Davíð Oddsson forsætisráðherra segir möguleika á mikilli kaupmáttaraukningu launafólks ef samið verður af skynsemi á vinnumarkaði ÓTTAST AÐ MENN SÉU AÐ TALA SIG Í VERKFÖLL Davíð Oddsson forsætisráðherra segir möguleika á að auka kaupmátt verulega hér á...

Davíð Oddsson forsætisráðherra segir möguleika á mikilli kaupmáttaraukningu launafólks ef samið verður af skynsemi á vinnumarkaði ÓTTAST AÐ MENN SÉU AÐ TALA SIG Í VERKFÖLL Davíð Oddsson forsætisráðherra segir möguleika á að auka kaupmátt verulega hér á landi á næstu árum, ef vel er haldið á spilunum. Skynsamlegir kjarasamningar geti leitt til 8-10% kaupmáttaraukningar á næstu þremur árum og lækkunar á vöxtum og sköttum. Davíð segist í viðtali við Ómar Friðriksson hins vegar óttast að aðilar á vinnumarkaði ætli að skemma þennan feril af einhverri skammsýni og tala sig út í verkföll.

ÆR allir kjarasamningar í landinu losnuðu um seinustu áramót, blikur eru á lofti og margir spá verkfallsátökum á næstu mánuðum. Davíð Oddsson forsætisráðherra segir gríðarlega mikið í húfi að skynsamlegir kjarasamningar verði gerðir á vinnumarkaði. Hann segir að ef verkföll skelli á séu þau svik við fólkið í landinu, sem hafi að undanförnu búið við betri tíð í efnahagsmálum en í mörg ár þar á undan. "Forystumenn launþega áttu drjúgan þátt í því að auðvelda mönnum að komast upp úr kreppunni. Ef aðilar á vinnumarkaði ætla með einhverri skammsýni að skemma þennan feril, lít ég á það sem svik við fólkið í landinu. Ég er ekki að skella skuldinni á annan hvorn aðilann en tel að báðir verði að sýna hvað í þeim býr og hafa vitsmuni til að hafa raunverulega velferð fólksins og fyrirtækjanna fyrir augum í þessum samningum. Ég held að það sé ekki raunverulegur vilji til verkfalla meðal fólksins í landinu," segir Davíð Oddsson.

Getur orðið fengsælt og happadrjúgt ár

"Ef skoðaðar eru allar spár eru flestir, sem líta á staðreyndir mála, þeirrar skoðunar að þetta nýbyrjaða ár geti verið okkur fengsælt og happadrjúgt, fjórða árið í röð. Ef þú spyrð síðan þessa sömu aðila hversu öruggir þeir séu í sínum spám, eru svörin þau, að hafa verði alla fyrirvara á vegna kjarasamninga. Við þessar aðstæður ætti í rauninni að vera fagnaðarefni að kjarasamningar eru lausir, vegna þess að þá sé tækifæri til að ákvarða kaupmáttaraukningu fyrir fólkið í landinu til tveggja eða þriggja ára og halda áfram þessari fjögurra ára þróun í sömu átt. En nú er óttast að kjarasamningarnir geti leitt til þess, að kaupmáttaraukning verði engin og menn lendi á sömu villigötunum og þeir voru á í mörg ár. Þetta er mjög sérstök staða sem menn þurfa að koma sér út úr," segir Davíð.

1,5% meiri hagvöxtur en í öllum viðmiðunarríkjum

Forsætisráðherra bendir á að samfelldur hagvöxtur hafi verið hér á landi undanfarin þrjú ár og ef spár fyrir þetta ár gangi eftir sé meðaltal hagvaxtar á Íslandi á tímabilinu 1994 til ársloka 1997 3,9%. "Á þessu fjögurra ára tímabili er meðalhagvöxtur í Evrópusambandinu 2,4%, í Bandaríkjunum 2,5% og í OECD-ríkjunum samtals 2,4%. Á hverju ári yfir þetta fjögurra ára tímabil höfum við búið við hagvöxt sem er 1,5% hærri en í öllum þessum viðmiðunarríkjum. Þetta er því afar merkilegt tímabil," segir Davíð.

