi sem dró hana til dauða á skömmum tíma. Hún lést í ársbyrjun 1951. Hún var virt og vinsæl ljósmóðir og síðar stofnaði Kvenfélag Hveragerðis sjóð í minningu hennar. Úr honum hefur verið veitt fé til kaupa á fæðingarrúmi í Sjúkrahús Suðurlands.

Fráfall Jónínu var mikið reiðarslag, en síðar kynntist Sigurlaugur Aðalheiði Halldórsdóttur og gengu þau í hjónaband. Eftir þetta ákvað Sigurlaugur að breyta til í starfi, hætta vörubílaakstri og snúa sérað búskap og flutti hann að Bjarnastöðum í Selvogi. Fljótlega kom þó aftur til breytinga, aðallega af heilsufarsástæðum og bjó hann þá um tíma í Þorlákshöfn. En síðustu áratugina hafa þau Sigurlaugur og Aðalheiður átt heimili í Reykjavík.

Ingólfur sonur Sigurlaugs starfaði hjá Pósti og síma frá 1967. Hann giftist 1980 Ingibjörgu Aðalsteinsdóttur og eignuðust þau son 1982, sem skírður var í höfuð afa síns, en fyrir átti Ingibjörg dótturina Guðrúnu. Það varð Sigurlaugi þungt áfall þegar Ingólfur féll frá langt um aldur fram árið 1986, eftir stutta en erfiða sjúkdómslegu. Hann sýndi þó stillingu og æðruleysi og á sama hátt brást hann við sínum eigin veikindum og var bjartsýnn til hins síðasta. Þegar hann lagðist inn á sjúkrahús í síðastasinn, sagðist hann koma heim eftir viku, en sú heimkoma reyndist meðöðrum hætti og til annarra og æðri staða, eins og hann hefði líklega sagt sjálfur. Hann lést 19. mars.

Það er bjart yfir minningu Sigurlaugs Jónssonar. Hann var fjölhæfur maður, verklaginn og listhneigður, t.d. smíðaði hann á ungaaldri grammófón og notaði í hann klukkuverk og síðar á ævinni smíðaði hann ýmsa muni úr tré, svosem rokka. Hann greip í hljóðfæri og hafði yndi af söng og kveðskap og seinni árin fékkst hann nokkuð við að teikna og mála og hafði af því atvinnu. Sigurlaugur var léttur í framkomu og hjá honum var alltaf stutt í kímni og spaugsyrði, sem hann hafði á hraðbergi jöfnum höndum við tilvitnanir í lífsspekinga og góðar bækur.

Nú er aðeins eftir að kveðja. Við Valur og börn okkar fjögur þökkum Sigurlaugi ógleymanlegar samverustundir og vottum ástvinum hans og frændliði öllu einlæga samúð.

Erla Þórðardóttir