Í leit að fornmunum og skrýtnum hlutum Danir hafa áhuga á gömlum hlutum, bæði þeim verðmætu og eins bara því sem er skrýtið og skemmtilegt. Það er því víða að leita fyrir áhugamenn um slíkt.

Í leit að fornmunum og skrýtnum hlutum Danir hafa áhuga á gömlum hlutum, bæði þeim verðmætu og eins bara því sem er skrýtið og skemmtilegt. Það er því víða að leita fyrir áhugamenn um slíkt. Sigrún Davíðsdóttir bendir hér á hvar hægt sé að bera niður í Kaupmannahöfn í leit að alvöru antík eða bara skrýtnu dóti.

KAUPMANNAHÖFN er um auðugan garð að gresja hvað markaði og fornmunabúðir varðar. Með vaxandi áhuga undanfarin ár á notuðu og nýtilegu hefur verðið líka hækkað. Alvöru fornmunir er í háu verði hér eins og annars staðar. Fyrir áratug eða svo leit enginn við munum í "art deco"-stíl frá því um aldamót og fram á þriðja áratuginn, en nú er það tímabil í tísku. Síðast er það svo sjötti og sjöundi áratugurinn sem hefur verið litinn náðaraugum af söfnurum og um leið hefur verðið hækkað. Í búðum sem sérhæfa sig í tímabilum og stílum er verðið eðlilega hátt, því þar kunna menn að skilja hismið frá kjarnanum og verðleggja eftir því. Á mörkuðum og í svokölluðum "marskandiserforretninger" ægir öllu saman og glöggir kaupendur geta með heppni dottið niður á merka hluti. Úti á Sjálandi og reyndar víða um landið eru svokallaðar antíkbúðir. Oftast eru þetta hálfgerðir ruslamarkaðir, bæði gömlu og nýlegu ægir saman og þarna er enn hægt að gera góð kaup og detta niður á merka hluti ef lánið leikur við mann eða ef maður hefur úthald til að heimsækja búðirnar reglulega.

Danskt postulín í antíkbúðum: betri kaup en nýtt

Margar hinna fínni antíkbúða eru í Kompanistræde, göngugötu sem liggur samhliða Strikinu milli þess og Kanalsins. Bæði í þessari götu og nærliggjandi götum eru margar búðir, sem selja silfur- og postulín, málverk og koparstungur, auk húsgagna af ýmsu tagi. Þarna er varla nokkur jarðlegur möguleiki að gera góð kaup, því kaupmennirnir eru vel að sér um vöru sína. Í Silfurkjallaranum þarna er silfurdót í haugum og hægt að finna allt sem hugurinn girnist af þeirri vöru og verðið er oft þokkalegt.

Þeir sem hafa áhuga á dönsku postulíni ættu að huga að því að kaupa það fremur notað en nýtt, til dæmis ef ykkur vantar inn í sett. Úrvalið er mikið og það sér iðulega ekki á því. Eitt sinn leitaði ég að mokkabollum úr danskri seríu, sem lengi hefur verið framleidd. Bollana mátti fá nýja í postulínsbúð, en ég rakst einnig á þá í fornmunabúð í Kompagnistræde. Þeir gömlu voru mun fallegri, því postulínið var þynnra, þeir voru stráheilir og auk þess ódýrari. Jólaplattarnir gamalgóðu fást alls staðar fyrir þá sem vantar inn í safnið eða vilja ná í ákveðin ár.

Af svipuðu tagi eru búðirnar við sem liggja upp frá Kóngsins nýja torgi. Þarna eru nokkrar búðir, sem sérhæfa sig í gömlu málverkum og koparstungum, auk listmuna.

Ófínni búðir og ný klassík

Frá fínu búðunum er hægt að feta sig að hinum ófínni. Undanfarin ár hefur hver búðin eftir aðra skotið upp kollinum í Ravnsborggade, sem er hliðargata frá Nørrebrogade. Þarna ægir öllu saman, en verðið er samt sem áður ekki endilega lágt. Búðirnar halda áfram í Ryesgade, sem er nálæg gata og eins uppi á Nørrebrogade á móts við Assistens-kirkjugarðinn, þar sem Jónas Hallgrímsson lá forðum (og liggur kannski enn, ef það voru ekki hans bein sem flutt voru til Ísland) ásamt heimspekingnum Søren Kirkegaard, skáldinu Dan Turell sem lést fyrir nokkrum árum og öðrum dönskum andans mönnum. Þarna fást víða skemmtilegir lampar, en lampar eru í miklu uppáhaldi þeirra sem leita skrýtinna og skemmtilegra hluta og því ekki ódýrir.