Hann segir einnig að á sama tímabili sé verðbólga á Íslandi 2,0% að meðaltali en 2,5% í ESB-löndum, 2,2% í Bandaríkjunum og 1,9% að meðaltali í OECD-löndunum samanlagt. "Þarna erum við að tala um samfellt fjögurra ára skeið. Meðaltal kaupmáttaraukningar er 3,1% á Íslandi frá 1994 og út þetta ár ef spár ganga eftir. Kaupmáttur mun því aukast á fjórum árum um 12,4%. Meðaltalskaupmáttaraukning í Evrópusambandinu er 2,6% á sama tímabili og í Bandaríkjunum 0,7%. Það væri hrikalegt ef við misstum þennan árangur niður.

Meðalatvinnuleysi á tímabilinu 1994 og til loka yfirstandandi árs er 4,5% hjá okkur, en 11,4% í ESB-löndunum, 5,6% í Bandaríkjunum og 7,9% í OECD-ríkjunum að meðaltali. Á árinu 1997 eru tölurnar allar hagstæðari hjá okkur en í viðmiðunarlöndunum. Ef við höldum rétt á spilunum í kjarasamningum verður atvinnuleysi 3,7% á Íslandi á þessu ári en því er spáð að það verði 11,3% í ESB-löndunum, 5,4% í Bandaríkjunum og 7,7% að meðaltali í OECD-ríkjunum. Við höfum óskaplega mikla möguleika og það er mikið sem kann að tapast ef við höldum ekki rétt á málum," segir Davíð.

Í máli hans kemur einnig fram að afkoma hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) getur orðið betri á Íslandi á þessu ári en spáð er að meðaltali í viðmiðunarlöndunum. Gert sé ráð fyrir að halli hins opinbera verði neikvæður um 0,6% á árinu 1997 hér á landi, en neikvæður um 3,3% meðal ESB-ríkja, 1,8% í Bandaríkjunum og 2,5% í OECD-löndum að meðaltali. "Ef við tökum heildarskuldir hins opinbera á þessu ári verða þær 53,7% af landsframleiðslu á Íslandi, 78,2% í Evrópusambandinu, 64% í Bandaríkjunum og 74,8% að samanlögðu í OECD-ríkjunum. Það er því sama á hvaða mælikvarða er litið, möguleikarnir á þessu ári og hinu næsta eru gífurlegir. Ef við höldum sæmilega á spilunum gætum við séð fyrir okkur átta til tíu prósenta kaupmáttaraukningu á næstu þremur árum og jafnvel meiri, ef skynsamlega er haldið á málum. Það myndi þýða að við værum að auka kaupmáttinn á árabilinu frá 1994 til aldamóta um 20%. Ég hygg að það sé ekkert skeið í Íslandssögunni sem sýni aðra eins kaupmáttaraukningu.

Nú óttast margir að við munum eyðileggja þennan árangur með handafli. Ég tel að launþegar í landinu hljóti að gera þá kröfu til viðsemjendanna, beggja vegna borðsins, að þeir fari ekki að ganga frá samkomulagi sem felur í sér að þessir möguleikar fólksins verði eyðilagðir. Það kemur ekki til álita. Ég er þeirrar skoðunar að menn vilji ekki fara í þetta gamla far, sem einstaka aðilar predika. Ábyrgð þeirra sem sitja við kjaraborðið er því mjög mikil," segir forsætisráðherra.

Góðærinu skilað hratt til fólksins

­Meginkrafa launþegahreyfingarinnar er að góðærinu verði skilað til launafólks. Er ekki skiljanlegt að farið sé fram á umtalsverðar kauphækkanir í ljósi þessarar stöðu?

"Þegar kaupmáttur hefur aukist um rúm 12% á fjórum árum, er verið að skila góðærinu til launafólks, og það hratt. Auðvitað gætum við ákveðið að kaupið eigi að hækka um 30%, 50% eða 100%, en það felur ekki í sér neina kaupmáttaraukningu. Það er bara della. Skuldir heimilanna hafa verið að aukast og það er út af fyrir sig skiljanlegt, vegna þess að möguleikar fólks á lánsfé hafa verið að aukast og eignamyndun fólks hefur einnig aukist, þótt það hafi að vísu ekki orðið nægilega hratt. Fyrirtækin notuðu ábata, sem þau hafa haft, til að lækka sínar skuldir. Nú verðum við að auka kaupmáttinn næstu þrjú eða fjögur árin til þess að gera fólki kleift að grynnka á sínum skuldum. Þær verða ekki lækkaðar með göldrum, heldur með því einu að auka kaupmáttinn. Skuldir verða síst af öllu lækkaðar með því að hækka kauptölurnar, ef ekki er innstæða fyrir þeim, því þá rjúka þær upp með aukinni verðbólgu," svarar Davíð.

