Guðmundur H.

Guðmundur H. Garðarsson: Efla þarf löggæzluna ­ afnema á pólitískar stöðuveitingar

EFLING löggæzlunnar hefur hvergi nærri haldist í hendur við þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa: vöxt þéttbýlis, fjölgun ökutækja, framvindu í lögbrotum, ásókn fíkniefna o.s.frv. Þörfin fyrir aukna vernd borgaranna eykst stöðugt.

Svo mælti Guðmundur H. Garðarsson efnislega í þingræðu er hann talaði fyrir þingsályktunartillögu níu þingmanna Sjálfstæðisflokks úr öllum kjördæmum landsins, þess efnis, að Alþingi "feli dómsmálaráðherra að grípa nú þegar til ráðstafana er feli í sér eflingu löggæzlu í landinu".

Guðmundur sagði að öflug löggæzla væri einn af hornsteinum lýðræðislegra stjórnarhátta. Örar þjóðfélagsbreytingar, sem orðið hefðu, gerðu vaxandi kröfur um ýmiss konar löggzælu á flestum sviðum, en ekki sízt vegna umferðarmála og forvarnarstarfs gegn ofbeldi og fíkniefnum. Íslendingar hefðu ekki farið varhluta af "þeirri alvarlegu þróun sem fylgir útbreiðslu og neyzlu fíkniefna ... Skipulagðir glæpahringir teygðu anga sína um allan heim, þ.á m. til Íslands".

Þingmaðurinn sagði að fyrir fimm árum hefði verið einn lögreglumaður í umferðardeild á höfuðborgarsvæðinu á hver 1000 skráð ökutæki. Nú væri öldin önnur. Í dag væri einn lögreglumaður á 1930 ökutæki.

Í almennri deild, er sinnti útköllum og hverfaeftirliti, væru lítið eitt fleiri lögreglumenn en árið 1944, þegar íbúar vóru helmingi færri en nú er - og verkefnin fábreyttari og smærri í sniðum. Svipaða sögu væri að segja af öðrum deildum löggæzlunnar.

Þingmaðurinn sagði nauðsynlegt að styrkja öll starfssvið löggæzl unnar: almenna löggæzlu, eftirlit með umferð, rannsóknir og fíkniefnavarnir - sem og fjarskiptaþjónustu löggæzlunnar. Og síðast en ekki sízt Lögregluskóla Íslands.

Þá sagði þingmaðurinn að "af nema beri pólitískar stöðuveitingar, eins og þær eiga sér nú stað í gegnum dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneyti". Hann taldi slík "pólitísk afskipti" hugsanlega skýringu á því "að dómsmál og lög gæzlumál eru komin í þá niðurníðslu í dag" sem raun væri á.