Þorstein Þórðarson Reykhól Mig langar að minnast með nokkrum orðum tengdaföður míns, Þorsteins Þórðarsonar frá Reykhól, sem er látinn. Það var fyrir um tíu árum að ég var fyrst kynntur fyrir honum og þá sem hugsanlegur tengdasonur. Ekki veit ég hvernig honum leist á það, en ég man vel þessa stund, því það hafði sterk áhrif á mig að spjalla við hann á þessum tíma. Hann var þá hættur búskap allnokkru áður en dóttir hans Bergljót og Guðmundur maður hennar tekin við. Það var árið 1945 sem þau hjónin hann og kona hans Unnur Jóhannsdóttir frá Iðu í Biskupstungum hófu búskap á Reykhól og byggðu þar upp myndarlegt býli. En 1976 urðu miklar breytingar á lífi hans þegar hann fékk heilablóðfall og náði hann sér aldrei alveg líkamlega eftir það. Það má ljóst vera hvílíkt áfall það er fyrir mann á besta aldri, ef svo má segja, að vera þannig í einu vetfangi kippt út úr þeirri lífskeðju sem hann sem bóndi var búinn að koma sér upp. Hann bjó á sínum tíma með kýr og kindur og nokkra hesta og eftir því sem mér er sagt hugsaði hann alla tíð mjög vel um sitt bú. það var oft fróðlegt að spjalla við Steina um þessi búskaparár. Á fyrstu árunum tóku þeir sig til bændurnir á Reykjum og víðar og heftu uppblásturinn sem var á sandinum efst á Skeiðunum. Sú vinna sem var á sínum tíma lögð í það skilaði sér ríkulega, því nú eru þar víða grösug tún og fagrir vellir. En allt var þetta gert með höndunum og kostaði mikinn grjótburð og annað erfiði. Hann sagði mér einnig frá fjallferðum hér fyrr á árum og hinum ýmsu uppákomum í þeim ferðum. Réttirnar voru líka alltaf skemmtilegar og á meðan hann gat vildi hann fara út í réttir á réttardaginn svona til að kíkja á fólk og fénað. Í nokkur ár vann hann í sláturhúsinu í Laugarási á haustin og þótti mér alltaf gaman að ræða um þann tíma við hann því þar var ég einnig í nokkur haust. Þorsteinn þótti með afbrigðum hraustur maður og eru ýmsar sögur til af honum því til staðfestingar. Þetta hefur áreiðanlega hjálpað honum mikið eftir að hann veiktist því þangað til fyrir rúmu ári gat hann gengið einn og óstuddur um hlöðin á Reykjum og nánast alveg fram á síðasta dag var hugsun hans skýr og minnið ekkert farið að bila. Steini, eins og hann vildi helst láta kalla sig, var af þeirri kynslóð okkar Íslendinga sem lifað hefur það að sjá þjóðina flytjast úr torfbæjum í blokkir og iðnbyltingin í öllu sínu veldi var yfirþyrmandi. Það er erfitt að hugsa sér að ekki sé lengra síðan en þegar hann var ungur þá slógu menn með orfi og ljá og verkuðu hey eins og hafði verið gert frá alda öðli. Nú á dögum binda menn í rúllubagga á klukkutíma það sem hefði verið slegið á þeim tíma yfir heilt sumar. Þessum breytingum fylgdist Steini vel með og alltaf þegar maður kom að Reykhól hafði hann gaman af að tala um búskap og hugurinn var mikill þegar kom að slætti. Þá fór hann stundum út á hlað og spáði í hlutina hjá ungu bændunum og eins og margir eldri bændur sem hættir eru búskap var hann óspar á ráðleggingar til þeirra sem teknir voru við. Þrátt fyrir þá fötlun sem Steini varð fyrir sat hann helst aldrei iðjulaus. Þær eru orðnar margar körfurnar sem hann fléttaði úr tágum og einnig hnýtti hann mikið af blómahengjum. Í hvern og einn hlut lagði hann mikla alúð og lét ekki frá sér nema það sem hann var alveg ánægður með. Það voru líka margir undrandi á því hvernig hann fór að þessu með aðeins aðra höndina í fullkomnu lagi. Þau Steini og Unnur eignuðust sjö börn sem öll hafa komið sér upp fjölskyldum, barnabörnin eru orðin mörg og svo er komið eitt barnabarnabarn. Þetta er nokkuð stór hópur og fer ekki lítið fyrir honum þegar hann kemur saman en það gerist til dæmis alltaf á jóladag. Það er enginn vafi að á slíkum stundum hefur Steini verið stoltur af þessum hóp þó honum fyndist stundum nóg um hávaðann sem fylgdi því að fá barnabarnaskarann í heimsókn. Þessi hópur var líka duglegur að heimsækja hann eftir að hann var lagður inn á hjúkrunarheimilið Ljósheima á Selfossi og það var honum án efa meiri styrkur en maður gerir sér grein fyrir.

Þau Steini og Unnur voru alla tíð mjög samrýnd hjón. Alveg frá þeim tíma sem hann veiktist fyrst, fyrir um 20 árum, hefur hún verið honum sú stoð og stytta sem hann vissulega þurfti á að halda meira en nokkuð annað. Hún hugsaði um hann af stakri þolinmæði og lipurð og vék nánast aldrei langt frá honum. Bergljót og Guðmundur á Reykhól voru honum líka mjög hjálpleg og var samgangur alltaf mikill og góður á milli þeirra, enda er innangengt á milli húsanna þar sem þau byggðu þétt upp við gamla húsið.

Með Þorsteini Þórðarsyni er genginn vandaður og heiðarlegur maður. Ég bið Guð að blessa minningu hans og styrkja Unni í sorg sinni sem og alla aðra aðstandendur og vini.

Pálmi Hilmarsson.