­ Hvað er mikið svigrúm til kauphækkana að þínu mati?

"Ég ætla ekki að fara að diktera kauphækkunartöluna en við höfum metið það svo, að hægt verði að ná að minnsta kosti 3% kaupmáttaraukningu á þessu ári. Þeir sem vilja fara hærra en það geta aðeins gert það með því að auka verðbólguna sem því nemur, og verðbólga og kaupmáttaraukning fara illa saman."

Stjórnvöld stefna aldrei í átök

­ Það er augljóst að mikið ber í milli í samningaviðræðunum. Forystumenn ASÍ saka stjórnvöld og vinnuveitendur um að bera ábyrgð á hvernig komið er og það stefni að óbreyttu í átök. Hvernig metur þú stöðuna?

"Stjórnvöld stefna aldrei í átök á vinnumarkaði. Átök skila engu fyrir þjóðarbúið. Ef við getum aukið kaupmáttinn um 3,2% á þessu ári, þá vitum við að það byggist á því að atvinnulífið gangi eðlilega. Ef hér verða verkföll er það eingöngu reikningsdæmi hversu mikið kaupmátturinn minnkar við það. Verkföll skapa ekki nýja peninga, framleiðslan stöðvast, þjóðin hægir á sér og ber minna úr býtum. Verkföll geta búið til kauptölur sem ekki er innistæða fyrir en ekki peninga," svarar Davíð.

­ Eru samt ekki yfirgnæfandi líkur á að það muni koma til staðbundinna eða víðtækra átaka á vinnumarkaði?

"Ég hef áhyggjur af því að menn séu að tala sig inn í það far. En þá eru þeir að bregðast sínu fólki og hagsmunum beggja megin borðsins ef haldið verður þannig á málum að menn flækjast út í verkföll, sem engum verða til gagns. Ég tel að þegar aðilar fara yfir málin og sjá þá möguleika sem við höfum, þá átti þeir sig á að ábyrgð þeirra gagnvart fólkinu er gríðarleg. Fólkið mun ekki kunna þeim þakkir fyrir að eyðileggja það sem áunnist hefur. Fólk er að sjá skuldir sínar lækka vegna þess að verðbólgan er lág. Það veit hvar það á að versla vegna þess að það þekkir orðið verðlagið. Ef þetta verður allt saman eyðilagt eru það hinir lægstlaunuðu sem fara verst út úr því."

-Hvaða leiðir sérðu út úr núverandi stöðu kjaramála sem sátt gæti orðið um? Nú er til dæmis mikið rætt um möguleika á gerð vinnustaðasamninga í kjölfar almennra kjarasamninga.

"Við miðum okkur við önnur lönd og ég hef hér dregið fram tölur sem sýna að við stöndum okkur betur en önnur lönd. Við sjáum með hvaða hætti önnur lönd haga sínum kjarasamningum. Við erum ekkert eyland í þeim efnum. Við verðum að haga okkur eins. Það er hvergi verið að hækka laun um 20%, 30% eða 40% á einu ári. Menn eiga því að ganga út frá því að á einhverju samningstímabili hækki kaupmátturinn verulega. Ef talað er um þriggja ára samning er hægt að ímynda sér að kaupmáttur geti aukist beinlínis vegna samninganna um átta til tíu prósent, ef skynsamlega er að þeim staðið. Í framhaldinu þarf ríkisvaldið svo að skila sínum hugmyndum varðandi aðra þætti.

Vöxtum er haldið uppi um þessar mundir. Ástæðan er sú að þeir sérfræðingar sem um þau mál véla, eru hræddir um að kjarasamningar skemmi forsendur efnahagsástandsins og vextir muni því fara hækkandi. Skynsamlegir kjarasamningar munu hins vegar leiða til lækkunar vaxta," segir forsætisráðherra.

Ríkið kemur að borðinu ef herslumuninn vantar

­ Er ekki ljóst að ríkisstjórnin verður að koma töluvert við sögu, ef samningar eiga að nást?

