VOND GAGNRÝNI Skrif víðfrægra sérfræðinga geta, að mati Stefáns Jónssonar, orðið innantóm. ÞAÐ HEFUR oft viljað brenna við í myndlistargagnrýni Braga Ásgeirssonar í Morgunblaðinu, að sýningin sem fjallað er um, lendir í aukahlutverki.

VOND GAGNRÝNI Skrif víðfrægra sérfræðinga geta, að mati Stefáns Jónssonar, orðið innantóm. ÞAÐ HEFUR oft viljað brenna við í myndlistargagnrýni Braga Ásgeirssonar í Morgunblaðinu, að sýningin sem fjallað er um, lendir í aukahlutverki. Gagnrýnandinn leiðist þá út í hugleiðingar um efni sem koma viðkomandi verkum lítið sem ekkert við. Hann talar um hönnun sýningarskrár, salarkynnin sem sýnt er í, myndlistarskóla eða sýningastefnur í íslenskum listasöfnum. Það er líka vinsælt hjá honum að hamra á samsæriskenningum, sem hann hefur haldið fram um árabil, um sýningastjóra og listfræðinga sem hann telur stefna að því, leynt og ljóst, að útiloka almenning frá íslenskum sýningasölum. Það má vel vera að oft séu þetta þarfar ábendingar og atriði sem vert er að vekja athygli á, en þegar slíkt er birt undir yfirskrift gagnrýni á eina ákveðna sýningu myndlistarmanns og þegar upp er staðið hefur Bragi varla minnst á það sem til sýnis er, læðist að manni sá grunur að greinin hefði betur verið birt á öðrum vettvangi og á öðrum forsendum. Enda hefur Bragi af nógu að taka á Morgunblaðinu.

Gott dæmi um slíka gagnrýni er umfjöllun frá 13. mars 1996, um sýningu Helga Hjaltalín Eyjólfssonar sem þá stóð yfir í Við Hamarinn. Hann byrjar greinina með að fjalla um þann sið að benda fólki á að snerta ekki verkin sem til sýnis eru og talar um tilfelli þar sem slíkt getur verið réttlætanlegt. Hann segir síðan frá því að í þessu tilfelli sé þetta gert vegna þess að verkin séu eitruð og því hættulegt að snerta þau. Að þessu loknu eyðir hann nokkru plássi í að telja upp efnin sem verkin eru búin til úr og fer svo nokkrum orðum um sýningarsalinn. Allt er þetta gott og gilt og í sjálfu sér ekkert við það að athuga ef aðeins væri um inngang að sjálfri gagnrýninni að ræða, en ekki meginhluta lesmálsins. Bragi endar svo greinina þannig:

"Segja má að þessi sýning dragi fram styrk og einkenni húsnæðisins, því formrænt séð yfirgnæfir það sjálf verkin á sýningunni. Gesturinn þarf sem sé að líta vel í kringum sig til að koma auga á þau, því verkin eru hvorki stór né ábúðarmikil.

Kannski er þetta dæmi um síkvika list og liður í endurskoðun á sjónvenjum tilfallandi sýningargesta, en satt að segja hefði listamaðurinn þurft að fylgja hugmyndafræði sinni úr hlaði með skilvirkari textum. Vísunin til hins eitraða þáttar er ekki nóg ein sér, en hins vegar fer ímyndunaraflið af stað, sem í sjálfu sér er sterkasta aflið í sálarkirnunni. Hvert það leiðir gest og gangandi er svo auðvitað rannsóknarefni."

Þetta er um fjórðungur greinarinnar og hin eiginlega gagnrýni á sýninguna. Hér minnist Bragi í fyrsta skipti á verkin utan þess sem áður var nefnt um efnisnotkun listamannsins. Hann segir að sýningin hafi komið ímyndunarafli hans af stað, en í stað þess að útskýra það nánar, eða leiða í ljós hvaða hughrifum hann varð fyrir, heggur hann á þráðinn og skilur lesandann eftir hangandi í lausu lofti.

