Öldungadeild Bandaríkjaþings: Smíði FSX-þotunnar samþykkt Washington. Reuter. Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur lagt blessun sína yfir samning milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Japan um smíði nýrrar orrustuþotu, FSX-þotunnar.

Öldungadeild Bandaríkjaþings: Smíði FSX-þotunnar samþykkt Washington. Reuter. Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur lagt blessun sína yfir samning milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Japan um smíði nýrrar orrustuþotu, FSX-þotunnar. Er niðurstaða þessi talin umtalsverður sigur fyrir ríkisstjórn George Bush Bandaríkjaforseta.

Forsetinn og ýmsir háttsettir embættismenn höfðu lagt hart að þingmönnum að samþykkja samninginn. Fram kom tillaga þess efnis að hætt yrði við smíði þotunnar en hún var felld með 52 atkvæðum gegn 47. Þeir sem andvígir eru þvíað Bandaríkjamenn og Japanir ráðist í sameiningu í þetta verkefni hafa haldið því fram að ríkisstjórn Bush eigi að krefjast þess að Japanir falli frá verndarstefnu sinni, sem getið hefur af sér umtalsverðan ójöfnuð í viðskiptum landanna. Hafa þeir hinir sömu sagt að raunhæfara væri að selja Japönum orrustuþotur af gerðinni F-16 í stað þess að gera þeim kleift að framleiða FSX-þotuna, sem minnir um margt á fyrrnefndu gerðina. Neiti Japanir að samþykkja þennan kost beri að grípa til efnhagslegra refsiaðgerða gegn þeim.

Öldungadeildin samþykkti sérstakt viðbótarákvæði við samninginn sem demókratinn Robert Byrd, lagði fram í umræðunni. Það kveður m.a. á um eftirlit með framkvæmd verkefnisins til að tryggja að eitthvert þriðja ríki geti ekki fært sér í nyt tækniþekkingu þá sem beitt er við smíði þotunnar. Ríkisstjórnin hafði lýst sig andvíga ákvæði þessu en það var samykkt með 72 atkvæðum gegn 27.

Reuter