Guðrún Bjarnadóttir Elsku amma okkar er látin. Hún fæddist í jólamánuðinum og kveður einnig á þeim tíma. Það er einhvern veginn táknrænt fyrir ömmu sem hafði svo mikla gleði og ánægju af undirbúningi jólanna og jólahaldinu. Við systkinin munum ávallt minnast jólanna í Skipholti þar sem amma stjórnaði málum og af eðlislægri natni og gleði undirbjó hátíðina sem í vændum var. Þar nutum við hlýju og gestrisni ömmu og afa, en fátt gaf þeim sjálfum meiri ánægju en að veita vel. Amma fylltist einnig einlægri tilhlökkun í hvert skipti sem hún fékk jólapakka og átti það til að kíkja í þá áður en aðfangadagskvöld rann upp. Við krakkarnir vorum oft hissa á þessu, en skynjuðum síðar meir að þarna sagði til sín barnsleg gleði, sem fyllti svo oft hjarta ömmu.

Skipholt, litla húsið þeirra afa, bar vott um snyrtimennsku og hlýleika. Þar vorum við ekki einungis velkomnir gestir heldur var þar einnig athvarf okkar í margvíslegu sýsli barna­ og unglingsáranna.

Á löngum æviferli rifjaði amma oft upp þær miklu breytingar sem hún hafði upplifað, en samhliða gat hún auðveldlega sett sig inn í nýjar aðstæður á hverjum tíma og fylgdist vel með því sem var að gerast hverju sinni.

Amma okkar vann hörðum höndum allt sitt líf, lengst af við fiskvinnslu. Langri starfsævi hennar lauk ekki fyrr en hún var orðin 88 ára gömul og segir það sína sögu um þrautseigju þessarar harðgeru konu. Þrátt fyrir mikla og erfiða vinnu vannst henni þó tími til þess að prjóna og sauma. Af þeim hannyrðum höfum við systkinin, börn okkar og fjöldi ættmenna notið góðs.

Amma var mikill náttúruunnandi og hafði sérstaka ánægju af berjatínslu og spáði oft fyrir um berjasprettu sumarsins og væntanlega uppskeru. Hún sultaði og sendi ber á marga staði. Við minnumst ömmu okkar skýrt úr öllum ferðunum til berja þar sem hún nánast hljóp um fjöllin eins og þjálfaður íþróttamaður. Og ekki var skorið við nögl þegar nestispakkinn var opnaður við gleðihróp okkar krakkanna.

Amma hafði einstakt minni og höfum við í ríkum mæli notið frásagna hennar af atburðum fyrri ára. Í sumar fórum við systkinin í Fjörður þar sem amma er fædd og uppalin. Ömmu var tíðrætt um "blessaðar Fjörðurnar" eins og hún sagði og fræddi okkur um leið um staðhætti og lífið þar í eina tíð. Þessi ferð var fyrir okkur alveg einstök og okkur fannst við þekkja hverja þúfu vegna þess fróðleiks sem við höfðum numið hjá ömmu.

Þrátt fyrir háan aldur fór amma með okkur síðastliðið haust á æskustöðvar sínar á Látraströnd. Minningar liðins tíma streymdu fram og minntist hún atburða eins og þeir hefðu gerst í gær.

Amma okkar var heilsuhraust alla sína tíð. Það voru víst ekki margir dagar um ævina sem hún var frá vinnu vegna veikinda. Þó eru nokkur áföll sem hún hefur mátt þola um dagana eins og þegar hún handleggs- og lærbrotnaði á efri árum. Það má reyndar kalla það kraftaverk að hún skyldi sleppa lifandi frá slysi fyrir nokkrum árum. Hönd Drottins hefur vafalítið haldið yfir henni verndarhendi, ekki síst þegar hún lá úti bjargarlaus næturlangt í fimbulkulda. Eftir þetta áfall breyttist líf ömmu. Hún gat ekki lengur farið um húsið sitt og ekki hreyft sig eins og áður. Hún gat því ekki búið ein og flutti því á dvalarheimilið Hornbrekku þar sem hún dvaldist í góðu yfirlæti síðustu æviárin.

Líf okkar ástkæru ömmu Guðrúnar var ekki alltaf dans á rósum. Dóttur sína, Margréti, missti hún aðeins 17 ára gamla. Einnig hefur hún þurft að horfa á eftir tengdadætrum sínum þremur hverfa úr þessum heimi eftir baráttu við erfiða sjúkdóma. Þegar móðir okkar dó reyndi hún af öllum mætti að bæta okkur systkinum missinn. Við fundum svo vel fyrir slætti hennar stóra móðurhjarta.

Í þessum fátæklegu orðum um netta og kvika konu með óvenjumikinn viljastyrk og hlýju viljum við þakka fyrir að hafa fengið að njóta hennar. Hún gaf okkur eitthvað stórfenglegt, sem okkur finnst fátæklegt að lýsa með orðum. Guðrún amma var einstök kona, sem með manngæsku og göfuglyndi lýsir upp vegferð okkar systkinanna um ókomna tíð.

Ásgeir, Guðrún, Margrét, Sigurbjörg og Sigurður.