Gerðahverfi II tengt hitaveitunni á þessu ári: Meiri líkur á að fyrirtækið skili arði eftir því sem fleiri standa að baki því ­ segir Sigurður J. Sigurðsson, formaður veitustjórnar HITAVEITA verður lögð í Gerðahverfi II á þessu ári.

Gerðahverfi II tengt hitaveitunni á þessu ári: Meiri líkur á að fyrirtækið skili arði eftir því sem fleiri standa að baki því ­ segir Sigurður J. Sigurðsson, formaður veitustjórnar

HITAVEITA verður lögð í Gerðahverfi II á þessu ári. Þeir notendur sem tengja hús sín hitaveitunni fá afslátt af orkugjöldum, húseigendur sem eru með rafmagnsvatnsofnahitun og rafhitað neysluvatn fá afslátt af orkugjaldi um leið og þeir tengja hitakerfi húsa sinna hitaveitu. Um er að ræða 35% afslátt sem gildir til 1. janúar árið 1992. Húseigendur sem eru með rafmagnsþilofnahitun og rafhitað neysluvatn fá afslátt af orkugjaldi þegar þeir breyta hitakerfum sínum og tengja þau hitaveitu. Afslátturinn verður 35% og gildir til 1. janúar 1995.

Á fundi bæjarstjórnar Akureyrar sl. þriðjudag gerði Sigurður J. Sigurðsson formaður veitustjórnar grein fyrir forsögu málsins, en allt frá þeim tíma að ákveðið var að leggja hitaveitu á Akureyri var gert ráðfyrir að öll hús tengdust veitunni. Framkvæmdum við lagningu hitaveitu í Gerðahverfi II var hins vegar frestað vegna óvissu varðandi vatnsöflun. Sigurður sagði að sjónarmið hita- og rafveitu hefðu togast á, en reynt hefði verið að samræma sjónarmið þessara tveggja fyrirtækja; til lengri tíma litið væri ákvörðunin hagkvæmari fyrir hitaveituna en rafveituna.

Í hverfinu eru um 180 hús, en það er svipaður fjöldi húsa og tengist hitaveitunni á einu ári. Áætlaðurkostnaður vegna lagningarinnar erum 20 milljónir króna, en tekjur hitaveitunnar af tengigjöldum eru um 10 milljónir. Áætlað er að kostnaður fyrir hvern húseiganda vegna tengingar við hitaveituna sé um 300 þúsund krónur og býðst þeim er skipta yfir 200 þúsund króna lán frá Húsnæðisstofnun. Lánið er til átta ára og er afborgunarlaust fyrstu tvö árin.

Sigurður sagði í samtali við Morgunblaðið að breytingar á sölufyrirkomulagi Landsvirkjunar sem tekur gildi 1991 muni gera raforkusölu til húshitunar óhagkvæmari en hún er nú. Rafveita Akureyrar þyrfti að hækka gjaldskrá hitataxta til að ná sömu tekjum eftir breytingu og hún hefur í dag.

Þetta er þáttur í markaðsátaki hitaveitunnar og það er augljóst að þeim mun fleiri sem standa að baki rekstrinum þeim mun meiri líkur eru á að fyrirtækið geti skilað bæjarbúum arði þegar til lengri tíma er litið," sagði Sigurður. Markaðsátak veitunnar hefur staðið undanfarin tvö ár og sagði Sigurður árangurinn góðan, fjölmargir hefðu breytt hitakerfum húsa sinna til að geta tengst hitaveitunni og væri það vísbendingum að slíkt gæti einnig átt sér stað í Gerðahverfi II.

Á bæjarstjórnarfundinum bar Sigurður Jóhannesson (B) fram tillögu um að málinu yrði vísað til stjórnar veitustofnana að nýju, en hún náði ekki fram að ganga. Meirihlutinn samþykkti að hitaveita yrði lögð í hverfið, en tveir sátu hjá, Sigurður og Guðfinna Thorlacius (D), en í máli þeirra kom meðal annars framað rafveitan hefði lagt í mikinn kostnað til að geta þjónað hverfinu sem best. Einnig var lengri aðlögunartími nefndur í þessu sambandi og að gerð yrði skoðanakönnun meðal íbúanna um hvort þeir vildu tengjast hitaveitunni.