Meira tjón í kerfinu? Borgaryfirvöld skoðuðu ekki með opnum huga þá möguleika, segirViðar Hreinsson í þessari fyrri grein sinni um Miðskólann, það sem hann hefur fram að færa í skólastarfi.

Meira tjón í kerfinu? Borgaryfirvöld skoðuðu ekki með opnum huga þá möguleika, segirViðar Hreinsson í þessari fyrri grein sinni um Miðskólann, það sem hann hefur fram að færa í skólastarfi. NÝLEGA ritaði ég grein um viðhorf í skólamálum og kvaðst mundu rekja sorgleg dæmi um hvernig fer þegar bryddað er á nýjum hugmyndum í skólastarfi. Eitt slíkt er Miðskólinn í Reykjavík. Í máli hans má sjá að borgaryfirvöldum Reykjavíkur hefur þótt vænlegra að stinga höfðinu í sandinn en að hlúa að því sem til framfara horfir í skólastarfi.

Miðskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1992 sem einkaskóli og þarf ekki að fjölyrða um þá hugmyndafræðilegu slagsíðu sem hlýtur að verða á umræðu um svoleiðis fyrirbæri. Því er rétt að taka fram að skólinn er sjálfseignarstofnun og hefur leitast við að halda skólagjöldum lágum. Nemendur skólans koma úr ýmsum þjóðfélagshópum, ekkert síður þeim sem lægra eru launaðir. Fjárhagur skólans hefur alltaf verið þröngur og ekki hefur myndast um hann nein samfylking þeirra máttarstólpa samfélagsins sem yfir einhverjum peningum hafa að ráða. Skólinn var hins vegar stofnaður í andstöðu við ríkjandi viðhorf í menntamálum og stofnun hans og mótun var einkum hugsjónastarf dr. Braga Jósepssonar.

Foreldrar og nemendur hafa nær undantekningarlaust verið ánægðir með skólann og hlýtur það að teljast saga til næsta bæjar á þessum síðustu og verstu tímum. Ég hef heyrt margar sögur foreldra um það hvernig skólinn hefur hreinlega bjargað skólagöngu barna þeirra; að börnunum hafi aldrei fyrr liðið vel í skóla, að börn sem hafi farið halloka í öðrum skólum hafi blómstrað þegar þau komu í Miðskólann, að greind börn sem voru að koðna undir bremsukerfi flathyggjunnar hafi lifnað við á ný. Megineinkenni á starfi Miðskólans er virðing fyrir sérkennum einstaklingsins og viðleitni til að stuðla að þroska hans á hans eigin forsendum. Það er viðhorf sem sárlega vantar í hinn almenna grunnskóla.

Síðastliðinn vetur var skólanum sagt upp húsnæði sínu í gamla Miðbæjarskólanum. Fullseint var gripið til aðgerða af skólans hálfu, en brátt hófst leit að nýju húsnæði fyrir skólann. Óvissan um húsnæði varð til þess að skólinn neyddist til að segja upp kennurum og foreldrar leituðu annað vegna þessarar óvissu. Ein af forsendunum fyrir því að skólinn tók til starfa var sú að Reykjavíkurborg sæi skólanum fyrir húsnæði án endurgjalds. Þegar loksins fannst hentugt húsnæði samþykkti borgin meðal annars að greiða húsaleigu, en féllst ekki á að greiða nema hluta af kostnaði við nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu. Miðskólinn gerði þau mistök að semja við borgina um helmingaskipti á kostnaði við endurbætur á húsnæðinu, án þess að skólinn hefði í raun bolmagn til þess. Líklega hefur óskhyggja ráðið því, von um að framkvæmdin yrði ódýrari en áætlað var og von um að borgin hlypi á endanum undir bagga.

Sú von brást. Ekki var nóg með að framkvæmdin yrði skólanum ofviða, heldur fóru allir kraftar stjórnenda skólans í það að flytja hann, svo ekki var hægt að sinna því að kynna skólann til að afla nýrra nemenda. Skólagjöld voru lækkuð til að laða að nemendur en allt kom fyrir ekki. Þegar ný stjórn skólans fór að setja sig inn í málin síðsumars kom í ljós að ekki var nóg með að framkvæmdaskuldirnar myndu sliga skólann að óbreyttu, heldur voru rekstrarskuldir skólans geigvænlega háar. Stjórnin taldi að fjárhagsgrundvöllur skólans væri í hættu og leitaði því liðsinnis borgaryfirvalda í bréfum dagsettum 15. og 27. nóvember.

