Samþykkt bæjar ráðs Akureyrar Útsvarsprósenta lækkar um 0,2% BÆJARRÁÐ Akureyrar hefur samþykkt að útsvarsprósenta í staðgreiðslu verði 11,79% á næsta ári en nýlega hafði verið samþykkt í bæjarstjórn að útsvarsprósenta næsta árs yrði 11,7%.

Samþykkt bæjar ráðs Akureyrar Útsvarsprósenta lækkar um 0,2%

BÆJARRÁÐ Akureyrar hefur samþykkt að útsvarsprósenta í staðgreiðslu verði 11,79% á næsta ári en nýlega hafði verið samþykkt í bæjarstjórn að útsvarsprósenta næsta árs yrði 11,7%. Samþykkt bæjarráðs nú miðast við að lagafrumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði samþykkt á Alþingi. Breytingin felur í sér hækkun á heimilaðri útsvarsprósentu um 0,09% vegna hækkunar á lífeyrissjóðsgreiðslum af kennaralaunum og mun ríkið lækka tekjuskattinn á móti um sömu prósentutölu.

Leyfilegt hámark verður 11,99%

Útsvarsprósenta á Akureyri hefur verið í leyfilegu hámarki síðustu tvö ár, eða 9,2%. Kennarar heyra nú undir sveitarfélögin í landinu og við þá breytingu færast 2,7% af tekjuskatti ríkisins yfir til sveitarfélaga en á móti hefur ríkið lækkað tekjuskattinn um 2,65%. Verði fyrirliggjandi frumvarp samþykkt á Alþingi, verður leyfilegt hámark útsvarsprósentunnar 11,99% og þá verður útsvarsprósentan á Akureyri 11,79%, samkvæmt samþykkt bæjarráðs.

Dan Brynjarsson, hagsýslustjóri Akureyrarbæjar, segir að í raun lækki útsvarsprósenta í staðgreiðslu um 0,2%. "Við þessa lækkun minnka tekjur bæjarins um 28 milljónir króna en á móti sparar bærinn í vaxtagreiðslum um svipaða upphæð."