"Málið er enn sem komið er þannig vaxið að það er ekki á borði heildarsamtaka og ég veit ekki hvort af því verður. Miðað við þær aðstæður, kemur ríkið ekki beint að kjarasamningum. Ríkisvaldið getur ekki komið að kjarasamningum þegar einstakir aðilar eru að semja hér og þar. Ríkið kemur hins vegar að borðinu ef herslumuninn vantar og báðir aðilar, eða annar hvor, sýnir ríkisstjórninni með góðum röksemdum fram á að eitthvað þurfi að gera. Ríkisstjórnin hefur komið að málum við þær aðstæður og við myndum gera það aftur," segir Davíð.

­ Ætlar ríkið þá að halda sig til hlés eins og málin standa í dag?

"Já, ríkið mun gera það en fylgjast mjög nákvæmlega með. Við erum að vinna okkar grundvallarvinnu og erum tilbúnir að koma inn í myndina þegar það er talið skynsamlegt og æskilegt af öllum aðilum."

­ Hefur ríkisstjórnin eitthvað svigrúm til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga?

"Ef kjarasamningar verða á skynsamlegum nótum, höfum við það. Svigrúmið er ekki mikið og ef kjarasamningarnir verða tóm vitleysa hverfa hagsmunir ríkisins um leið og svigrúmið verður að engu. Þetta ber því allt að sama brunni. Við höfum bent á að eitt brýnasta verkefnið sé að ná niður atvinnuleysi og það er að takast, en það fer niður í 3,7% á þessu ári Það byggist líka á því að gerðir verði skynsamlegir kjarasamningar. Ábyrgð viðsemjendanna er því gríðarlega mikil og ég hlýt, eins og aðrir, að ætlast til þess að á næstu vikum átti menn sig á því og tryggi fólkinu vaxandi og aukinn kaupmátt."

­ Það eru miklar væntingar uppi í þjóðfélaginu. Hafa yfirlýsingar þínar og fleiri ráðherra um bætt efnahagsástand og lag til kaupmáttaraukningar, ekki ýtt enn frekar undir þessar væntingar?

"Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að tala um hlutina eins og þeir eru. Ég var á sínum tíma sakaður um að tala kjark úr þjóðinni þegar ég lýsti ástandinu þá. Ég hef síðan sagt að hægt sé að auka kaupmáttinn og við erum að auka hann um 12% á nokkrum árum að þessu ári meðtöldu og við eigum að halda því áfram næstu tvö eða þrjú árin."

Ákveðnir hópar hjá hinu opinbera fengu meira en aðrir

­ Nú eru þau viðhorf uppi bæði innan launþegasamtaka og samtaka vinnuveitenda að ríkisvaldið hafi gengið skrefi lengra í kjarabótum til sinna starfsmanna en gert var á almenna vinnumarkaðinum.

"Það er hægt að nefna ákveðna hópa sem fengu meira en aðilar fengu almennt. En það voru aðallega hópar þar sem konur eru fjölmennar. Sú stefna virtist vera almennt uppi í þjóðfélaginu að það ætti að bæta hag kvennastéttanna sérstaklega. Það hefur verið gert og ég hygg að um það hafi verið bærileg sátt. Það eykur jú aðeins meðaltalið hjá opinberum starfsmönnum en það eru hins vegar mjög margir hópar hjá hinu opinbera, sem hafa ekki borið neitt meira úr býtum en á almenna markaðinum. Þarna eru menn líka að bera saman taxtakaup en samanburðurinn er vandmeðfarinn. Opinberi taxtinn liggur fyrir og er hagfelldur launþegum þegar lægð er í efnahagslífinu, því þá heldur fólk sínu en þar sem yfirborganir tíðkast, eins og á sér stað á almenna markaðinum, hrynja yfirborganir þegar niðursveiflan á sér stað. Þegar betur árar eykst kaupið hugsanlega meira en taxtar og kjarasamningar segja til um."

­ Einn af forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar hefur sagt að ekki verði skrifað undir kjarasamning nema gegn því að sett verði inn í samninginn umsvifalaus opnun þeirra fari ríkisstjórnin út fyrir ramma þeirra. Þetta bendir til trúnaðarbrests.

"Ástæðan er kannski sú að ákveðnir hópar fengu nokkuð meira en aðrir, eins og ég hef rakið, aðallega nokkrar kvennastéttir á borð við hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og reyndar kennara. Það er yfirleitt ekki vel séð hjá launþegasamtökunum þegar aðrir hópar setja inn í sína samninga bann við því að aðrir megi hækka. Ég er ekki að mæla með því en ég skil vel að forystumenn í verkalýðshreyfingunni vilji að allir axli það sama í þessum efnum, allir fái aukinn kaupmátt en í jafnstórum skrefum."

