Jón Gunnar Ófeigsson Fregnin um andlát Jenna í Hafnarnesi, eins og flestir kölluðu Jón Gunnar Ófeigsson, kom ekki á óvart því heilsu hans hrakaði jafnt og þétt síðustu ár. Um áratuga skeið átti hann við sykursýki að stríða og þegar aldurinn færðist yfir komu fylgikvillar þessa sjúkdóms smám saman í ljós. Sjóninni tók að hraka og á endanum hætti hann að geta lesið. Það voru heldur dapurleg örlög fyrir mann sem ávallt hafði fylgst grannt með þjóðmálunum í dagblöðum og hafði haft mikla ánægju af því að taka sér góða bók í hönd. Lengst af lét Jenni þó sykursýkina lítt á sig fá og sinnti hugðarefnum sínum ótrauður.

Væri hægt að koma því við með góðu móti skrapp ég í heimsókn að Hafnarnesi þegar ég átti leið á heimaslóðirnar. Síðast þegar ég hitti Jenna heima í Hafnarnesi að haustlagi fyrir nokkrum árum lék hann á als oddi og rifjaði upp ýmsa löngu liðna atburði sem greinilega stóðu honum jafnskýrt fyrir hugskotssjónum og þeir hefðu gerst daginn áður. Minnið var óbrigðult og frásögnin einkar skýr. Áður en ég kvaddi Jenna þarna síðla kvölds gaf hann mér bókina "Lífsmörk í spori" eftir nágranna okkar Torfa bónda Þorsteinsson í Haga. Bókin lá á eldhúsborðinu og bar þess merki að hafa verið lesin spjaldanna á milli og höfðum við eitthvað verið að ræða innihald hennar. Áður en hann afhenti mér bókina tók hann sér penna í hönd, ritaði nafn mitt í bókina og bætti við að bókin væri gjöf frá Hafnarneshjónunum. Þótt sjónin væri farin að daprast verulega var rithöndin samt ennþá styrk og fögur. Bókin skipar nú verðugan sess innan um nokkrar aðrar bækur sem ég hef safnað og fjalla um fjölbreytt mannlíf á Hornafirði.

Mikill vinskapur var milli heimilisfólksins í Borgum og hjónanna í Hafnarnesi. Var sú vinátta alla tíð ræktuð af einlægni og bar þar aldrei skugga á. Faðir minn, Skírnir Hákonarson í Borgum, og Jenni voru miklir mátar. Áhugamál þeirra voru á margan hátt svipuð. Starfsvettvangurinn var sá sami þar sem báðir voru bændur og bústörfin báðum hugleikin. Eitt af því marga sem tengdi þá saman var söngur og starf í kórum. Áratugum saman, svo lengi sem heilsa leyfði, sungu þeir í kirkjukór Bjarnaneskirkju. Um árabil stóðu þeir líka hlið við hlið og sungu annan bassa í ágætum karlakórunum sem störfuðu á Hornafirði, fyrst undir stjórn Bjarna Bjarnasonar á Brekkubæ og síðar í Karlakórnum Jökli undir stjórn Sigjóns Bjarnasonar á Brekkubæ. Kórstarfið var báðum kærkomin tilbreyting frá daglegu striti og kjörinn vettvangur til samfunda við menn með svipuð áhugamál. Iðulega var glatt á hjalla og átti Jenni ekki síst þátt í því þar sem hann var að eðlisfari einstaklega glettinn og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann fór.

Frásagnargáfa Jenna var einstök. Fáa hef ég hitt sem voru naskari að glæða sögur úr daglega lífinu því lífi sem með þurfti til að gera þær skemmtilegar og eftirtektarverðar. Fyrir nokkrum árum orðaði ég það við hann hvort enginn hefði sýnt því áhuga að skrifa niður eftir honum eitthvað af þeim mikla fróðleik sem hann bjó yfir um menn og málefni í Hornafirði, fróðleik sem hann átti svo auðvelt með að miðla öðrum og líklega enginn kunni betur en hann. Jenni tók þessu heldur fálega enda hógvær að eðlisfari og lítt fyrir að trana sér fram. Því miður varð ekkert úr því að þetta yrði framkvæmt. Vísast munu eftirlifandi vinir Jenna þó rifja upp á góðri stund ýmsar glettnar og græskulausar sagnir af látnum hornfirskum sómamönnum eins og til dæmis Eyjólfi á Horni, Kela á Dýhól, Árnanesmönnum og Einari kaupmanni.

Auk kúa- og sauðfjárbúskaps voru Hafnarnesmenn með hesta og náðu ágætum árangri í hrossarækt eins og þeir vita sem kunna skil á ættartölum hrossa og kannast við Blakk númer 999. Aðstæður í Hafnarnesi voru þó að sumu leyti ólíkar því sem gerðist annars staðar í sveitinni. Var það einkum vegna þeirra hlunninda sem fylgdu jörðinni en auk silungsveiði hlúðu Hafnarnesbændur að æðarvarpi sem nytjað var í hólmum sem tilheyra jörðinni. Mest urðu þó sveitungarnir varir við þau hlunnindi sem fólust í lúruveiðum Hafnarnesmanna en lúru nefna Hornfirðingar skarkola sem lifir fyrstu ár ævinnar á leirbotni Skarðsfjarðar og Hornafjarðar. Á sumrin drógu ábúendur í Hafnarnesi reglulega fyrir lúru í álum vestan bæjarins. Oft veiddist vel og var báturinn sem notaður var við veiðarnar stundum fylltur af lúru áður en menn unnu sér hvíldar. Sveitungarnir nutu góðs af þessum veiðum og var lúran kærkomin tilbreyting á matseðli nágranna og vina Hafnarnesbænda, meðal annars heima í Borgum.

Frá uppvaxtarárunum minnist ég tíðra og einkar skemmtilegra heimsókna Jenna og Möggu inn í Borgir. Þá var gjarnan sest niður og málefni dagsins brotin til mergjar yfir bakkelsi og bolla af kaffi. Farið var með vísur, sagðar voru sögur og stundum sungið.

Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd Borgafólksins þakka Jenna einstaka tryggð og vinsemd við fjölskylduna, ekki hvað síst tíðar heimsóknir hans á sjúkrabeð til föður míns sem lést árið 1979 úr einum þeim erfiðasta sjúkdómi sem hægt er að fá. Þá kom berlega í ljós hvers konar gull af manni hann Jón Ófeigsson í Hafnarnesi var.

Á skilnaðarstund votta ég eftirlifandi eiginkonu, dóttur, barnabörnum og barnabarnabörnum innilega samúð.

Karl Skírnisson.