Kveðjuorð: Margrét Thorlacius frá Öxnafelli Margrét Thorlacius, vinkona mín, lést á heimili sínu, Þórunnarstræti

115, Akureyri, aðfaranótt sunnudagsins 19. marz. Hún hafði verið veik af og til um nokkurn tíma og var nú alveg búin að missa sjónina.

Margrét fæddist að Öxnafelli 12. apríl 1908. Hún var gift Bergsveini Guðmyndssyni húsasmið og eignuðust þau fjögur börn, Kristínu, Guðmund, Friðrik og Grétu.

Fyrst man ég eftir Margréti, þessari elskulegu konu, þegar hún vann við verzlunarstörf hjá Kaupfélagi verkamanna á Akureyri, ég var þá í barnaskóla, en á Akureyri ólst ég upp í nokkur ár hjá fósturföður mínum og frænda, Sigurði Bjarnasyni, eða meðan hans naut við. Oft lá leið mín inn í Kaupfélag verkamanna til að hitta Margréti mína, þessa hlýju og góðu konu, sem ávallt sýndi mér mikla blíðu og kærleika.

Seinna í lífinu átti ég því láni að fagna að kynnast henni betur, á Arnarstapa á Snæfellsnesi, þar átti hún hús sem heitir Arnarfell, en ég bjó þar nokkru neðar, eða á Grund.

Margrét var gædd þeim hæfileika að sjá inn í þann heim sem flestum er hulinn, hún vann í nánu sambandi við ljósveruna Friðrik. Það voru margir sem leituðu til Margrétar í veikindum sínum og mörg gerðust kraftaverkin. Mér er efst í huga mikið þakklæti fyrir þá lækningu sem tengdadóttir mín og ég hlutum og höfum ekki fundið fyrir síðan.

Oft lá leið mín upp að Arnarfelli til Margrétar minnar, hún stóð alltaf úti á tröppunum þegar ég kom, hún sagði að fósturfaðir minn, sem löngu var látinn, kæmi alltaf á undan mér.

Á Arnarfelli var dásamlegt að tylla sér niður og hlusta á Margréti lýsa öllu því sem hún sá, í þeim heimi sem mér er hulinn. Það var eitt sinn seint um haust að við gleymdum okkur og þegar ég er að fara heim á Grund, þá er komið mikið myrkur, svo að ekki sá handaskil en ég bar mig vel þó að ég vissi að það væri fullt af þúfum og skurðum, sem ég myndi ekki sjá. Þegar ég er komin aðeins frá Arnarfelli þá kemur ljós yfir hægri öxl mína, ég lít við en sé ekkert ljós, en ég hélt áfram og ljósið fylgdi mér alveg heim. Daginn eftir sagði ég Margréti frá þessu og hún sagði: "Það var gott Maja mín, að þú gast notað ljósið."

Margrét lýsti fyrir mér náttúru anda, konu sem var bláklædd, ljós glitrandi, stór og breiddi út hendurnar til blessunar yfir Arnarstapa.

Börnin sem dvöldu hjá mér á Grund og minnist ég helst Hönnu Maju barnabarns míns, Herdísar og Brynjólfs, alltaf vildu þau fara að heimsækja Margréti sína. Börn eru næm og þar fundu þau friðinn og blíðuna, þar leið þeim alltaf vel.

Margrét bjó lengi á Tjarnarbraut 3 í Hafnarfirði, þangað lá leið mín oft. Allt geislaði þar af góðleikan um.

Það er svo margt sem rifjast upp, fallegar minningar sem ég mun ávallt geyma.

Ég sendi börnum, tengdabörnum, barnabörnum og Þórði Halldórssyni mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að gefa þeim styrk.

Myndina af minni kæru Margréti mun ég geyma. Það er kona í bláum kjól, með fallegt bros sem gaf mér kærleika og blíðu. Hjartans þakkir til hennar frá mér og fjölskyldu minni. Hvíli hún í friði.

María Sigurðardóttir