Maður er engu nær um sýninguna og Bragi bregst hér algjörlega þeirri skyldu sinni að túlka og lesa í verkin. Allt annað ætti að vera aukaatriði og sú lýsing á ytri umbúðum sýningarinnar, sem tekur um þrjá fjórðu hluta greinarinnar, virðist ekki þjóna öðrum tilgangi en þeim, að breiða yfir getuleysi Braga til að tjá sig um það sem hann sá. Sé gagnrýnandanum annt um að vera tekinn alvarlega verður hann að átta sig á að það er ekki hlutverk hans að lýsa húsakynnum eða telja upp staðreyndir úr sýningaskrám, heldur að lesa í verkin og upplýsa lesendur um hvaða hugrenningatengsl þau vöktu með honum. Það sem mestu máli skiptir er að fá að vita hvað honum fannst um verkin og hvernig þau hreyfðu við honum. Sjálfur bendir hann líka á að þetta sé vert að rannsaka og nú vil ég spyrja hvert sterkasta aflið í sálarkirnu Braga Ásgeirssonar leiddi hann við skoðun sýningarinnar?

Gagnrýnandanum tekst oft vel upp þegar lestur málverka er annars vegar. Sérstaklega lestur málverka sem eru afstrakt og hægt er að fjalla um út frá formalískum forsendum: " . . .hvaða málari ungur að árum málar af jafn miklum æskuþrótti og t.d. streymir fram úr stóru ljósu myndinni, sem er númer 7 á skrá? Og þrátt fyrir fáa liti, eru þeir sem fyrir eru svo kynngimagnaðir, að það liggur við að þeir beri mun litríkari myndir til beggja hliða, og einnig framúrskarandi vel málaðar, ofurliði. Þetta staðfestir einmitt, að Kristján er ekki kóloristi fyrir það að hann notar sterka liti, heldur hvernig hann meðhöndlar þá, leggur hlið við hlið og magnar upp. Jafnframt er það aðall góðs litameistara, að vera fullkomlega laus við alla væmni. Þá eru myndir Kristjáns jafn langt frá formleysishugtakinu og verða má, því liturinn sjálfur ber í sér form og niðurröðun hans á grunnflötinn markar myndbygginguna.

Þetta er sterk og hrifmikil sýning, hún staðfestir ekki einungis styrk og stöðu Kristjáns Davíðssonar innan íslenzkrar myndlistar, heldur bera dúkarnir vott um að listamaðurinn sé enn við kjarna sköpunarferlisins og hin innbyggða hugsæja ratsjá hans öflug og virk." (Morgunblaðinu 27.09.95.)

Hér er talað af greinilegri þekkingu á miðlinum og allt innan ramma formalískrar myndrýni. En Bragi getur líka farið út fyrir þann ramma og jafnvel orðið skáldlegur á köflum. Um málverk Georgs Guðna skrifar hann:

". . . landslagið er dregið saman í hnotskurn, einn brennipunkt, og þó eru þetta beinar lifanir sem skoðandinn skynjar og meðtekur, þótt kennileitin séu harla óljós. En þetta er þó bersýnilega hluti af landinu kristallað ótal ljósbrotum og er líkast sem skoðandinn horfi í gegnum gagnsæja slikju. Tíminn stendur kyrr en er þó svífandi, og skoðandinn stendur við fótskör eilífðarinnar, býr þó við þau forréttindi að vera ekki horfinn úr mannheimi." (Morgunblaðinu 25.07.95.)

Honum gengur hinsvegar erfiðar að fóta sig þegar hann reynir að fjalla um myndlist sem ekki byggir á klassískum atriðum myndbyggingar. Litum og formum, pensilskrift eða haganlegri formun höggmyndar. Hann kvartar þá gjarna yfir fátæklegum upplýsingum frá listamönnunum. Upplýsingum um hvað þeir eru að fara með myndlist sinni, hver sé kveikjan að verkunum og hvað þau eigi að sýna. Hann ætlast til þess að listamaðurinn segi honum hvernig honum beri að túlka verkin og ef Bragi er svo heppinn að listamaðurinn fylgi sýningu sinni úr hlaði í rituðu máli, verður gagnrýni hans oftar en ekki umskrifun á þeim texta. Þetta verður þannig oft engin gagnrýni eða sjálfstæð umfjöllun, heldur eitthvað meira í ætt við fréttatilkynningu um sýninguna.

