Kristinn Sigurðsson Hinn 18. janúar síðastliðinn lagðist afi okkar til hinstu hvílu. En þó svo að andlát hans hafi ekki komið okkur að óvörum þá er maður aldrei fullkomlega tilbúinn til að taka jafn sorglegum tíðindum. Á meðan við sitjum hér og skrifum þessa grein eru okkur óneitanlega efst í huga þær ótalmörgu gleðistundir sem við áttum með honum.

Afi hafði mikla kímnigáfu og var einstaklega orðheppinn maður. Heyrði það til undantekninga ef hann átti ekki síðasta orðið í góðlátlegum rökræðum og lúmsk og hnyttin tilsvör hans áttu það til að kæta margan ungan manninn. Hann hafði mikið dálæti á skáldskap og þuldi oft og tíðum stökur sem hann hafði ótrúlega gott lag á að festa sér í minni. Káinn var í sérstöku uppáhaldi hjá afa. Það er ekki að furða enda voru þeir báðir gamansamir þó svo að þeir hafi ekki haft sömu kynni af Bakkusi. Okkur er það sérstaklega minnisstætt þegar hann þuldi með glott á vör:

Gamli Bakkus gaf mér smakka

gæðin bestu, öl og vín,

og honum á ég það að þakka,

að þú ert ekki konan mín!

Fylgdi þá að sjálfsögðu með aðdragandi þessarar vísu en fyrir þá sem ekki vita var hann sá að vinkona Káins var að setja út á drykkjuskap hans og hafði á orði að hann hefði getað valið sér kvonfang að öðrum kosti.

Afi var á sínum efri árum mikill tómstundafíkill og leið jafnan best með annaðhvort spil eða veiðarfæri í hönd og var hann manna fyrstur til að kenna okkur að beita hvorutveggja. Skákáhuga hafði hann mikinn og háðum við margar orusturnar á taflborðinu. Þótti okkur það mikill sigur ef við biðum ekki lægri hlut. Þær voru ófáar veiðiferðirnar er við lögðum upp í og alltaf var tilhlökkunin mikil að fara með afa og freista þess að krækja í þann "stóra". Þingvallavatn var í miklu uppáhaldi til þessara iðkana enda hafði hann verið að veiða þar frá barnæsku og kunni um það margar sögur. Fersk í minni er sagan er hann sem smá patti hjólaði með tvo fulla strigasekki heim í Hækisdal í Kjós eftir sæmilega vel heppnaða veiðiferð. Ekki færri skemmtilegar sögur hafði hann að segja úr Kjósinni en þar ólst hann upp og sterk tilfinningabönd tengdu hann þeim stað.

Afi var jafnan höfðingi heim að sækja og var hann aldrei sáttur nema að maður hefði eitthvað matarkyns við hönd. Var þar jafnan maulað ofnhitað maltbrauð og maltöl teigað með á meðan menn skemmtu sér við spilamennsku.

Afi mun allaf lifa í hjörtum okkar og í þeim ríkir þakklæti fyrir allt það er hann hefur gefið okkur. Í huga okkar er mikill maður látinn og verður hans alltaf minnst sem slíks.

Jóhann og Helgi Karl.