Jón Ófeigsson Hann Jenni í Hafnarnesi er dáinn, og við sem eftir lifum og þekktum hann og heimili hans í Hafnarnesi í Hornafirði á árunum upp úr 1960, viljum gjarnan þakka fyrir samfylgdina og minnast hans með nokkrum orðum. Hann hét Jón Ófeigsson fullu nafni og var sonur hjónanna Ófeigs Jónssonar og Steinunnar Sigurðardóttur, sem bjuggu allan sinn búskap í Hafnarnesi. Þau hjón, Ófeigur og Steinunn, voru bæði innfæddir Hornfirðingar. Ófeigur Jónsson í Hafnarnesi var einn sjö samhentra og samrýndra systkina, sem þar ólust upp en Steinunn var frá Stapa í Innsveitinni, ein af mörgum systkinum þaðan.

Það var í landi Hafnarness, að verslunarstaðurinn Höfn reis um aldamótin og varð með tímanum að kauptúni og er nú orðinn að kaupstað, einum þeim stærsta og lífvænlegasta á Austurlandi. Þess vegna hlaut að koma að því að búskapur legðist af í Hafnarnesi, þessu gamla góðbýli. Þetta vissi Jenni vel á sínum búskaparárum og tók því eins og sjálfsögðum hlut, en lét það þó engan veginn aftra sér frá því að reka í Hafnarnesi myndarlegt bú með kindum, kúm og kartöflum.

Þegar séra Skarphéðinn Pétursson faðir okkar gerðist prestur austur í Bjarnanesi í Hornafirði haustið 1959 og flutti þangað með stóra fjölskyldu, reyndi oft á hjálpsemi Nesjamanna. Að öllum öðrum heimilum ólöstuðum, voru þau Jenni og Magga alltaf boðin og búin til þess að rétta hjálparhönd og bjóða fram aðstoð sína ef eitthvað væri sem þau gætu gert. Stundum voru þau fram á nætur í Bjarnanesi að hjálpa til með þá miklu vinnu, sem var við að flokka kartöflur og koma þeim í verð.

Jenni var maður meðalhár vexti, grannur og hvatlegur í hreyfingum, ræðinn og ávarpsgóður og kunni ógrynni af skondnum sögum af fyrri tíðar mönnum og ekki síður samtíðarmönnum. Hann var fróðleiksfús og bókhneigður og kunni góð skil á sögu héraðsins og atvinnuháttum eins og þeir gerðust á árum áður. Í landi Hafnarness er mikill fjöldi eyja og smáhólma og bera öll sérstök nöfn. Þetta land þekkti Jenni flestum betur og var gaman að ræða við hann um örnefnin og mannlíf á liðinni tíð. Var auðfundið að þar fór saman áhugi á máli, sögu og tungu.

Jenni fékk snemma sykursýki en hlífði sér þó lítt til erfiðisverka. Hann var kannski aldrei þrekmikill en hann var svo heppinn að konan hans, hún Margrét Aðalsteinsdóttir frá Djúpavogi, var margra manna maki til allra hluta. Þau skruppu til Reykjavíkur 1947 og létu séra Jakob gefa sig saman í hjónaband. Hann var líka frá Djúpavogi.

Þau hjónin eignuðust eina dóttur, Eddu, en það var alltaf fjöldi af börnum hjá þeim í Hafnarnesi og þannig hafði það alltaf verið þar á bæ.

Það má mikið vera ef þessi börn muna ekki alla tíð útsýnið af bæjarhólnum í Hafnarnesi á kyrru vorkvöldi, þegar háflóðið umlykur hólma og nes. En nú hefur hann Jenni fengið hvíldina og það væri gaman að vita hvernig hann kemur Sankti-Pétri til að hlæja.

Systkinin frá Bjarnanesi.