Evró-seðlar kynntir EMI, Peningamálastofnun Evrópu, fyrirrennari Evrópska seðlabankans, kynnti í gær evró-seðlana, sem verða teknir í notkun ekki síðar en 1. janúar 2002 innan aðildarríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópu, EMU.

Evró-seðlar kynntir

EMI, Peningamálastofnun Evrópu, fyrirrennari Evrópska seðlabankans, kynnti í gær evró-seðlana, sem verða teknir í notkun ekki síðar en 1. janúar 2002 innan aðildarríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópu, EMU.

Listamenn á vegum seðlabanka Austurríkis hönnuðu seðlana, sem eru sjö, og verðgildi þeirra er frá fimm evróum til 500. Á annarri hlið seðlanna er stílfært kort af Evrópu og á hinni myndir sem tengjast byggingarlist, svo sem brýr, gluggar og bogar. Á seðlunum eru engin tákn sem vísa til einstakra þjóða.

Að sögn talsmanns seðlabankans eiga seðlarnir að tákna "tilkomu nýrrar og sameinaðrar Evrópu". Efnt var til samkeppni um hönnun seðlanna og nefnd 14 sérfræðinga valdi tillögur hönnuða austurríska seðlabankans eftir að 2.000 manns frá öllum löndum Evrópusambandsins höfðu verið spurð álits á tíu bestu tillögunum.