Guðmundur Jóhannsson Elskulegur frændi minn, Guðmundur Jóhannsson, er dáinn. Ég var svo lánsöm að kynnast honum í veikindum okkar, fyrst á gjörgæsludeild Landakotsspítala og síðan fórum við á Heilsuhælið í Hveragerði. Þar áttum við svo margar ógleymanlegar stundir saman.

Þar kynntist ég þessum yndislega móðurbróður mínum, sem ég þekkti lítið áður. Hann bauð mér í margar bílferðir og fræddi mig um svo ótal margt.

Við hjónin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta þau hjón glöð og hress í Skíðaskálanum í Hveradölum síðastliðið sumar og áttum við með þeim hjónum yndislega stund, sem er mér ógleymanleg. Þá minningu mun ég geyma ásamt laginu hans fallega "Minning" sem hann gaf mér nótur af.

Ég bið Guð að blessa Lóu hans, börnin og barnabörnin, sem ég vissi að voru honum svo kær.

Þessar ljóðlínur eftir Stgr. Thorsteinsson hæfðu honum vel:

Elli þú ert ekki þung

anda guði kærum

Fögur sál er ávallt ung

undir silfur hærum.

Guð blessi minningu hans.

Bergþóra Þorvaldsdóttir