Stöðvar RÚV skuldaaukningu Reykjavíkurborgar? Hafa fréttastofurnar ekki lengur þann metnað, spyr Þórhallur Jósepsson, að segja satt og rétt frá? FRÉTTAMAÐUR Sjónvarpsins sagði í aðalfréttatíma 4. desember sl.: "Hefur skuldaaukning borgarinnar þar með...

Stöðvar RÚV skuldaaukningu Reykjavíkurborgar? Hafa fréttastofurnar ekki lengur þann metnað, spyr Þórhallur Jósepsson, að segja satt og rétt frá? FRÉTTAMAÐUR Sjónvarpsins sagði í aðalfréttatíma 4. desember sl.: "Hefur skuldaaukning borgarinnar þar með verið stöðvuð." Þessi fullyrðing var síðan endurtekin í fréttayfirliti í seinni fréttatíma kvöldsins. Tilefni fréttarinnar og þessarar fullyrðingar var að lögð hafði verið fram fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár.

Fullyrðingar sama efnis hafa einnig komið fram í útvarpsfréttum RÚV. Reyndar kveðið sterkar að orði og sagt að áratuga skuldasöfnun borgarinnar hefði ". . . verið stöðvuð."

Ég verð að játa að mér brá allnokkuð við að heyra þessar fréttir, því að ég hélt mig hafa fylgst nægilega vel með til þess að aðgerðir til að stöðva skuldasöfnun eða skuldaaukningu Reykjavíkurborgar hefðu ekki farið fram hjá mér. Af hverju hafði ég misst? Skýringin kom reyndar fljótlega, en ekki varð mér rórra við það. Það kom nefnilega upp úr dúrnum þegar fréttirnar voru sagðar í heild, að auðvitað er ekki búið að stöðva skuldasöfnun né skuldaaukningu Reykjavíkurborgar. Fjarri því. Hins vegar er búið að leggja fram í borgarstjórn áætlun um að stöðva skuldasöfnun á næsta ári.

Hvernig stendur þá á því að fréttamenn RÚV, á útvarpi og sjónvarpi, segja landsmönnum þvílíka firru? Hafa fréttastofurnar ekki lengur þann metnað að segja satt og rétt frá? Eða eru viðkomandi fréttamenn slíkir kjánar að greina ekki á milli veruleikans og áætlunar um fjárhag næsta árs? Vita þeir ekkert um það, hversu haldgóð plögg fjárhagsáætlanir atvinnupólitíkusa hafa verið? Halda þeir í raun og veru að það jafngildi þegar orðnum veruleika þegar stjórnmálamenn leggja fram fögur fyrirheit um skatta og gjöld næsta árs? Eða kjósa fréttamennirnir einfaldlega að segja rangt frá? Hvar er faglegur metnaður þessara fréttastofa? Hvar voru fréttastjórarnir?

Nú skiptir í rauninni ekki máli í þessu samhengi hversu trúverðug fjárhagsáætlunin er, jafnvel ekki að talsverðum bata á borgarsjóði á að ná með því að stofna nýtt fyrirtæki í eigu borgarinnar og láta fyrirtækið taka að sér skuldaaukninguna í stað borgarsjóðs og kaupa síðan af borgarsjóði leiguíbúðirnar. Svoleiðis loftfimleikar í gerð fjárhagsáætlana eru í kaflanum um elstu brellurnar í bókinni. Óttalegur barnaskapur fréttamanna að sjá ekki í gegnum það sjónarspil, eða ósvífni að kjósa að sjá það ekki? Eða ætlar RÚV að taka að sér að tryggja efndir loforðanna um stöðvun skuldasöfnunar? Að vísu kom það ekki fram í fréttunum, en ákafinn var svo mikill að segja frá þessari áætluðu stöðvun skuldaaukningar sem þegar á orðnum veruleika, að maður gæti haldið að fleira búi að baki en sagt var.

Samkvæmt könnunum hafa fréttastofur RÚV notið mikils trausts meðal almennings. Í því felst að almenningur treystir því, að fréttamenn RÚV fari ekki með fleipur í fréttum og reyni ekki að halla réttu máli. Ég, sem skylduáskrifandi að efni RÚV, þ.á m. frétta, geri þá kröfu á hendur fréttastofum RÚV að fréttamenn reynist þessa trausts verðir og að yfirmenn fréttastofanna gæti þess að fréttamennirnir geri greinarmun á draumi og veruleika þegar þeir setja saman fréttir sínar. Vinnubrögð af því tagi, sem hér eru gerð að umtalsefni, eru ekki sæmandi fjölmiðli með nokkurn vott af sjálfsvirðingu.

Höfundur er reykvískur skattborgari og skylduáskrifandi RÚV.

Þórhallur Jósepsson