Hver skyldi vera ástæða þess að gagnrýnandinn getur skrifað ágætlega um sumt sem fyrir augu ber í íslenskum sýningarsölum, en virðist ófær um að tjá sig í öðrum tilfellum? Ég held að svarið við þeirri spurningu sé einfalt: Bragi Ásgeirsson er hreinlega ólæs á hluta samtíma myndlistar. Það er líka grátleg staðreynd að hann veit af þessu sjálfur, en áttar sig ekki á hvílík bæklun þetta er fyrir mann sem tekið hefur að sér að skrifa gagnrýni um myndlist. Hann er meira að segja svo blindur á vanhæfni sína að hann hikar ekki við að skella skuldinni á myndlistarmennina sjálfa og kenna þeim um að hann skilji ekki list þeirra. Hann gengur jafnvel svo langt að telja það eina af frumskyldum þeirra að skrifa um verk sín, en það þykir mér afar ósanngjörn krafa manns sem sjálfur fæst við að búa til myndir. Allt þetta kemur berlega í ljós í eftirfarandi grein um sýningu í galleríi Sævars Karls:

"Það er ekkert lát á svokölluðum innsetningum í rými í listhúsum borgarinnar og eðlilega ekki heldur því, að við umfjallendur þeirra kveinkum okkur í ljósi upplýsingafátæktar á framkvæmdunum. Jafnvel nokkrar hugleiðingar á einblöðungi geta komið okkur á sporið, en eins og sýningarnar eru settar fram kalla þær á skrif innvígðra sérfræðinga, sem margir eiga drjúgan hlut í þróuninni. En skyldu ekki jafn fáir lesa slík skrif og rata á sjálfar sýningarnar er svo er komið?

Það er svo alveg víst, að innsetningar eiga að flytja boðskap hvort heldur opinn og ótvíræðan sem lokaðan og dulmagnaðan, en menn vilja hafa eitthvað í lúkunum til að ganga út frá, til að geta nálgast og meðtekið vísdóminn.

Að sjálfsögðu varða hin margvíslegustu tákn vegferð mannsins og er hér enginn að bera brigður á, að þau séu fullgild, hvernig svo sem þeim er raðað í tilfallandi sýningarrými. Spurningin er einfaldlega út frá hverju er gengið í það og það sinnið, því maður býst síður við að hér sé um staðlað ferli að ræða og sjaldnast liggur það ljóst fyrir. Það mætti jafnvel skilgreina það á þann veg að líkast er sem borinn sé eldur að kveikiþræði, að sinna þessari sjálfsögðu upplýsingaskyldu, og hann kveikir vel að merkja og sem betur fer aldrei á sér sjálfur. Þá greinist starfsvettvangur listrýna síður af hæfileika þeirra á sviði getspeki eða að leysa gátur, og er hér til fullmikils ætlast.

Gjörningur Eyglóar Harðardóttur er jafn fullgildur og margir þeir sem hafa sést í sama rými og jafnvel lífrænni og þannig séð markverðari, en satt að segja treysti ég mér ekki til að ráða í hann í ljósi upplýsingafátæktar. Og framvegis læt ég það vera, að skrifa um sýningar sem vanrækja frumskyldu slíkra framkvæmda eins og maður sér það hvarvetna gert í marktækum sýningarsölum erlendis." (Morgunblaðinu 27.09.95.)

Það er alveg rétt að ef menn ætla sér að fjalla um myndlist af einhverju skynsamlegu viti verða þeir að hafa þá innsýn og þekkingu til að bera sem er grundvöllur þess að geta skrifað áhugaverða gagnrýni. Það er reyndar trú mín að skrif innvígðra sérfræðinga geti ekki orðið jafn innantóm og margar greinar Braga og ekki veit ég hvað hann hefur fyrir sér í því að þær yrðu ekki lesnar. Þætti mönnum það ekki líka undarlegt ef t.d. bókmenntagagnrýnandi neitaði að skrifa um, segjum rímuð ljóð, vegna þess að hann hefur ekkert í höndunum um það hvað hann eigi að skrifa?

En hvað er hægt að segja við mann sem lætur hafa eftir sér í viðtali að vegna þess að hann hefur skrifað gagnrýni og búið til myndlist í samtals 42 ár sé honum allt leyfilegt:

"Hann ræðir um störf sín hjá Morgunblaðinu og segir skrif sín hafa breyst í gegnum árin á þann hátt að nú sé hún efnismeiri, enda leggi hann mikla vinnu í að fylgjast vel með öllu sem er á seyði hérlendis sem erlendis. Bragi talar um að gagnrýni þurfi að vera rökstudd, en er hans gagnrýni alltaf studd nógu góðum rökum?

"Ég er með 42 ára reynslu að baki og það eru næg rök,"..." (Morgunblaðinu 10.02.96.)

----

Ath. Af tæknilegum ástæður hefur birting þessarar greinar dregizt úr hömlu. Blaðið biður hlutaðeigendur velvirðingar á því.

Höfundur er myndlistarmaður búsettur í Singapore.

Stefán Jónsson