Sænska húsnæðislánastofnunin seld Handelsbanken hreppti hnossið Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.

Sænska húsnæðislánastofnunin seld Handelsbanken hreppti hnossið Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.

SÆNSKA húsnæðislánastofnunin Statshypoteket var í gær seld Handelsbanken fyrir 23 milljarða sænskra króna, sem jafnframt er hæsta sala í reiðufé er farið hefur fram í Svíþjóð. Nýi bankinn verður sá stærsti í Svíþjóð. Statshypoteket var áður í eigu ríkisins en hefur verið einkavætt og átti ríkið 34 prósent í henni. Erik Åsbrink fjármálaráðherra hefur lagt blessun sína yfir söluna, en hann lagðist fyrir skömmu eindregið gegn því að tryggingafélagið Skandia keypti Statshypoteket.

Með kaupunum myndast nýr risi á sænskum og norrænum lánamarkaði. Ársvelta stofnananna tveggja er 870 milljarðar, sem samsvarar helmingi sænskrar þjóðarframleiðslu. Það eina, sem hugsanlega gæti staðið í vegi fyrir kaupunum, er að sænska samkeppnisstofnunin samþykkti hana ekki. Nýja stofnunin hefur ekki hlotið nafn, en talsmenn Handelsbanken hafa látið í ljós ósk um að halda báðum nöfnunum, sem njóti bæði mikils trausts. Stefnt er að því að nýi bankinn hafi 35% af húsnæðislánum og einstaklingslánum eftir fimm ár og sitji að 26% af heildarlánamarkaði Svía.