­ Það er líka vitnað iðulega til þeirra hækkana sem alþingismenn, ráðherrar og háttsettir embættismenn fengu haustið 1995, umfram það sem samið hafði verið um á vinnumarkaði. Er hægt að tryggja að ekki komi til þess aftur?

"Því er stundum haldið fram að ráðherrar og embættismenn hafi hrifsað til sín háar kauphækkanir. Ríkisvaldið hafi áður sett lög sem bönnuðu kauphækkanir til ráðherra og annarra slíkra og afturkallað hækkanir með lögum. Kjaradómur úrskurðaði síðan fyrir þessa hópa en þetta eru einu hóparnir sem ekki geta samið um sín kjör sjálfir. Það má ekki gleyma því að allmargir embættismenn lækkuðu í launum við úrskurð Kjaradóms og Kjaranefndar en jafnræðið varð meira en áður hafði verið. Kjaradómur var sjálfsagt meðal annars að leiðrétta að ráðherrar voru í mörgum tilfellum undir sínum starfsmönnum í launaskalanum innan ráðuneytanna.

Það er þýðingarmikið að þarna verði ekki skekkja í framtíðinni. Við verðum að telja að Kjaradómur hafi þegar gert sínar ráðstafanir og lagað það sem dómurinn taldi að hefði skekkst. Nú segir í lögum um Kjaradóm að hann eigi að fara eftir almennri þróun í þjóðfélaginu. Ég tel því að það sé tryggt," svarar Davíð.

Meiri líkur á að boðuð verkföll skelli á vegna nýrra laga

Breytingin á vinnulöggjöfinni sl. vor var gerð í óþökk launþegahreyfingarinnar, sem hefur talið ýmsa galla á ákvæðum hennar. Forseti ASÍ lýsti því í viðtali við Morgunblaðið í seinustu viku að lagaákvæðin um frestun eða afboðun verkfalla væru til mikilla muna ósveigjanlegri en eldri lög. Aðspurður um þetta sagði Davíð að það væri rétt að samkvæmt nýju lögunum væri mun meiri hætta á því að til verkfalla kæmi eftir að samþykkt hefði verið að boða vinnustöðvun en áður var. Hann kveðst óttast þetta mjög.

"Ef fólk ákveður verkfall eru miklu meiri líkur á að það komi til verkfalla en áður var. Það er bæði kostur og galli. Það er alltaf hætta á því í fyrsta skipti að menn samþykki verkfallsheimildir í einhverju kæruleysi en átti sig ekki á að með því er verið að ákveða verkfall en ekki eingöngu að heimila að boðað verði til verkfalls. Ábyrgðin er færð til launþeganna sjálfra. Þessi hætta er fyrir hendi. Við því er ekkert að gera annað en að ná skynsamlegum samningum," segir hann. Aðspurður sagði Davíð þó ekki til umræðu á þessu stigi að breyta vinnulöggjöfinni til að auka sveigjanleikann á ný.

Lífeyrisréttindi jafngild og áður

­ Mikið hefur verið deilt um samkomulag og lagasetningu um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem aðilar almenna vinnumarkaðarins telja að feli í sér að réttindi opinberra starfsmanna séu langt umfram það sem aðrir landsmenn hafi . . .

"Það er hárrétt að réttindin eru að ýmsu leyti betri en á almenna markaðinum en meginatriðið er það, að á þessu hefur ekki orðið nein breyting frá því sem áður var. Það eru jafngild réttindi hjá opinberum starfsmönnum eins og áður var. Eini munurinn er sá að nú er þetta sýnilegt en áður var þetta falið. Það er til bóta í opnu þjóðfélagi," svarar Davíð.

­ Er þá ekki innstæða fyrir því að launafólk á almenna markaðinum fái þennan réttindamun bættan eins og forysta ASÍ fer fram á?

"Það má vel vera að launþegar og vinnuveitendur vilji í auknum mæli setja bættan hag í að tryggja aukin lífeyrisréttindi frekar en að setja hann allan í að bæta kaup. Það er sjálfstæð ákvörðun sem þeir verða að meta og taka."

