MARK Hughes leikmaður Chelsea leikur í dag með félögum sínum í landsliði Wales gegn Tyrklandi. Strax að leik loknum er reiknað með að hann fari í skyndi til Lundúna í þeim tilgangi að leika með Chelsea í viðureign við Sunderland sem verður á morgun.

MARK Hughes leikmaður Chelsea leikur í dag með félögum sínum í landsliði Wales gegn Tyrklandi. Strax að leik loknum er reiknað með að hann fari í skyndi til Lundúna í þeim tilgangi að leika með Chelsea í viðureign við Sunderland sem verður á morgun. Dan Perruscu leikur ekki með Chelsea vegna þess að hann er í HM kappleik með Rúmeníu gegn Makedóníu og Frank Leboeuf tekur út fyrsta leikinn í banni eftir að hafa verið dæmdur í 3 leikja bann.

VELGENGNI leikmanna Wimbledon hefur gert það að verkum að sjónvarpsstöðin Sky hefur kynnt þrjár beinar útsendingar frá leikjum liðsins, gegn Aston Villa 22. desember, á móti Arsenal 23. febrúar og loks viðureign við Coventry þann 3. mars.

Bryan Robsons hefur átt fund með Emerson til þess að fá botn í þau vandamál sem hann og eiginkonan eiga við að etja og gera að verkum að þau telja sig ekki geta búið í Englandi lengur. Robsons gerir sér vonir um að geta komið til móts við óskir þeirra og að þannig fari að þau haldi áfram að vera þar í landi og Middlesbrough njóti krafta Emersons á knattspyrnuvellinum.

MARK Bright sóknarmaður hefur verið lánaður í einn mánuð frá Sheffield Wednesday til Millwall. Bright fer beint í liðið og verður með nýju félögum sínum í dag er þeir mæta liðsmönnum Bournemouth.

JAMIE Redknapp og félagi hans Stan Collymore verða í liði Liverpool sem mætir Middlesboro í dag.

MICKEY Adams knattspyrnustjóri efsta liðs 3. deildar, Fulham, hefur verið boðinn langtímasamningur hjá félaginu. Honum er ætlað að byggja upp sterkt lið hjá félaginu sem gæti spjarað sig í 1. deild.

WINNIE Jones verður fjarri góðu gamni þegar Wimbledon mætir Blackburn í dag, en hann verður í eldlínunni með landsliði Wales gegn Tyrkjum. Líklegt er talið að Brian McAlister leysi Jones af hólmi á miðjunni og Robbie Earle verði fyrirliði.