Þankar í upphafi Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson Bjarni Bjarnason: UPPHAFIÐ. Augnhvíta 1989. Upphafið er fyrsta bók ungs höfundar, Bjarna Bjarnasonar. Að hætti byrjenda veltir hann ýmsu fyrir sér og freistar að gera ljóð úr þönkunum.

Þankar í upphafi Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson Bjarni Bjarnason: UPPHAFIÐ. Augnhvíta 1989. Upphafið er fyrsta bók ungs höfundar, Bjarna Bjarnasonar. Að hætti byrjenda veltir hann ýmsu fyrir sér og freistar að gera ljóð úr þönkunum. Eitt þeirra nefnist Ráð:

Hugsaðu ekki um hvað þú ert

heldur hvað líti út fyrir að þú sért

Hugsaðu ekki um hvernig þér líður

heldur hvernig líti út fyrir að þér líði

Hugsaðu ekki um hvað þér finnst um þig

heldur hvað öðrum kann að finnast um þig

Stundum mætti halda að höfundurinn væri reynslunni ríkari, hefði lifað tímana tvenna. Í Leiðum kemst hann vel að orði, bregður upp hnyttinni ævimynd:

Ung og hrifnæm

dreyma hvort um annað

hafa enn ekki ratað saman

seinna öldruð hjón

hver voru fyrstu orðin

Ljóð samnefnt bókinni er langt, í senn í því mælska og leikur sem lofa góðu. Endurtekningar skipta töluverðu máli í ljóðinu. Það sem háir tjáningu Bjarna er aftur á móti að rabbstíllinn verður of fyrirferðarmikill og á kostnað myndrænu sem oft ræður úrslitum í ljóðlist. En hér er góð viðleitni á ferðinni og það má vissulega segja um fleiri ljóð Upphafsins.

Yfirleitt nær Bjarni Bjarnason bestum árangri í styttri ljóðum, honum hættir til að vera ekki nógu markviss í þeim lengri. Undantekning er þó Hann sagði þar sem umbúðalaus talstíllinn nýtur sín.

Ljóðin í Upphafinu eru misjöfn og fá beinlínis eftirminnileg. En það eru átök, leit í þeim bestu og slíkt fer vel í bókum eftir ung skáld.

Bjarni Bjarnason