KRISTINN BECK Kristinn Beck eða Eyjólfur Kristinn, eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Kollaleiru í Reyðarfirði 16. maí 1903. Hann lést á Landspítalanum 3. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Kristinn Beck, bóndi á Kollaleiru, f. 1866, d. 1945, og Þuríður Eyjólfsdóttir, f. 1868, d. 1962. Hann var 4. í röð tíu systkina, sem öll eru nú látin nema Steinunn, sem er elst, f. 1.1. 1899 og Sæbjörg, f. 13.2. 1902.

Hinn 26.9. 1931 kvæntist Kristinn Ingu Nilsen, f. 31.1. 1898, dóttur hjónanna Nils Nilsen frá Noregi og Kristínar Ísleifsdóttur. Inga lést 22.6. 1987. Þau eignuðust eina dóttur, Kristínu, f. 10.6. 1933. Hún býr í Reykjavík, gift Sigurði Jónssyni tannlækni þar, f. 16.5. 1932. Börn þeirra eru: 1) Inga, kennari í Reykjavík f. 25.5. 1956, gift Þórði Þórðarsyni, f. 26.6. 1955. Þau eiga þrjú börn: Kristínu, f. 1980, Helgu, f. 1983 og Magnús Örn, f. 1988. 2) Jón Örn, símsmiður í Reykjavík f. 31.12. 1964 kvæntur Ragnheiði Gunnarsdóttur f. 26.4. 1966. Þau eiga dótturina Berglind, f. 1995.

Kristinn stundaði lengst af akstur leigubifreiða, en jafnframt akstrinum vann hann ýmis störf að viðhaldi húsa í sinni heimabyggð, enda handlaginn með afbrigðum og eftirsóttur til alls kyns handverks. Hann hlaut iðnbréf í járnsmíði 1938.

Eftir lát Ingu 1987 bjó Kristinn einn í íbúð þeirra í Valhöll á Reyðarfirði, uns hann varð fyrir óhappi síðsumars 1995. Fór hann þá á sjúkrahúsið í Neskaupstað og dvaldist þar fram í mars á þessu ári. Þá fluttist hann á Hrafnistu í Reykjavík, en dvöl hans þar varð aldrei nema rúmlega hálft ár.

Útför Kristins verður gerð frá Reyðarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.