Grundvallarbreyting á skattkerfinu kemur til álita

­ Því hefur verið lýst yfir að skattar verði lækkaðir á næstu þremur árum en hvað líður störfum svokallaðrar jaðarskattanefndar? Hvenær er tillagna að vænta?

"Nefndarstarfið hefur gengið vel en það hefur fram að þessu falist í því að undirbúa ákvarðanatöku. Það hefur verið gerð úttekt á skattkerfinu og það hafa verið sett upp dæmi um ýmsa kosti, svo sem varðandi persónuafsláttinn, vaxtabætur, barnabætur og barnabótaauka, um jaðarskattana almennt og einnig um fjölgun skattþrepanna. Grundvöllur ákvarðanatökunnar hefur verið lagður en ákvörðun um hvaða meginþættir verða lagðir til grundvallar skattabreytingunum hefur ekki verið tekin. Við þurfum að sjá hvernig kjarasamningarnir þróast, því ef kjarasamningarnir verða tóm vitleysa hverfur svigrúm ríkisins. Þá erum við staddir á núllpunkti. Svigrúmið getur aukist ef kjarasamningarnir verða skynsamlegir. Þá verður hægt að laga til í skattkerfinu og tryggja að vextir lækki," segir Davíð.

­ Hvort telurðu ráðlegra að lagfæra núverandi skattkerfi, með breytingum á tekjuviðmiðunum í bótakerfinu eða að gerð verði grundvallarbreyting á kerfinu til dæmis með því að taka upp fjölþrepa tekjuskatt?

"Ég tel að það geti komið til álita að gera grundvallarbreytingar á skattkerfinu. Hins vegar má vel vera að það verði ekki svigrúm til að gera það í vor. Ef þessar breytingar verða tengdar við aðrar ákvarðanir, þarf lengri tíma til þess og meiri umræðu á milli stjórnarflokka, aðila vinnumarkaðar og við stjórnarandstöðu, sem ég tel sjálfsagt að taka inn í myndina þegar um meiri háttar breytingar er að ræða."

Forsætisráðherra segir að staðið verði fast við markmiðið um hallalausan ríkisbúskap og mjög mikilvægt sé að geta tryggt verulega kaupmáttaraukningu, skattalækkun og lækkun vaxta á sama tíma. Það sé hægt ef tækifærinu verður ekki klúðrað af gáleysi í samningum. "Ef menn fara hins vegar í verðbólgusamninga að gamni sínu til þess eins að geta flaggað stórum tölum á einhverjum fundum, þá eru menn að pissa í skóinn sinn," segir Davíð.

Samstaða um að verðlag á hollustuvörum lækki

Davíð var spurður um efndir á loforði sem gefið var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga í nóvember 1995 um að leitað verði leiða til að koma í veg fyrir að verðlagsbreytingar á ýmsum landbúnaðarafurðum raski forsendum samninga. Davíð svaraði því til að efnt hefði verið að hefja athugun á þessu. "Það er skilningur á því að vissir þættir í matvælaverði þurfi að lækka en jafnframt er skilningur á því að innlendir framleiðendur þurfa að fá sinn aðlögunartíma. Það er líka skilningur á því að þær kollsteypur sem hafa orðið á verði á grænmeti eru óhollar fyrir efnahagslífið, þótt þetta jafnist reyndar nokkuð út innan ársins þegar lækkanir eiga sér stað. Það er ríkur vilji til að verðlag megi lækka á margvíslegum hollustuvörum. Það er sæmileg samstaða um að ná verði slíkum markmiðum."

­ En nefnd sem um þetta fjallar hefur ekki enn skilað ákveðnum tillögum?

"Nei, ekki á þessu stigi en þetta er í skoðun. Það er ekki búið að taka ákvarðanir um þetta."

Ákjósanlegur tími fyrir ríkið að selja eignir

­ Miklar stóriðjuframkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstunni og Þjóðhagsstofnun spáir mikilli aukningu þjóðarútgjalda á árinu eða 7% verði ráðist í framkvæmdirnar og viðskiptahallinn gæti orðið um 25 milljarðar. Er ekki mikil og yfirvofandi hætta á vaxandi þenslu?

