21 handtekinn í einu stærsta fíkniefnamáli hérlendis Lagt hald á fíkniefni fyrir um 40 milljónir ÞRÍR hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um innflutning, sölu og dreifingu á miklu magni fíkniefna, auk þess sem fíkniefnadeild lögreglunnar í...

21 handtekinn í einu stærsta fíkniefnamáli hérlendis Lagt hald á fíkniefni fyrir um 40 milljónir

ÞRÍR hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um innflutning, sölu og dreifingu á miklu magni fíkniefna, auk þess sem fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hyggst gera kröfu um gæsluvarðhald yfir tveimur til þremur öðrum í tengslum við málið, að sögn Björn Halldórssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar.

Alls hefur tuttugu og einn maður verið handtekinn undanfarna tvo sólarhringa vegna málsins, sem hófst þegar hollenskur karlmaður og kona á fimmtugsaldri voru stöðvuð á Keflavíkurflugvelli á miðvikudag, með tæp 10 kíló af hassi í fórum sínum.

Yfir 20 kíló af fíkniefnum

Að sögn Björns uppgötvaðist smygl Hollendinganna í vanabundnu eftirliti tollgæslu. Þá kom fíkniefnadeildin til sögunnar og vaknaði fljótt grunur um að smyglið tengdist innlendum aðilum. Í framhaldi af því hófust víðtækar aðgerðir fíkniefnadeildarinnar, sem handtók 19 aðila í kjölfarið og framkvæmdi sjö húsleitir.

Lagt var hald á 10,5 kíló af hassi, um 500 e-pillur og 260 grömm af amfetamíni, auk um 250 þúsund króna í peningum og áhalda til neyslu fíkniefna. Samtals er verðmæti þessara fíkniefna talið nema liðlega 35 milljónum króna á markaði hérlendis.

Búið er að úrskurða Hollendingana í gæsluvarðhald til 9. janúar og einn Íslending.

Björn segir þetta mál eitt hið stærsta sinnar tegundar sem upp hefur komið hérlendis, ekki síst með tilliti til fjölda þeirra sem handteknir voru. Ekki hafi öllu verið tjaldað til við rannsóknina, en þó hafi um víðtækar aðgerðir verið að ræða.

Ekki öll kurl til grafar

"Enn sem komið er ríkir ánægja hjá lögreglu og tollgæslu með þá stefnu sem málin hafa tekið. Málið er hins vegar á frumstigi rannsóknar og lögreglan er meðal annars að kanna hvort þessir útlendingar hafi komið áður til landsins með fíkniefni, hvort þeir tengist fleiri einstaklingum hérlendis og hvort öll kurl séu komin til grafar varðandi þátt Íslendinganna.

Hollendingarnir virðast vera "útendinn" á þessu fíkniefnasmygli, og við erum meðal annars að kanna hvort þeir séu aðeins burðardýr eða sjálfir eigendur efnisins og selji það hér," segir Björn.

Hann segir að af þeim sem hafa verið handteknir hérlendis, séu nokkrir einstaklingar sem hafi hlotið dóma fyrir fíkniefnamisferli og aðrir hafi legið undir grun um nokkurra ára skeið að standa að innflutningi og dreifingu fíkniefna.