Þeirri málaleitan var hafnað. Borgarstjóri kvað Reykjavíkurborg ekki geta gengið lengra en orðið væri í stuðningi við skólann. Hins vegar væri borgin reiðubúin til að annast kennslu nemenda skólans ef rekstaraðilar treystu sér ekki til að halda rekstri skólans áfram, og myndi leitast við að gera það þannig að það raskaði högum nemenda sem minnst, varðandi húsnæði, kennara og starfsaðferðir.

Með þessu ágripi er ekki öll sagan sögð. Þegar hafist var handa við að leita leiða til að leysa húsnæðisvanda skólans kom fljótt í ljós að borgaryfirvöld höfðu horn í síðu skólans og var ósárt um að hann hrykki upp af. Þó sýndi borgarstjóri málinu skilning um tíma og lagði sig fram um að finna hentugt húsnæði. Aðrir stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar hafa sýnt skólanum fullan fjandskap í orðum og gerðum, bæði opinberlega og í samtölum. Sigrún Magnúsdóttir, borgarfulltrúi og formaður skólamálaráðs, hefur lýst aftur og aftur þeirri skoðun sinni að vegna þess að skólinn sé einkaskóli eigi hann að standa undir sér eins og hver annar einkarekstur. Fer hún jafnan mörgum orðum um eigin verslunarrekstur af þessu tilefni. Rétt er að skólinn kallast einkaskóli og gera verður þá kröfu að rekstur hans gangi upp þegar til lengri tíma er litið. Að öðru leyti lýsir samlíking borgarfulltrúans hreinni fávisku. Miðskólinn er sjálfseignarstofnun, og var svo sannarlega ekki stofnaður í hagnaðarskyni eins og venjuleg einkafyrirtæki. Hann var stofnaður af hugsjón, til þess að koma til móts við brennandi þarfir foreldra og barna sem almenna skólakerfið hefur brugðist. Hugsjónin var mannúðarhugsjón, og því er það þeim mun dapurlegra að horfa upp á þessa samlíkingu. Það er einfaldlega ekki hægt að líkja skólabörnum við vörur í hillum. Þegar Sigrún býðst til að koma börnum skólans fyrir í skólum borgarinnar er hún í raun að tala um þau eins og dauða hluti sem einfalt sé að færa til. Stjórnmálamaður sem talar um manneskjur með þeim hætti, og leggur allan rekstur að jöfnu, hvort sem um er að ræða súpupakka eða börn, getur ekki búið yfir þeirri lágmarksdómgreind og siðferðiskennd sem stjórnmálamenn eiga að hafa.

Þegar slík viðhorf ráða ríkjum getur ekki verið von á góðu. Stjórn Miðskólans leitaði ekki til borgaryfirvalda að gamni sínu, heldur var það af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að hún taldi að borgin bæri nokkra ábyrgð á því hvernig komið væri, þegar fótfestunni var kippt undan skólanum með því að segja upp húsnæðinu, án þess að útvega nýtt í staðinn með sömu skilmálum. Og í öðru lagi vegna þess að í skólanum hefur farið fram aðdáunarvert starf, þar sem skólagöngu fjölda barna hefur verið bjargað. Skólinn er einfaldlega þess virði að bjarga honum vegna starfs hans og árangurs. Því viðurkenndi stjórnin hreinskilnislega að mistök hefðu verið gerð í rekstri skólans og benti á ýmsar leiðir til samstarfs við skólayfirvöld borgarinnar um leið og leitað var liðsinnis svo endurskipuleggja mætti reksturinn.

Synjun borgaryfirvalda á erindi Miðskólans vekur mann til umhugsunar um tvö atriði. Í fyrsta lagi, að þau skyldu ekki sjá og skoða með opnum huga það sem Miðskólinn hefur fram að færa í skólastarfi. Getur það verið að fræðsluyfirvöld hafi ekki áhuga á því að vita hvers vegna slík einróma ánægja ríkir meðal foreldra um skólann? Í öðru lagi vekur þessi raunasaga upp spurningar um samskipti borgara, stjórnmálamanna og embættismanna. Að þessum atriðum verður vikið í síðari hluta greinarinnar.

Síðari hluti greinarinnar birtist nk. þriðjudag.

Höfundur er bókmenntafræðingur, á börn í skóla og er í stjórn Miðskólans í Reykjavík.

Viðar Hreinsson