Hverjir frömdu tilræðið við son Saddams? Uday Hussein hefur aflað sér margra óvina innan stjórnarinnar og utan Amman. Reuter.

Hverjir frömdu tilræðið við son Saddams? Uday Hussein hefur aflað sér margra óvina innan stjórnarinnar og utan Amman. Reuter.

MIKLAR vangaveltur um ástandið Írak hafa vaknað eftir að íraska sjónvarpið greindi frá því að Uday Hussein, eldra syni Saddams Husseins, forseta Íraks, hefði verið sýnt banatilræði á götu í Bagdað á fimmtudagskvöld.

Íraskir ríkisfjölmiðlar höfðu eftir talsmanni íraska forsetaembættisins að skotið hefði verið á Uday og hann særst. Hann hefði verið fluttur á sjúkrahús, en ekki væri "ástæða til að hafa áhyggjur" af líðan hans. Árásinni var ekki lýst nánar.

Grímuklæddir árásarmenn?

Haroun Mohammad, íraskur stjórnarandstæðingur í Jórdaníu, sagði að þrír til fjórir menn hefðu ráðist að bílalest Udays. Frásögnum af árásinni bæri ekki saman, en vitni hefðu sagt að Uday hefði verið í fjögurra bíla lest þegar grímuklæddir árásarmenn létu til skarar skríða. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á tilræðinu og hann sagði ekki hverjir hefðu staðið að baki því, en það er sú spurning, sem nú brennur á margra vörum.

Tilræðið gæti hafa verið framið af einhverjum þeirra mörgu óvina, sem Uday hefur eignast gegnum tíðina, bæði innan stjórnarinnar og meðal stjórnarandstæðinga. Þótt tilræðið hafi mistekist og Uday, sem margir telja að verði arftaki föður síns, hafi sloppið lífs, þykir hafa komið í ljós að öryggisgæsla helstu ráðamanna Íraks er ekki jafn traust og talið var. Um leið segja fréttaskýrendur að tilræðið sýni að skáka megi veldi Saddams.

Ástæðan persónuleg eða pólitísk

"Hvort sem ástæðan var persónuleg eða pólitísk, er árásin viðvörun til stjórnarinnar," sagði ónefndur íraskur stjórnarandstæðingur.

Aðrir leggja vara við því að gera of mikið úr tilræðinu.

"Sú staðreynd að þeir tilkynna þetta í sjónvarpi gefur til kynna að þeir hafi fulla stjórn á málinu," sagði stjórnarerindreki, sem fylgist með ástandinu í Írak. "Ef hann væri í hættu eða fleiri atvik hefðu gerst yrði ekki greint svona opinskátt frá þessu." Erindrekinn bætti þó við: "En þetta er andstæðingum Saddams hvatning, sem þeir fá ekki oft."

Íraskir fjölmiðlar sögðu að Uday hefði verið lagður inn á Ibn Sina-sjúkrahúsið í Bagdað eftir árásina. Engar myndir hafa verið birtar af honum og hefur það ýtt undir vangaveltur um að sár hans séu alvarlegri, en að væri látið liggja. Orðrómur hefur meira að segja komist á kreik um að hann hafi látið lífið.

Uday rekur sitt eigið dagblað og sjónvarpsstöð. Hann ber titlana formaður ólympíunefndar Íraks og formaður Íraska knattspyrnusambandsins, en völd hans eru meiri en embættin gefur til kynna. Hann er með gráðu í verkfræði og herfræðum. Hann var einnig formaður Íraska blaðamannafélagsins um skeið.

Skemmtanafíkinn spjátrungur

Uday er sagður hafa gaman af að stunda hið ljúfa líf, ganga um í klæðskerasaumuðum fötum með sólgleraugu á nefi og þriggja daga skegg á meðan almenningur lepur dauðann úr skel eftir sex ára refsiaðgerðir, sem gripið var til fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna eftir innrás Íraka í Kúveit árið 1990.

Qusay, yngri bróðir Udays, er yfirmaður hinna sérstöku öryggissveita Íraks. Þeir bræður hafa báðir brotist til valda og aflað sér óvina jafnt í stjórninni sem utan.

Að sögn stjórnarerindreka leiddi ágreiningur Udays við Saddam Hussein Kamel, sem var potturinn og pannan bak við leynilega vopnaáætlun Íraka, til þess að sá síðarnefndi gerðist landflótta í ágúst í fyrra. Segja þeir að það hafi skotið Kamel skelk í bringu þegar Uday skaut og særði hálfbróður Saddams, Watban Ibrahim al-Hassan. Uday tók á móti hinum iðrandi Kamel þegar hann sneri aftur til Íraks frá Jórdaníu eftir sjö mánaða útlegð. Þremur dögum síðar var Kamel skotinn til bana.

Það er mál stjórnarandstæðinga að Uday hafi stigið fram á sjónarsviðið sem næsti leiðtogi Íraks, hinn óformlegi krónprins, eftir flótta Kamels. Stjórnarerindrekar í Írak segja hins vegar að Saddam hafi notað uppnámið í stjórninni vegna flóttans til að treysta völd sín.

Í sumar fóru fram fjöldahandtökur í Bagdað og var þá haft á orði að gerð hefði verið tilraun til valdaráns. Ekkert benti hins vegar til að tök Saddams á valdataumunum hefðu linast.

Stjórnarerindrekar segja að sýnu auðveldara sé að koma höggi á Uday en Saddam. Sonurinn sé áberandi í Bagdað á fimmtudögum, en þá hefst helgin hjá múslimum. Hann sjáist oft einn í bifreið sinni eða á veitingastöðum. Saddam hefur ekki komið fram opinberlega nema örsjaldan á þessu ári.

Uday er óútreiknanlegur. Hann féll í ónáð um stund eftir að hann barði einn af uppáhaldsþjónum föður síns til ólífis í nóvember 1988. Síðar kvæntist hann barnungri dóttur Barzans Ibrahims al-Tikritis, eins af hálfbræðrum Saddams, en hafnaði henni og sendi hana aftur til föðurhúsanna. Tengdafaðir Udays fyrrverandi líkti honum á síðasta ári við Kamel og sagði hann "gráðugan og óhæfan til að fara með völd".

Reuter

UDAY Hussein (fyrir miðju), sem hér sést í faðmi fjölskyldunnar, var sýnt banatilræði á fimmtudagskvöld.

Uday Hussein.