KYNNING Á NOKKRUM DAGSKRÁRLIÐUM SJÓNVARPSINS DAGANA 20. TIL 26. JANÚAR 1997 Mánudagur 20. janúar 1997 Þriðjudagur 21. janúar 1997 Kl. 19.20 Smyglarar í Íran Myndin sem sýnd verður í Ferðaleiðum í dag er fyrsta tilraun erlendra sjónvarpsmanna til að varpa...

KYNNING Á NOKKRUM DAGSKRÁRLIÐUM SJÓNVARPSINS DAGANA

20. TIL 26. JANÚAR 1997 Mánudagur 20. janúar 1997 Þriðjudagur 21. janúar 1997 Kl. 19.20 Smyglarar í Íran Myndin sem sýnd verður í Ferðaleiðum í dag er fyrsta tilraun erlendra sjónvarpsmanna til að varpa ljósi á starfsemi smyglara í hafnarborginni Bandar Abbas í Suður-Íran eftir að ajatollarnir hrifsuðu völdin í landinu árið 1979. Bandar Abbas er ein stærsta hafnarbor Írans. Íbúar borgarinnar eru um 200 þúsund og þeir þurfa eins og aðrir þegnar landsins að beygja sig undir ógnarstjórn klerkanna og hlíta fyrirskipunum um bænasöng og annað. Takmark klerkaveldisins er að Íran verði algerlega sjálfstætt efnahagslega og öðrum ríkjum óháð. Þess vegna hefur verið sett innflutningsbann á ýmsar erlendar vörur sem margar hverjar eru taldar brjóta í bága við hina heilögu trú. En fólk er samt við sig og verður sér úti um það sem það langar í ef þess er nokkur kostur. Þá kemur til kasta smyglaranna en í þeirri stétt fjölgar stöðugt og starfsemin er í miklum blóma. Miðvikudagur 22. janúar 1997 Kl. 18.25 Algjört undrabarn! Er það eðlilegt að 13 ára stúlka geti ummyndast í vökvaform, gefið frá sér rafstraum og varpað segulsviði í kringum fólk og hluti? Hún Alex Mack var ósköp venjuleg stelpa þangað til einn daginn að ólöglegt genabreytingarefni sprautaðist yfir hana. Eftir það er hún langt frá því að vera venjuleg. Hún notar hæfileika sína til að auðvelda sér lífið á hinum erfiðu unglingsárum og það er vissara fyrir fólk að fá hana ekki upp á móti sér. Þetta eru hressilegir þættir fyrir unglinga á öllum aldri þar sem saman fara húmor, vísindaskáldskapur og fjörug ævintýri. Aðalhlutverk leika Larisa Oleynik, Meredith Bishop, Darris Lowe og Dorian Lopinto. Fimmtudagur 23. janúar 1997 Kl. 21.35 Frasier Bandaríski gamanmyndaflokkurinn um Frasier útvarpsgeðlækni í Seattle er á sínum stað í Sjónvarpi allra landsmanna á fimmtudagskvöldum og nýtur mikilla vinsælda ena eru þættirnir yfirleitt sprengfyndnir. Frasier reynir eftir megni að leysa úr sálarflækjum hlustenda sem hringja í hann í útvarpinu en stundum er ástandið þannig heima hjá honum að honum veitti ekki af ráðgjöf sjálfum. Pabbi gamli og hundurinn hans, enska ráðskonan og hinn kveifarlegi Niles, bróðir hans, sem er alltaf í mínus út af einhverjum smávægilegum erfiðleikum í einkalífinu, setja sterkan svip á þættina og kitla hláturtaugar áhorfenda ásamt Kelsey Grammer sem leikur aðalhlutverkið. Föstudagur 24. janúar 1997 Kl. 23.35 Á morgun tökum við út... Í þýsku sakamálamyndinni Á morgun tökum við út..., sem er frá 1994, segir frá tveimur konum sem hittast fyrir tilviljun þegar þær ræna sama bankann. Þær taka saman höndum, halda iðju sinni áfram víðs vegar um landið og deila feng sínum jafnan út til þurfandi fólks eins og Hrói höttur forðum. Lögreglan reynir hvað hún getur að hafa hendur í hári þeirra en á hælum þeirra er líka dularfullur maður sem þær eiga í mestu vandræðum með að hrista af sér. Leikstjóri er Peter Welz og aðalhlutverk leika Anna Thalback, Maria Schrader og Max Tidof. Laugardagur 25. janúar 1997 Kl. 22.45 Leiftursýn Tónlistarkonan Emma er nýkomin heim eftir augnaðgerð á sjúkrahúsi og á nú loks tækifæri á því að fá sjón eftir að hafa verið blind frá barnæsku. Þá er framið morð í húsinu þar sem hún býr og hún ein verður morðingjans vör. Lögreglan telur Emmu ekki geta vitnað vegna sjóndeprunnar en morðunum fjölgar og ekki er við annað að styðjast en framburð hennar. Morðinginn lúrir einhvers staðar í leyni og Emma er í mikilli hættu. Þessi bandaríska spennumynd er frá 1994. Leikstjóri er Michael Apted og í aðalhlutverkum eru Madeleine Stowe, Aidan Quinn, James Remar og Laurie Metcalf. Kvikmyndaeftirlit ríkisins telur myndina ekki hæfa áhorfendum yngri en 16 ára. Sunnudagur 26. janúar 1997 Kl. 20.35 Leitar- og björgunarhundar Einar Þór Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður er höfundur þessarar nýju fræðslu- og heimildarmyndar um þjálfun hunda til björgunarstarfa á Íslandi. Í myndinni er fjallað um ýmsar tegundir leitar, svo sem snjóflóðaleit og víðavangsleit, hvernig eðlishvatir hundanna er notað við þjálfun, hvernig lyktarskynið er notað og sýnt hvernig staðið er að þjálfun og námskeiðum. Við sögu koma björgunarsveitir, fjölmargir hundar og þjálfarar sem búa yfir þekkingu og reynslu af þj´lafun og raunverulegri leit eftir náttúruhamfarir eða slys, þ.á.m. skoski þjálfarinn Tom Middlemas. Myndin var tekin seinni part veturs og um vorið 1996 á Vestfjörðum og í Skagafirði.