Ávöxtun sparnaðar LÍFEYRISSJÓÐIR hafa undir höndum bróðurpartinn af sparnaði Íslendinga. Á miklu veltur hvern veg hann er ávaxtaður. Erlendis eru deildar meiningar um, hvernig lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta. Vísbending fjallaði um þetta efni á dögunum.

Ávöxtun sparnaðar

LÍFEYRISSJÓÐIR hafa undir höndum bróðurpartinn af sparnaði Íslendinga. Á miklu veltur hvern veg hann er ávaxtaður. Erlendis eru deildar meiningar um, hvernig lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta. Vísbending fjallaði um þetta efni á dögunum.

Dreifing og sveiflur

Í NÝLEGRI Vísbendingu segir m.a. um ávöxtun lífeyrissparnaðar:

"Lífeyrissjóðir hérlendis þurfa að dreifa eignum sínum betur. Þó að það sé klisja að ekki eigi að setja öll eggin í sömu körfuna, þá er samt um vísdóm að ræða sem ekki ætti að leiða hjá sér. Íslenzkt efnahagslíf er sveiflukennt. Þar valda mestu áhrif fiskveiða og vinnslu og það þarf ekki að eyða mörgum orðum í það, hversu mikil áhrifin eru af auknum afla ­ eða aflabresti. Lífeyrissjóðir hérlendis ættu því að minnka áhrifin af þessu með því að fjárfesta í auknum mæli erlendis. Það er meira að segja spurning, hvort ekki sé meiri þörf á erlendri fjárfestingu hér á landi en víðast hvar annars staðar vegna okkar alkunnu sérstöðu. En lífeyrissjóðir þurfa að gæta sín í fjárfestingum innanlands."

Margt að varast

VÍSBENDING segir áfram:

"Lífeyrissjóðirnir hafa í höndunum stóran hluta sparnaðar landsmanna og er treyst til að verja hann áföllum. Þeir þurfa sérstaklega að gæta þess að festa ekki of mikið fé í einstökum greinum atvinnulífsins, t.d. sjávarútvegi. Einnig þurfa þeir að gæta þess að fjárfesting í einstökum landshlutum sé hófleg. Þannig væri það afar slæmt ef lífeyrissjóður í byggðarlagi úti á landi fjárfesti mikið í því byggðarlagi. Ef eitthvert áfall riði yfir væri ekki nóg með að afkomu íbúanna væri ógnað heldur einnig lífeyrissparnaði þeirra."

Bandaríska dæmið

LOKS segir Vísbending:

"Verstu dæmin erlendis frá eru sennilega frá Bandaríkjunum en þar fjárfestu lífeyrissjóðir starfsmanna í ýmsum iðngreinum gjarnan í þeim fyrirtækjum sem lífeyrisþegarnir störfuðu hjá. Þessi fyrirtæki urðu unnvörpum gjaldþrota og hvarf sparnaður starfsmannanna ásamt vinnunni."