Birtan úr djúpunum TÓNLIST Geisladiskur TIL HAMINGJU MEÐ FALLIÐ Til hamingju með fallið, breiðskífa Magnúsar Þórs Jónssonar, Megasar.

Birtan úr djúpunum TÓNLIST Geisladiskur TIL HAMINGJU MEÐ FALLIÐ Til hamingju með fallið, breiðskífa Magnúsar Þórs Jónssonar, Megasar. Megas leikur á orgel og syngur, en honum til aðstoðar eru ýmsir tónlistarmenn, þar helstir Pjetur Stefánsson sem leikur á þríhorn, Tryggvi H¨ubner sem leikur á gítara, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari og Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari. Lög og textar eftir Megas, utan eitt þjóðlag í útsetningu Megasar og erlent sálmalag í útsetningu Megasar og Tryggva. Einn texti er eftir Bjarna Thorarensen og einn texti Megasar er byggður á ljóðum eftir Maxím Gorkí. Falleg gefur út, Japís dreifir. 72,51 mín., 1.999 kr.

LANGT ER um liðið síðan Megas sendi frá sér plötu og aðdáendur margir orðnir langeygir. Þeir geta nú tekið gleði sína því á Til hamingju með fallið er ríflega helmingi meiri tónlist en tíðkast að setja á plötur nú um stundir, og nærfellt öll í hæsta gæðaflokki, aukinheldur sem textar eru sumir einfaldlega með því besta sem frá Megasi hefur komið út á plasti, þó margir séu full myrkir fyrir viðkvæmar sálir. Orð flæða um þessa plötu, ókræsileg og falleg í senn, meiðandi og græðandi en umfram allt eftirminnileg.

Hljóðfæraleikur er spar og lögin skreytt með innskotum ýmiskonar; skyndilega hljómar ástsjúkt selló og gerbreytir andrúmslofti lags, hverfur síðan óforvarandis, eða þá orgelhljómur lyftir lagi í átt að almættinu áður en það hverfur jafn skjótt og það kom og allt hrapar niður í djúpin að nýju. Gítarleikur Tryggva H¨ubner er sér kapítuli útaf fyrir sig; hann á hvern snilldarsprettinn af öðrum, nefni sem dæmi Ef heimur eigi, Ertu ekki farin að mannast?, Ljóma sínum sól og Heimilisfang óþekkt.

Til hamingju með fallið hefst á einskonar forspili, Kysstu mig, sem byggir á ljóðinu um sjúku mærina eftir Bjarna Thorarensen, tilvalið til að komast í rétt hugarástand fyrir næsta lag á eftir, ofurþjóðlega stemmu um kölska og ýsuna, sem er um leið dæmisaga um okkur öll og rákina andstyggilegu sem kemur upp um okkur. Frekar meinlaust lag og skemmtilega glettið. Þar á eftir kemur þó öllu þyngri texti og myrkara inntak; borgarljóð sem vísar í ýmsar áttir, þar ekki síst í borgarskáld Reykjavíkur sem reyndu að sannfæra sveitamanninn í sjálfum sér án árangurs. Hlíðarendatafl er klassískt Megasarlag sem hann syngur af innblásinni snilld. Reyndar syngur hann margt frábærlega vel á plötunni, til að mynda Kölska og ýsuna, Ef heimur eigi, Hamingjuhvörf, Ljóma sínum sól og Heimilisfang óþekkt, sem er sungið af svo napurri innlifun að hlustanda rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Í Hlíðarendatafli hrærir Megas saman íslenskum þjóðsögum: og þá æpti Gunnar: gemmér hár úr hala þínum / Hallgerður elskubesta bogstengurinn hann er slitinn," og undirstrikar fallvaltleika lífsins. Ef heimur eigi er einskonar huggun, mettuð trausti á forsjónina með orgelinngangi svona rétt eins og til að undirstrika hvað framundan er. Réttast er að flokka saman næstu tvö lög, Minnisrækt og Þyrnirós, því þau sýna tvær hliðar á sama falli úr náð, það fyrrnefnda afgreiðir fallið á napran hátt og hráslagalegan, en það síðara eins og gefur von, svo fremi sem ráðum sögumanns sé fylgt og Þyrnirós hafni flagaranum.

Hamingjuhvörf eru einskonar kaflaskipti á plötunni því þar er tekið stökk inn í nútímann með mansöng til Gróu á Leiti, sem nýtir sér ekki síst alnetið til að miðla sögum sínum. Grípandi lag og skemmtilegt. Griðljóð, sem ekki er síður skemmtilegt, vísar einnig í nútímann og þrengingarnar sem alla æra, en trompetaría í lokin leggur líkn með þraut. Ertu ekki farin að mannast? er annar hornsteinn plötunnar, napurleg saga af því að ekki er það sama að lifa og að lifa af; skemmtilegt lag með hæfilega tyrfnum texta. Ljóma sínum sól er kunnuglegur sálmur með nýjum texta, frábærlega ortum í einfaldleika sínum, og Megas syngur af átakanlegu næmi. Götuvísa er síðan eins og inngangur að næsta lagi, hinum hornsteini plötunnar, Heimilisfang óþekkt. Í Götuvísu er ort til hverfisins á næsta áreynslulegan hátt með saxófónskrauti í lokin, en í Heimilisfangi óþekktu bregður Megas hnífnum á loft og flettir utan af sér hverju laginu af öðru þar til sálin stendur berstrípuð og skjálfandi, en þó ekki í neinni uppgjöf: en ég hef sigrað mitt súrbláa ég / það situr uppá staur og varðar veg / því þeim opnast flest sundin / sem í báða skó er bundinn / og birtuna úr djúpunum ég dreg." Tvímælalaust besta lag plötunnar og eitt það besta sem Megas hefur gefið út til þessa.

Eftir slík átök kemur sér vel dægileg stemma, Vita sínu viti, rétt til að stilla geðið af fyrir næsta skammt, rulluna um Dag hjólbarðasalans, tólf mínútna margþætt lag og bráðvel útsett.

Vít er Til hamingju með fallið löng plata og kostar áreynslu og tíma að komast inn í hana, en þeim tíma er vel varið. Þar sem platan rís hæst stenst enginn Megasi snúning og þó oft virðist mönnum sem drunginn sé óbærilegur sjá þeir við nánari hlustun að í raun er þessi plata upp full með gleði og gamansemi, eins og Megasar er siður.

Árni Matthíasson

Morgunblaðið/Einar Falur

MAGNÚS Þór Jónsson, Megas.