Þörf á stórátaki í menntunarmálum leikskólakennara Það vantar, segir Guðmunda Jenný Hermannsdóttir, á annað þúsund leikskólakennara.

Þörf á stórátaki í menntunarmálum leikskólakennara Það vantar, segir Guðmunda Jenný Hermannsdóttir, á annað þúsund leikskólakennara. UNDIRRITUÐ er varamaður í stjórn Landssamtaka foreldrafélaga leikskóla (LFL), sem eru málsvari foreldra leikskólabarna gagnvart hinu opinbera, sveitarfélögum og ríki (menntamálaráðuneyti), auk þess að eiga í ýmsum nefndum og ráðum sem fara með málefni barna.

Á milli eitt og tvö þúsund leikskólakennara vantar út á vinnumarkaðinn til að fullnægja þeirri eftirspurn sem verður í allra nánustu framtíð, eða er jafnvel nú þegar orðin, fyrir þessa starfsstétt. Þetta kom m.a. fram í Morgunblaðsviðtali við Guðrúnu Öldu Harðardóttur leikskólakennara, sem jafnframt er sérfræðingur nýrra leikskólakennarabrautar við Háskólann á Akureyri.

Í viðtalinu við Guðrúnu Öldu kom einnig fram að nýja leikskólakennarabrautin á Akureyri taki um 30 nemendur í haust. Við eftirgrennslan mína kom í ljós að liðlega fjörutíu nemendur hafi sótt um að komst þar að. Einnig sóttu rúmlega tvö hundruð nemendur um að komast í Fósturskóla Íslands á þessu skólaári en um 70 nemendur komust að. Litlu fleiri nemendur sóttu um að hefja þar nám á skólaárinu '95­'96 sem segir okkur að þrefalt fleiri nemendur sækja um nám í Fósturskólanum en hann getur annað.

Annað hvert ár tekur Fósturskólinn 30 nemendur í fjarnám og sagðist Guðrún Alda í viðtalinu eiga sér þann draum að ríki og sveitarfélög taki sig saman og auðveldi því fólki sem í mörg ár hefur starfað í leikskólum, og þ.a.l. valið sér það sem ævistarf, að mennta sig sem leikskólakennara og taka Landssamtök foreldrafélaga leikskóla heilshugar undir þau orð hennar. Greinarhöfundur telur einnig brýnt að mun betur sé búið að Fósturskóla Íslands í húsnæðismálum.

Víða enginn með menntun

Þegar lögin og reglugerðin um leikskóla voru kynnt vorið 1995 kom fram að um 50% starfsfólks á leikskólum í Reykjavík væru leikskólakennarar en einungis um 30% úti á landsbyggðinni. Víða úti á landi er jafnvel enginn menntaður leikskólakennari á leikskólanum. Uppbygging leikskólanna er því hraðari en skil nemenda til starfa og því þarf augljóslega að auka framboð þessa náms.

Samband íslenskra sveitarfélaga ætti að mínu mati að beita sér fyrir því að framboðið verði aukið því það er þeirra hagur að undirstaðan sé sem best á fyrsta skólastiginu og það eru yfirmenn sveitarfélaganna sem standa í biðröð eftir að ná í nýútskrifaða leikskólakennara þegar náminu lýkur.

Nýverið kom fram í fjölmiðlum að setja ætti niður lausar kennslustofur á lóð Fósturskólans og þótti einhverjum borgarfulltrúum það umhverfisspjöll. Aðrir bentu á að slíkt væri nauðsyn þar sem svo marga leikskólakennara vantaði til starfa hjá borginni. Mér er tjáð að ekki muni vera hægt að fjölga nemendum þrátt fyrir þessar úrbætur þar sem Fósturskólinn búi við afar þröngan húsakost og kennt sé á nokkrum stöðum í borginni, m.a. í húsnæði ÍSÍ í Laugardal.

Óskum eftir samstarfi

Í dag eru starfandi foreldrafélög við flesta leikskóla á landinu. Slík félög þyrftu að hafa með sér samstarf til að skiptast á skoðunum um starfsemi leikskóla síns og annarra, til að semja erindi til landssamtakanna um málefni sem þau telja æskilegt að landssamtökin beiti sér fyrir og til að standa sameiginlega að kosningum fulltrúa í leikskólanefnd sveitarfélagsins þar sem foreldrar leikskólabarna eigi rétt á einum fulltrúa.

Til þess að svo megi verða, og til þess að LFL geti verið virk í að þjóna öllu landinu, hefur stjórn þeirra leitast við að stofna minni svæðisdeildir eftir fræðsluumdæmum eð nálægð nokkurra sveitarfélaga svipaðrar stærðar og með sams konar hagsmuni. Stofnaður hefur verið svokallaður Vestmannaeyjaangi, Reykjanesangi, Reykjavíkurangi og nú síðast Vestfjarðanagi. Sveitarfélög með fleir en tvo leikskóla geta myndað anga en í smærri sveitarfélögum, þar sem einungis er einn leikskóli, þyrftu foreldrafélögin að mynda samstarf með fulltrúum foreldrafélaga í nágrannabyggðunum. Þessir svokölluðu angar vinna síðan eftir samræmdum starfsreglum.

Þetta samstarf felst ekki bara í að móta tillögur til leikskólanefnda og landssamtaka heldur einnig í að sameinast um hvers konar fræðslu til annarra foreldra og samnýta fullfulltrúa til setu á fundum, t.d. aðalfundi LFL. Þó þar hafi öll félögin rétt til setu er ljóst að erfitt er að sækja slíka fundi og alls kyns fyrirlestra um upeldismál til Reykjavíkur frá fjærstu byggðum. Ég tel að slíkir fulltrúar eigi að geta miðlað niðurstöðum heima í héraði.

Hvert svæði, eða hver angi, má ekki vera stærra en svo að komist verði milli þeirra til fundar á einni kvöldstund svo að framkvæmdin verði ekki of erfið. Landssamtökin vinna nú að því að stofna anga um allt land og æskjum við samstarfs allra er málið varðar. Við óskum sérstaklega eftir því að ná sambandi við foreldrafélög í leikskólum á Austurlandi og á Austfjörðum, eða allt frá Akureyri og suður með að Selfossi. Þeir sem gerst þekkja sitt svæði eru best til þess fallnir að skipuleggja skiptinguna í sínu héraði.

Höfundur er varamaður í stjórn Landssamtaka foreldrafélaga leikskóla.

Guðmunda Jenný

Hermannsdóttir