Aðventutónleikar í Neskirkju Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna KÓR Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytja aðventutónlist sunnudaginn 15. desember kl. 18. Stjórnendur eru Ingvar Jónasson og Reynir Jónasson, og einsöngvari Inga J.

Aðventutónleikar í Neskirkju Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna

KÓR Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flytja aðventutónlist sunnudaginn 15. desember kl. 18. Stjórnendur eru Ingvar Jónasson og Reynir Jónasson, og einsöngvari Inga J. Backman. Á efnisskránni eru meðal annars Tveir sálmar eftir Jónas Tómasson í útsetningu Ingvars sonar hans, þáttur úr kantötu Bachs, "Slá þú hjartans hörpustrengi", "Allsherjar Drottinn" eftir Cesar Franck, tvær aríur úr óperunni "Brúðkaupi Fígarós" eftir Mozart, "Ave verum corpus" eftir Mozart og "Jól" eftir Jórunni Viðar. Þá verða sungin jólalög og endað á almennum söng.

Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna standa nú sameiginlega að tónlistarflutningi í fyrsta sinn. Kórinn stendur á gömlum merg, en hljómsveitin var stofnuð haustið 1990. Hún er skipuð fólki sem stundar hljóðfæraleik í frístundum, auk nokkurra tónlistarkennara og nemenda. Einsöngvarinn, Inga J. Backman, hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífi höfuðborgarinnar um árabil og hefur getið sér gott orð fyrir fagran söng.

Aðgangur er ókeypis.

Morgunblaðið/Ásdís

FRÁ æfingu kórs Neskirkju og Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna.