Ný SÖGUSÝN Ísland á síðustu öld hefur færst okkur fjær, svo ekki sé meira sagt. Sumir eru þó í meiri nálægð við það en allur þorri fólks.

Ný SÖGUSÝN Ísland á síðustu öld hefur færst okkur fjær, svo ekki sé meira sagt. Sumir eru þó í meiri nálægð við það en allur þorri fólks. Kristrún Halla Helgadóttir sagnfræðinemi hefur að undanförnu setið við að skrá sendibréf frá Reykvíkingum á síðustu öld. Guðrún Guðlaugsdóttir fékk að glugga í bréfin hjá henni, en þau eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns í Þjóðarbókhlöðu. Við lestur þessara bréfa er gengið til fundar við fortíðina og birtist okkur sem ljóslifandi í frásögn hinna ýmsu bréfritara.

ÁLGUNIN er svo mikil að það er bókstaflega eins og maður sé staddur inni í stofu hjá fólkinu sem bréfin rita," segir Kristrún Halla Helgadóttir í upphafi samtals okkar. Upphafs þessa alls var að haustið 1995 var ég í námskeiði hjá Sigurði Gylfa Magnússyni sagnfræðingi og var að vinna að ritgerð uppúr bréfasafni á handritadeild. Ég sá þá hversu mörgu er ábótavant varðandi flokkun bréfanna. Í gömlum litlum kössum eru geymdir flokkunarseðlar og flokkað er eftir nafni sendanda eða viðtakanda. Útilokað er að hafa upp á sérstöku efni ef fólk er til dæmis að leita heimilda í ritgerðir. Þetta eru stundum stór bréfasöfn og fólk fer ekki að lesa heilu bréfasöfnin í leit að efni sem svo kannski er óvíst að leynist þar.

Undanfarið hef ég verið að lesa þessi bréfasöfn í gegn og flokka þau eftir efnisatriðum. Ég er ekki komin nema fram á sjöunda áratuginn. Þegar flokkun og innslætti er lokið verður hægt að leita að ákveðnum efnisatriðum eftir lykilorðum. Ef fólk vill t.d. finna eitthvað um eldgos í bréfum frá öldinni sem leið ætti það samkvæmt mínu flokkunarkerfi að vera hægt með því að slá inn einu lykilorði, sem væri í fyrrnefndu tilviki eldgos. Þá ætti tölvan að tína til allt sem sagt er um eldgos í bréfunum. Slíkt auðveldar fólki sem vantar heimildir að finna þær. Á sama hátt verður hægt að leita eftir ártali og sérnafni. Þetta mun auðvelda til muna aðgengi að bréfunum og opna möguleika á að nota bréfasöfnin við rannsóknarvinnu. Þess ber að geta að ég fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til þriggja mánaða, ella hefði ég ekki getað sinnt þessari vinnu."

Ný heimildarflokkur

"Mitt helsta markmið er að opna nýjan heimildarflokk í rannsóknum. Sagan hefur hingað til mest verið skrifuð út frá stofnunum, stuðst hefur verið nær eingöngu við opinber skjöl en með tilkomu aðgengilegs bréfasafns er hægt að skrifa söguna út frá persónulegri lífsreynslu einstaklinga. Þetta hefur orðið í raun útundan í sagnfræðirannsóknum hér á landi. Þess ber að geta að þegar saga einstakra manna hefur verið rituð hefur vissulega verið farið yfir og stuðst við bréfasöfn þeirra, t.d. manna eins og Jóns Sigurðssonar og annarra frammámanna í íslensku þjóðlífi, en bréf frá almúgafólki hafa ekki verið notuð í þessu skyni. Þetta opnar nýja sýn á söguna, gefur nýja sögusýn, og færir okkur nær þessu fólki sem einu sinni byggði þetta land. Hingað til höfum við fyrst og fremst séð sögu okkar að ofan, ef svo má segja, nú opnast leið til sjá inn í neðri lögin, hvernig fólki leið og lifði innan um allar þær reglur sem því voru settar af yfirvöldum, og hvernig þær mótuðu líf fólks."

Hvernig var nítjánda öldin?

En hvernig kemur þér nítjánda öldin fyrir sjónir eftir að hafa lesið öll þessi bréf?

Auðvitað urðu miklar breytingar eftir því sem leið á öldina. Í upphafi aldarinnar voru íbúar Reykjavíkur aðeins um 300 en voru í lok hennar rösklega 6.000. Eitt einkenndi þó þetta tímabil allt, það var mikið strit og mikil veikindi hjá fólki. Í bréfum er lýst marvíslegum veikindum, líklega væru þau fróðleg aflestrar fyrir lækna nútímans, því lýsingar eru oft mjög nákvæmar. Einnig eru veðurlýsingar áberandi. Fólk var þá í svo miklu meira návígi t.d. við veður og aflabrögð en við sem lifum í dag. Í næstum hverju einasta bréfi er veðrinu nákvæmlega lýst. Í bréfunum kemur glögglega fram hve fámennið var mikið í Reykjavík á nítjándu öld. Mikið var slúðrað um náungann og allir vissu allt um alla.

Fréttablöðin fóru ekki að koma út fyrr en um miðja síðustu öld þannig að fólk notaði bréf til að bera fréttir á milli. Allt sem gerðist og bréfritari vissi um, hvort sem hann heyrði það af afspurn eða lifði það sjálfur, var samviskusamlega skrifað niður og sent kunningjum og vinum. Ef einhver komst t.d. í erlent fréttablaðlét hann berast bréflega það sem hann hafði komist á snoðir um."

Skriftarkunnáttu áfátt

"Um miðbik síðustu aldar dregur úr þessum fréttaskrifum í sendibréfum og menn vísa þá frekar til blaða og tímarita sem farin voru að koma út þá. Rétt er að geta þess að flestir bréfritararnir framan af öldinni sem leið voru menntamenn. Fátítt er að rekast á bréf frá t.d. vinnumönnum og sárafáar konur skrifuðu bréf fyrr en fer að nálgast miðja nítjándu öldina. Ég hef grun um að skriftarkunnáttu almennings hafi verið áfátt hér á landi á þessum tíma, sérstaklega skriftarkunnáttu kvenna. Þær voru ekki taldar hafa gagn af slíkri menntun. Þær konur sem skrifuðu bréf á þessum tíma voru flestar á einhvern hátt tengdar prestum eða öðrum embættismönnum. Það er ekki fyrr en um 1880 sem gert er skylt að kenna börnum skrift og reikning í lögum um uppfræðslu barna. Áður átti hvert barn að læra lestur og Kverið, sem var kristinfræðibók þeirra tíma."

Fólk vann mjög mikið

"Starfið var miðdepillinn í tilveru fólks á nítjándu öld. Það kemur fram í bréfunum að fólk þurfti almennt að vinna mjög mikið. Framan af öldinni sést þó aðeins óbeint inn í líf almúgans vegna þess að þá eru flest bréfin frá embættismönnum, en þeir tala auðvitað um fólkið í kringum sig í bréfum sínum og til er einnig nokkuð af bréfum frá tómthúsfólki í Reykjavík. Það fólk byggði allt sitt á íhlaupavinnu og sjávarafla. Í athugun minni hef ég einskorðað mig við bréf frá Reykvíkingum, en auðvitað fljóta með í þeim bréfum fréttir af fólki héðan og þaðan af landinu."

Reykjavík var lengi lítil

"Reykjavík var í upphafi nítjándu aldar mjög lítil, en kaupstaðarsvæðið stækkaði afar mikið eftir því sem leið á öldina. Smám saman sameinuðust bænum jarðir í kring. Árið 1806 koma til dæmis Landakot og Grjótahverfið fyrst til sögunnar, Arnarhóll og Rauðará ekki fyrr en 1835, Laugarnes og Kleppur árið 1894 og svona mætti lengi telja. Ég hef eingöngu skoðað bréf frá fólki sem búsett var innan kaupstaðarmarkanna. Stephensenarnir í Viðey koma því aldrei við sögu sem bréfritarar í athugun minni vegna þess að Viðey sameinaðist ekki Reykjavík fyrr en árið 1983."

Jónas forsómaði" ekki böllin

Þrátt fyrir harða lífsbaráttu skemmti fólk í Reykjavík sér eftir föngum. Til dæmis var hér starfandi svokallaður Klúbbur, sem gekkst fyrir dansleikjum eða böllum eins og það var nefnt. Jónas Hallgrímsson skáld er einn af þeim sem eiga bréf í bréfasafninu. Hann sótti öll þau böll sem hann gat. Veturinn hefur að mestu leyti horfið mér í önnum, þó hef ég dálítið skemmt mér uppá millum," segir hann í bréfi til Magnúsar Eiríkssonar guðfræðings 14. mars árið 1832. Ball hef ég til dæmis aldrei forsómað ­ við höfum haft hér sex Böll í vetur, og á öllum hefur gengið sómasamlega og raskt til, af öðrum smáskemmtunum mínum ­ saklausum eins og þú þekkir til mín ­ ætla ég ekkert að sejga þér ­ þú vilt hvurt sem er ekkert heyra um kvenfólkið. Ég hef svona brúkað einstaka frí kvöld til að spila allvel eða syngja eða skrafa og spauga við kunningjafólkið."

Guðsótti og stéttaskipting

Til Magnúsar guðfræðings sem fyrr er nefndur skrifar Katrín (Árnadóttir) Skaftason Johnsen tveimur árum seinna og kveður þar heldur við annan tón en hjá Jónasi. Við hérna lifum núna við bærileg heilsukjör, en í sumar var ég sem aðrir hér í Vík mikið lasin, ég lá rúmföst í 6 vikur, og var þó eftir það töluverðan tíma að ná fjöri og kröftum. Þeir er nafnkenndir hafa dáið, eru Frú G. Helgasen í Görðum, Madame R. Gunnlögsen í Sviðholti og Jómfrú Ingibjörg Illugadóttir í Hafnarfirði, annars hefur þar að auki dáið allramesti fjöldi af öðrum skríl. Annars eru mjög fáar fréttir að segja héðan, fáir prestaskrattar eða önnur þess háttar óþörf dýr deyja."

Andinn í bréfi Katrínar er að mörgu leyti mjög á skjön við það sem almennast er í bréfum framan af öldinni. Í flestum bréfunum ríkir mikill guðsótti, ekki síst hjá konum. Í bréfi hennar kemur einnig glögglega fram sú mikla stéttaskipting sem var í samfélagi þessara tíma. Dæmi um þetta má einnig sjá hjá Pétri Péturssyni forstöðumanni Prestaskólans og síðar biskupi í bréfi sem hann ritar 5. febrúar árið 1850 til Bjarna Thorsteinssonar amtmanns á Vesturlandi. Eftir því sem heyrist hingað og þangað, er ofur hætt við, að kosningarnar takist verr en skyldi og að á þessum þjóðfundi verði allrahanda óþjóðalýður, eða réttara sagt, tómir bændur með fyrirliðum sínum og er þá auðséð, að allt muni verða vitlaust."

Sigríður Pálsdóttir

"Einn af mínum uppáhaldsbréfriturum er Sigríður Pálsdóttir. Hún dvaldi að vísu aðeins einn vetur í Reykjavík en skrifaði þá sem endranær bréf til bróður síns Páls Pálssonar amtskrifara á Stapa. Bréf Sigríðar eru harla mörg, 240 talsins, og eru þau varðveitt í bréfasafni Páls bróður hennar.

Sigríður fæddist 17. maí árið 1819 og ólst upp á Austurlandi á Hallfreðarstöðum. Faðir hennar var sýslumaður og móðir hennar var systurdóttir Geirs Vídalíns biskups, svo hún tilheyrði óumdeilanlega yfirstétt landsins.

Sigríður er ein örfárra kvenna sem bréf hafa varðveist frá í einhverjum mæli. Hún byrjaði að skrifa bróður sínum níu ára gömul og hélt því áfram til dauðadags. Hún andaðist árið 1871. Í bréfum sínum lýsir Sigríður fyrst og fremst sjálfri sér og sínum kjörum. Því miður er engin mynd til af henni en eftir að hafa kynnst henni svona vel í gegnum bréfin myndi ég mjög gjarnan vilja vita hvernig hún leit út. Ég ímynda mér að hún hafi verið falleg kona, hún giftist tvisvar og lifði báða eiginmenn sína.

Sigríður var um tíma þjónustustúlka í Laugarnesi. Meðan hún dvaldi þar kom Þorsteinn Helgason, systursonur biskupsfrúarinnar, frá löngu námi í Kaupmannahöfn. Hann var heitbundinn Sigríði dóttur Hannesar Finnsonar biskups og stjúpdóttur Steingríms Jónssonar eftirmanns hans í embætti. Það fór svo að Þorsteinn sleit trúlofun sinni við Sigríði biskupsdóttur vegna Sigríðar Pálsdóttur vinkonu okkar, sem þá var 21 árs að aldri. Inn á þetta dramatíska atvik kemur hún í bréfi til Páls bróður síns sem hún skrifar frá Reykjavík 13. nóvember 1831. Þá hafði biskup rekið bæði hana og Þorstein frá Laugarnesi og hún fengið hæli hjá frænku sinni og nöfnu sem var landfógetaekkja í Reykjavík." Þykir mér líklegt að þú getir nærri, margt af fólki getur so geðs til mín að ég hafi verið orsök í óreglunni með giftingu S(igríðar) H(annesdóttur) það sem árið komandi tala um, það er mér raunalaust en ef hún og foreldrar hennar eru sömu meiningar fellur mér þyngra, ekki hafa þau talað við mig en mikinn þótta og þurrlindi hef ég merkt á þeim til mín, þetta líð ég þegjandi af þeim án þess að geta nokkuð við þau talað eða afsakað mig og mín einasta huggun er að ég hef góða samvisku fyrir ekki að hafa spillt á milli þeirra. Hvað talaði biskupinn um þetta við þig í sumar, æ finndu nú aungva vegi til að bæta úr þessum óróa mínum og því sem húsbændur mínir sem voru og dóttir þeirra hafa þóst líða fyrir mína skuld, það væri kannski til vegur en hann vil ég ekki nefna..."

Ekkjuárin skemmtilegust

"Sigríður Pálsdóttir og Þorsteinn Helgason giftust ári síðar og eignuðst þrjár dætur. Frá þeim er mikill ættbogi kominn. Má nefna að Ragnheiður elsta dóttir þeirra giftist Skúla lækni Thorarensen og þau áttu mjög marga afkomendur. Þau Sigríður Pálsdóttir og Þorsteinn kynntust eins og fyrr sagði í Laugarnesi er hann dvaldi þar hjá Sigríði Hannesdóttur unnustu sinni og menn bjuggust við giftingu þeirra þá og þegar. Hún giftist hins vegar Árna Helgasyni í Görðum, síðar biskupi, nokkrum árum seinna.

Af bréfunum má sjá að Sigríður Pálsdóttir var skemmtileg kona og hún dáði bróður sinn mjög og reiddi sig algerlega á hann framan af ævi. Hún var gift Þorsteini í sex ár, þá lést hann hann skyndilega og hún var ekkja í önnur sex ár. Þau ár eru skemmtilegasti kaflinn í bréfaskriftum hennar. Henni varð smám saman ljóst að hún yrði að standa á eigin fótum, þetta er því eins konar þroskasaga konu.

Sigríður hafði búið í Reykholti ásamt Þorsteini en þurfti að víkja þegar nýr prestur kom. Hún fékk ábúð á Síðumúla sem kirkjan átti og nánast hrakti þaðan fyrri ábúanda með aðstoð prófasts. Hún stóð í ýmsum deilum m.a. við prestinn í Reykholti sem ekki vildi borga kirkjuloft sem Þorsteinn og Sigríður höfðu byggt. Presturinn beygði sig þegar Sigríður hótaði að rífa niður kirkjuloftið.

Sigríður átti einnig í ótal öðrum deilum þar til hún giftist, bróður sínum til mikils léttis, séra Sigurði Thorarensen í Hraungerði, sem var vel fjáður ekkjumaður. Þau voru gift í rösk tuttugu ár. Ekki var þetta girndarráð eins og hið fyrra hjónaband, þau Sigríður og Sigurður höfðu ekki einu sinni sést þegar hann kom að sækja hana sem brúði sína haustið 1845.

Allt líf Sigríðar Pálsdóttur er nánast skjalfest í sendibréfum hennar. Hún var að skrifa bróður sínum og þetta voru trúnaðarbréf, hún var því ekki að setja sig í neinar stellingar, heldur kom til dyranna eins og hún var klædd og hikaði ekki við að létta á hjarta sínu eins og hún þurfti. Þetta gerir það að verkum að manni finnst maður þekkja þessa konu afar vel að lestri bréfanna loknum, þau eru líka einstök heimild um tilfinningalíf kvenna á nítjándu öld. Hlutskipti þeirra var um margt svo afar ólíkt hlutskipti kvenna í dag."

Merkilegt innlegg til sögu Reykjavíkur

"Svo við víkjum aftur sögunni að bréfasöfnunum í handritadeild þá má segja að ásigkomulag þeirra sé töluvert mismunandi. Stundum var erfitt að lesa bréfin, bréfritararnir skrifuðu fljótaskrift og hana er miserfitt að lesa. Sum bréfin eru máð og illlæsileg af þeim sökum. Vel flokkað bréfasafn sem er aðgengilegt í tölvu nýtist ekki aðeins sagnfræðingum við þeirra rannsóknir heldur líka ýmsum fræðimönnum í öðrum greinum. Gott dæmi um þetta er t.d. lýsing sjónarvotta af ýmsum náttúruhamförum, svo sem snjóflóðum. Einnig eru þarna merkar heimildir um atvinnusögu og skólamál. Ekki síst eru þessi bréf merkilegt innlegg til sögu Reykjavíkur og jafnvel landsins alls."

Morgunblaðið/Kristinn

KRISTÚN Halla Helgadóttir leitar að sendibréfi frá Sigríði Pálsdóttur.

Sigríður dóttir Hannesar Finnssonar biskups.

Ragnheiður Þorsteinsdóttir, elsta dóttir Sigríðar Pálsdóttur.

Jónas Hallgrímsson

Pétur Pétursson biskup

REYKJAVÍK um miðja nítjándu öld.

Af bréfunum má sjá að Sigríður Pálsdóttir var skemmtileg kona og hún dáði bróður sinn mjög og reiddi sig algerlega á hann framan af ævi. Hún var gift Þorsteini í sex ár, þá lést hann hann skyndilega og hún var ekkja í önnur sex ár. Þau ár eru skemmtilegasti kaflinn í bréfaskriftum hennar.