Nýtt í kvikmyndahúsunum Matthildur í Stjörnubíói STJÖRNUBÍÓ hefur hafið sýningu á jólakvikmyndinni, Matthildi (Matilda) sem er gamanmynd fyrir alla fjölskylduna. Myndinni er leikstýrt og hún framleidd af Dannyy DeVito en hann leikur einnig í myndinni.

Nýtt í kvikmyndahúsunum Matthildur í Stjörnubíói

STJÖRNUBÍÓ hefur hafið sýningu á jólakvikmyndinni, Matthildi (Matilda) sem er gamanmynd fyrir alla fjölskylduna. Myndinni er leikstýrt og hún framleidd af Dannyy DeVito en hann leikur einnig í myndinni. Aðrir leikarar eru Rhea Perlman, Mara Wilson og Embeth Davidtz.

Matthild (Mara Wilson) er aðalsöguhetja myndarinnar, bráðgáfuð og þroskuð stelpa sem verður að sjá alfarið um sig sjálf þar sem foreldrar hennar, Harry Wormwood (Danny DeVito) og Zinnia Wormwood (Rhea Perlman) eru húðlatir, kærulausir og hugsa bara um sjálfa sig. Þau láta Matthildi algjörlega afskiptalausa og gleyma jafnvel afmælinu hennar.

Matthildur fær snemma dálæti á öllu lesefni sem til er á heimili foreldra sinna og þar kemur að hún fer ein og óstudd á bókasöfn og les allt sem þar er að finna í sígildum bókmenntum og fræðiritum.

Þar kemur að Matthildur vill setjast á skólabekk og læra með öðrum krökkum. Skólastýran, Agata Trunchbull, (Pam Ferris) er risavaxinn fyrrverandi kúluvarpari sem hatar börn og stýrir skólanum eins og herskóla.

Það líður ekki á löngu þar til Matthildur tekur að sér að vera verndarengill skólafélaga sinna. Hún þróar með sér hugarorku sem verður hennar helsta vopn og vörn gegn yfirgangi skólastýrunnar.

MATTHILDUR uppgötvar innri mátt sinn til að breyta lífi sínu.