Undanfarin ár hafa búðir, sem sérhæfa sig í nútíma hönnun undanfarinna áratuga verið opnaðar. Mest er þetta dönsk hönnun, sem hefur fengið á sig klassískt orð og er heitt elskuð af innfæddum á öllum aldri. Ein slík búð er Klassik á Christian IX's gade nr. 5, skammt frá Kóngsins nýja torgi og úrvalið þar er mjög gott.

Á Austurbrú er einnig orðið töluvert af áhugaverðum búðum. Nordre Frihavnsgade er verslunargata, sem liggur milli Østerbrogade og Strandboulevarden. Í endanum á næst síðastnefndu götunni eru nokkrar búðir með fjölbreyttu úrvali, meðal annars ein sem sérhæfir sig í hlutum frá 6. og 7. áratugnum. Niðri á Classensgade, skammt frá horninu við Austurbrúgötu eru nokkrar ágætar búðir, meðal annars Nostalgoteket á Classensgade 14. Þar er ótrúlegt úrval af alls kyns furðuhlutum eins og gínum, skiltum og öðru frá undanförnum áratugum. Þetta er engin antík, heldur heill heimur af skrýtnum hlutum.

Markaðir af ýmsu tagi

Flóamarkaðir af ýmsum gerðum eru hér og þar um borgina, en síst að vetri til. Á sumrin og fram á haust er Israels Plads markaður á laugardögum, þar sem ýmsir eigendur antíkbúða koma og selja vörur sínar. Verðið er ekki lengur lágt, því þetta eru sumsé búðarhlutir og seljendurnir vita oftast hvað þeir hafa í höndunum. Á torginu bak við ráðhúsið á Friðriksbergi er líka markaður á laugardögum. Þar er meira af drasli, en líka tækifæri til að ná í sniðuga hluti á lágu verði. Undir vegg Assistens-kirkjugarðsins við Nørrebrogade er líka útimarkaður og enn óskipulegri og draslaralegri en þeir fyrri, en um leið eru líka góðar líkur á því að glöggur kaupandi geti verið heppinn.

Úti á Amager er risstórt markaðshús, Det Blå Pakhus á Holmbladsgade 113, þar sem fólk getur leigt pláss og selt það sem því dettur í hug. Þarna ægir öllu saman, notuðu af öllu tagi, hvort sem er teppi eða sjónvörp, en líka alls kyns smáhlutum. Strætisvagnar nr. 5 og 37 stoppa alveg við húsið. Það kostar fimmkall danskar að berja dýrðina augum, en það er vel þess virði fyrir þá sem hafa gaman af upplifun af þessu tagi.

Einstaka sinnum má finna íslenskt dót á flóamörkuðum. Einu sinni rakst ég á leirdúfu eftir Guðmund frá Miðdal. Það var ungur strákur að selja hana og þegar hann sá að ég þekkti gripinn fór hann að spyrja um hana. Í einfeldni minni sagði ég að listamaðurinn hefði verið einn sá fyrsti, sem tók að stunda leirmunagerð á Íslandi og þá ályktaði strákkjáninn sem svo að dúfan væri óskaplega mikils virði og vildi alls ekki selja hana, svo einhver staðar stendur hún nú og safnar ryki meðan eigandinn bíður rétta kaupandans. Kjarvalsmálverk eða önnur málverk þekktra málara hef ég aldrei rekist á á flóamarkaði fyrir gjafverð, en hins vegar fann ég einu sinni gullfallegt málverk af Esjunni eftir Arreboe Clausen í fornmunabúð nokkurri og risastóra gamla ljósmynd frá Siglufirði hef ég einnig séð, svo það leynast líka íslenskir munir hér, ef vel er að gáð.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson

UNDANFARIN ár hefur hver búðin á fætur annarri skotið upp kollinum á Ravnsborggade, hliðargötu frá Norrebrogade.

FLÓAMARKAÐIR af ýmsum stærðum og gerðum eru hér og þar um Kaupmannahöfn.