Sigríður Sveinbjörnsdóttir Hún amma mín er farin frá okkur eða stutt amma eins og börnin mín voru vön að kalla hana, vegna þess að hún sagðist vera svo stutt að hún bæri ekki nafnið langamma. Það var nú ekki amalegt að koma heim úr skólanum og fá heitt kakó og nýbakaðar pönnukökur sem amma var að baka. Hún amma var búin að vera ekkja í rúm 28 ár. Hún var oft heima hjá foreldrum mínum á veturna og um hátíðir. Það var oft gaman að fylgjast með henni þegar hún var að taka upp jólapakkana sem komu frá börnunum hennar. Þá var það fastur liður þegar við hjónaleysin og börnin vorum að fara norður á mínar heimaslóðir að koma við í Bergholti og fá sér kaffisopa og bakkelsi og jafnvel að taka hana með okkur til Þórshafnar.

Hún amma var mjög barngóð. Það var alveg sama hvar hún var, alltaf voru börnin í kringum hana. Það var nú kannski ekki furða þar sem hún átti 13 börn sjálf og hún kom þeim öllum vel til manns. Hún amma var mjög nægjusöm og aldrei heyrði maður hana kvarta, það var fyrir rúmum tveimur árum að hún fór að kenna sér meins og þá var farið að stunda læknana. En enginn varð batinn. Síðast þegar við sáum gömlu konuna fyrir 5 mánuðum var hún nokkuð hress og talaði um að fara í Bergholt, sem var hennar heimili. Hún dvaldi síðustu 10 mánuðina á dvalarheimilinu Naust á Þórshöfn og var vel hugsað um hana.

Megi minning um góða ömmu verða öðrum eins dýrmæt og hún varð mér.

Ellý og fjölskylda.