"Það er töluverð hætta á þenslu. Við spáum því að viðskiptajöfnuður verði okkur óhagfelldur á þessu ári en hann hefur verið hagfelldur á undanförnum árum. Það má hins vegar segja að þessi halli er jákvæður vegna þess að hann stafar að verulegu leyti af fjárfestingum, sem eiga að skila þjóðarbúinu verðmætaaukningu þegar fram í sækir. Viðskiptahalli á seinasta ári stafaði hins vegar af mikilli neyslu og hann skilar sér ekki í neinu. Menn hafa áhyggjur af þessu og það er nauðsynlegt að leita leiða til að fólki opnist möguleikar á auknum sparnaði við bætt kjör. Það þarf einnig að hvetja menn til að nota bætt kjör til þess að draga úr skuldum sínum. Þetta er líka ákjósanlegur tími fyrir ríkisvaldið að setja eignir á markað og draga fé út af markaðinum inn til ríkissjóðs fyrir eignir sem ríkið selur. Með þeim hætti verði slegið á þenslu. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir varðandi frestun opinberra framkvæmda en ríkisstjórnin mun kynna á næstunni aðrar ákvarðanir sem munu opna möguleika á töluverðri sölu á eignum ríkisins," svarar Davíð.

­ Geturðu greint frá í hverju þær eru fólgnar?

"Ég vil ekki gera það á þessu stigi máls. Það er nokkuð þekkt hvað hefur verið í farvatninu en þar er ekki bara um að ræða ágæti einkavæðingar, heldur eru þarna möguleikar á að draga fjármagn út af markaðinum við sölu á fyrirtækjum ríkisins og nota það til að minnka skuldir ríkisins. Þar er um stórar upphæðir að ræða."

Vinnustaðasamningar færa valdið til fólksins

Davíð var að lokum spurður álits á hugmyndum um gerð vinnustaðasamninga og hvort afleiðing þeirra yrði ekki sú, að ógerlegt yrði fyrir heildarsamtök vinnumarkaðar og stjórnvöld að móta samræmda launastefnu í landinu. Einnig væri sá möguleiki nú fyrir hendi að samið yrði í einstökum starfsgreinum eða fyrirtækjum þótt allt sæti fast í Karphúsinu. Davíð sagði að það væri eingöngu af hinu góða ef slíkir samningar verða gerðir á skynsamlegum nótum. Í vinnustaðasamningum hefðu aðilar í huga að aðstæður væru aðrar en þegar um heildarkjarasamninga væri að ræða. "Heildarsamningar hafa alltaf þá hættu í för með sér að miðað sé við meðaltöl. Það er mjög gott fyrir þá sem gengur vel í augnablikinu en það er mjög erfitt fyrir þá sem eru ekki aflögufærir um neitt. Heildarkjarasamningar geta hins vegar ekki á öðru byggt en meðaltölum. Þess vegna er nauðsynlegt að vinnustaðasamningar komi einnig til," svarar hann.

Davíð bendir á að í vinnustaðasamningum sé hægt að taka mið af raunverulegum hag viðkomandi fyrirtækis, þannig að velgengni þess skili sér til launþeganna. Einnig væri ákjósanlegt að stytta vinnutíma með slíkum samningum. "Ef vinnustaðasamningar ýta ríkisvaldinu til hliðar og að einhverju leyti verkalýðsforystunni og forystu Vinnuveitendasambandsins, þá eiga þeir aðilar að taka því vel. Það þýðir eingöngu að valdið er fært til fólksins. Hver ætlar að vera á móti því?"

Morgunblaðið/Kristinn

Mikil kaupmáttaraukning er möguleg

"ÞAÐ er því sama á hvaða mælikvarða er litið, möguleikarnir á þessu ári og hinu næsta eru gífurlegir. Ef við höldum sæmilega á spilunum gætum við séð fyrir okkur átta til tíu prósenta kaupmáttaraukningu á næstu þremur árum og jafnvel meiri, ef skynsamlega er haldið á málum. Það myndi þýða að við værum að auka kaupmáttinn á árabilinu frá 1994 til aldamóta um 20%," segir Davíð Oddsson forsætisráðherra.

Meiri hagvöxtur og minna atvinnuleysi en í viðmiðunarlöndunum.

Erum tilbúnir að koma inn í myndina þegar það er talið skynsamlegt og æskilegt af öllum aðilum.

ÉG HYGG AÐ ÞAÐ SÉ EKKERT SKEIÐ Í ÍSLANDSSÖGUNNI SEM SÝNI AÐRA EINS KAUPMÁTTARAUKNINGU.